Drungi, spenna og Breska heimsveldið

Villueyjar er önnur bók Ragnhildar Hólmgeirsdóttur. Fyrri bókin, Koparborgin, kom út árið 2015 og vakti töluverða athygli fyrir frumleg efnistök og hlaut meðal annars Bókmenntaverðlaun Reykjavíkurborgar 2016 fyrir bestu frumsömdu barnabókina og tilnefningu til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs. Villueyjar hefur síðan hlotið tilnefningu til Fjöruverðlaunanna og hreppt annað sætið í flokki íslenskra ungmennabóka í vali íslenskra bóksala.

Stór heimur

Í Koparborginni skrifaði Ragnhildur um Pietro, ungan dreng sem kemst af eftir að drepsótt þurrkar út stóran hluta af íbúum borgarinnar. Ef staðsetja ætti sögusvið Koparborgarinnar einhvers staðar í raunheimum þá væri það ítölsk borg á tímum endurreisnarinnar. Í Villueyjum hefur tíminn liðið og komið er fram að iðnbyltingu, en þó ekki. Ragnhilur velur og hafnar tækniframförum, allt eftir því sem henni finnst henta sögusviðinu. Þannig er til dæmis rennandi vatn í húsum en ekki rafmagn. Eylöndin, sögusvið Villueyja, eru líka töluvert norðar en Koparborgin. Eylöndin eru eins og Bretlandseyjar, nema bara smærri og dreifðari. Eins og Færeyjar, nema bara mikilfenglegri. Ragnhildur hefur skapað söguheim sem er ljóslifandi fyrir lesandanum. Hún gefur í skyn stærri heim en er sýnilegur í bókinni sem skapar þá tálsýn að höfundur viti nákvæmlega hvar hver einasti steinn þess heims liggur. Það er list sem er æskilegt að höfundum sem skrifa furðusögur sé tamt.

Það var með nokkurri eftirvæntingu sem ég beið eftir Villueyjum. Ég las Koparborgina upp til agna á tveimur dögum þegar hún kom út – hefði lesið hana hraðar hefði ég ekki haft skyldum að gegna. Ég veit hvers Ragnhildur er megnug þegar kemur að skrifum og ég veit líka hve nákvæm hún er. Það skal játast strax að Ragnhildur er meðlimur Lestrarklefans en ég reyni að láta það ekki hafa áhrif á umfjöllunina.

Jarðbundin – en þó ekki

Sagan segir af Arildu, fjórtán ára stúlku sem stendur á þeim tímamótum að sjá það í fyrsta sinn að það sem hún hefur alist upp við er kannski ekki það eina rétta eða eðlilegt. Hún ólst upp í niðurnýddu húsi á eyju með afa sínum og bróður, Maurice, en foreldrar þeirra létust sviplega með stuttu millibili. Saman sækja þau systkinin skóla á eyðieyju sem er langt frá öðrum eyjum í Eylöndunum. Allt þetta þótti henni eðlilegt þangað til hún verður fyrir því að lenda í bráðri lífshættu í víðavangshlaupi á eyjunni sem skólinn stendur á. Þá fer hún að spyrja spurninga um tilvist skólans á eyjunni. Svörin skapa fleiri spurningar og hægt og rólega kemst Arilda að því að lausnin á ráðgátunni er langt frá því að vera auðveld. Ráðgátan teygir anga sína að tilkomu konungsveldisins á Eylöndum, landnám, yfirtökur, dauða foreldar þeirra systkina og jafnvel töfrum.

Sagan er hvort í senn jarðbundin og annarsheimsleg. Arilda er nokkuð týpísk, bókhneigð og feimin stúlka sem þarf að leggja hart að sér til að ná markmiðum sínum. Tilfinningalíf hennar er fullmótað og hún er djúp persóna sem auðvelt er að láta sér þykja vænt um. Að sama skapi fer manni að þykja vænt um þá sem hún beinir ást sinni að. Ég dáist að því hve vel Ragnhildi tókst að skrifa um tilfinningalíf Arildu. Það er margt sem togast á í henni, eins og er raunin hjá mörgum unglingum. Sennilega þótti mér átakanlegast að lesa sorgina sem Arilda finnur þegar henni finnst hún hafa brugðist Maurice, yngri bróður sínum. Ég hef aldrei lesið eins áþreifanlega sorg. Ég þurfti að loka bókinni til að jafna mig.

Á sama tíma og Arilda og Maurice gera eins jarðbunda hluti og fara á sundmót í nágrannabæ þá eru líka til töfrar í bókinni. Íbúar Eylandanna eru þó ekki eins sannfærðir um tilvist töfra. Þótt lesanda sé það dagljóst að galdrara séu til í sagnaheimi Ragnhildara, þá er það flestum sögupersónum mikið efaefni. Inn í bókina spinnast sögur af drúídum, farandsöngvurum, skjalasöfnum og leiðinlegum kennurum.

Eylöndin er nýlenda sem svipar mjög til Breska heimsveldisins, þegar það var upp á sitt besta. Það er sterk gagnrýni á nýlendustefnu í bókinni. Til dæmis er ófögrum orðum farið um framkomu nýlenduherranna gagnvart drúídunum, sem voru frumbyggjar eyjanna. Tilraunir foreldar Arildu til að rétta það sem rangt var gert voru ansi máttlausar og minna ögn á pólitíska rétthugsun síðustu ára. Ég vil lítið segja um hvað Ragnhildur meinar með þessu, en fyrir mér minnir þetta mann á að það er stundum of seint að reyna að bæta fyrir það sem rangt var gert í fortíðinni.

Beðið eftir næstu bók

Kápa bókarinnar er gullfalleg, rétt eins og kápa Koparborgarinnar. Græni liturinn minnir á blauta mýri, sem er mikill áhrifavaldur í bókinni, og mýrarblómin mynda fallegan krans um nafn bókarinnar.

Ég efast um að ég geti mælt nógsamlega með þessari bók. Ég sat á stólbríkinni þegar ég las um báráttu Arildu í víðavangshlaupinu. Ég grét með henni í sorginni. Ég fórst næstum úr forvitni og fróðleiksþorsta með henni og ég pirraði mig á hægagangi. Helst af öllu hefði ég ekki viljað að bókin endaði og ég hefði fengið að fylgja Arildu áfram. En ef ég þekki stíl Ragnhildar rétt þá er ég vonlítil um framhald af þessari bók. Í staðinn bíð ég spennt eftir nýrri bók úr sagnaheimi Ragnhildar. Eins og áður sagði er Ragnhildur mjög nákvæmur höfundur og það eru engir lausir þræðir í bókinni, nema þeir sem hún vill að séu lausir.

 

 

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...