Gamalt ævintýri fær nýjan búning

Blær Guðmundsdóttir sendir frá sér sína fyrstu bók í ár, ævintýrið og Sipp og Skrat og systkini þeirra; Sippsippanipp, Sippsippanippsippsúrumsipp, Skratskratarat og Skratskrataratskratskúrumskrat. Í Sipp, Sippsippanipp, Sippsippanippsippsúrumsipp – systurnar sem ætluðu sko ekki að giftast prinsum tekur Blær gamalt ævintýri og setur það í nýja og bráðfyndin búning. Blær er líka myndhöfundur bókarinnar og hægt er að sjá alls kyns smáatriði í teikningunum sem öruggt er að fái einhverja til að skella upp úr.

Hverjar eru þessar prinsessur?

Sipp, Sippsippanipp og Sippsippanippsippsúrumsipp eru systur og prinsessur sem giftast þremur bræðrum/prinsum sem heita Skrat, Skratskratarat og Skratskrataratskratskúrumskrat.

Er sagan byggð á einhverju eldra ævintýri?

Já sagan er byggð á gamalli munnmælasögu/ævintýri um Sipp og systur hennar og Skrat og bræður hans sem amma mín og mamma sögðu mér oft. Ævintýrið er talið eiga rætur sínar að rekja til Danmerkur en birtist fyrst hér á landi í riti í jólablaði Æskunnar árið 1945, en hefur án efa gengið manna á milli miklu lengur. Ævintýrið er skemmtilegur tungubrjótur því nöfnin verða flóknari og flóknari því fleiri sem börnin verða. En í gamla ævintýrinu kemur ekkert fram hvernig þau kynnast eða af hverju þau giftast og ég ákvað því að búa til sögu um það.

Í bókinni eru ótal bráðfyndnar smámyndir og sagan sjálf er mjög skemmtileg. Hvað fannst þér skemmtilegast að teikna eða skrifa?

Mér finnst skemmtilegast að teikna myndir þar sem ég get leyft húmornum að skína í gegn. Ég laumaði inn allskyns smáatriðum og ég vildi hafa myndirnar þannig að þó maður værir búinn að lesa bókina nokkrum sinnum þá gæti maður samt jafnvel enn verið að finna einhver smáatriði í myndunum. Eins laumaði ég inn bröndurum sem höfða hugsanlega meira til fullorðinna sem lesa með börnunum. Það er auðvitað skemmtilegast þegar maður situr flissandi og finnst maður vera voða fyndinn hvort sem það er við skriftir eða að teikna.

Hvað viltu að lesendur taki með sér eftir lesturinn?

Gleði, að það sé gaman að lesa.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...