Það er óvenjulegt þegar maður opnar íslenska skáldsögu að vera hent inn í nokkuð annað umhverfi en gamla góða Ísland. Því er það hressandi að byrja á Málleysingjunum, fyrstu bók Pedro Gunnlaugs Garcia, sem hendir manni beint inn í Búkarest árið 1989: Sundurskotin líkin af einræðisherrahjónunum Nicolae og Elenu Ceaucescu eru í sjónvarpinu, föngum er sleppt lausum úr öryggisfangelsum og snúa heim til fjölskyldna sinna, skuggar af sjálfum sér. Einn þeirra heitir Octav, sem hafði setið af sér refsingu fyrir að prenta andbyltingarsinnuð rit og að hvetja konu sína til að eyða fóstri. Í fangelsinu hafði hann snúið baki við öllum sínum prinsippum, komið upp um alla sína félaga og næstum misst vitið. En þegar allt virtist hvað vonlausast bárust honum skilaboð á mors-kóða sem var sleginn á pípulagnir fangelsisins. Skilaboðin voru ljóðræn, frústrerandi, falleg og torskilin í senn. Og þau voru slegin af páfagauki.

Það þarf varla að hafa fleiri orð um plott bókarinnar (af hverju þetta er aðeins lítið brot) til að gera öllum ljóst að hér er engin venjuleg skáldsaga á ferðinni. Þetta verk er einfaldlega allt öðruvísi en nokkuð annað sem ég hef lesið á íslensku og það sló mig við lesturinn hversu innhverfar íslenskar bókmenntir oft eru – þær fjalla svo gjarnan um spurninguna „hvað er Ísland?“ og „hvað er að vera Íslendingur?“ á einu formi eða öðru. Þetta sjónahorn hefur meira að segja þrengst undanfarin ár og það eru farnar að koma út bækur sem fjalla um fátt annað en hvernig það sé að vera rithöfundurinn sem skrifaði bókina. Þessi samfélagsmiðlainspíreraði sjálfsmyndarfókus er í raun byrði og klafi á skáldskapnum, sem kemur sérstaklega vel í ljós þegar maður les eitthvað eins og Málleysingjana – bók sem hefur svo breiðan sjóndeildarhring að lesandann allt að því sundlar.

Bókin gerist að hluta til í „Húsi Lýðveldisins“ í Búkarest, geggjaðri monthöll einræðisherrans Ceaucescus.

Bókin er í þremur hlutum. Sá fyrsti gerist í Rúmeníu um og eftir byltingu en hinir tveir á Íslandi á tímum góðæris, hruns og nýs góðæris. Til að byrja með sér maður erfiðlega hvað tengir fyrsta hlutann við hina tvo en ákveðin þemu fara að koma í ljós þegar nær endanum er komið. Fyrir utan að karakterar fyrsta hlutans fara að birtast aftur í þeim síðasta fer lesandinn að finna fyrir því hvernig meginumfjöllunarefnið birtist í nafni bókarinnar. Hér er fjallað um málleysi, að geta ekki tjáð sig þannig að maður skilst, að geta ekki skilið svo að maður geti tjáð sig á móti, að geta ekki brugðist við öðrum öðruvísi en með því að grafa sér æ dýpri gröf. Þessar aðstæður skilningsleysis, angurs og grimmdar eru teknar alla leið í bókinni sem beitir gjarnan því stílbragði að ýta öllu fram að ystu nöf, búa til reductio ad absurdum, og verður frásögnin oft brjálæðislega grótesk. Klígjugjarnir lesendur þurfa að fara varlega…

Umrædd tilhneyging höfundar til að taka hlutina lengra og lengra er ekki bara áhrifamikil og víða óborganlega fyndin, heldur skapar hún líka helsta vandamál verksins. Hömluleysið á það til að draga úr fókus bókarinnar. Augljóslega er það ætlun höfundar að hafa ótal bolta á lofti í einu en þá kemur á móti hlutverk ritstjóra, sem er að leyfa verkinu að tala með sinni sérstöku rödd en koma þeirri rödd eins skýrt á framfæri og hægt er (sem hér væri kannski gert með því að fækka örlítið boltum á lofti.) Stundum er eins og höfundi liggi svo mikið á hjarta að hann yfirgnæfir raddir eigin karaktera og brýtur þar með flæðið og frásögnina upp. En niðurstaðan er verk sem er svo svimandi ríkt að hugmyndaflugi og frásagnargleði að flest fyrirgefst. Bókin minnir mig helst á Meistarann og Margarítu þegar best tekst til, og á The Seventh Function of Language (fr. La septième fonction du language) eftir Laurent Binet þegar verst tekst til. En ég tek undir með fyrri ritdómurum í Kiljunni og víðar: Þetta er einhver áhugaverðasta frumraun íslensks höfundar í langan tíma, bók sem setur markið svo hátt að það sést varla lengur og tekst samt að komast yfir það án þess að það líti út fyrir að vera neitt tiltökumál fyrir botnlausa sköpunargáfu höfundar. Ég hlakka til að sjá hvað hann gerir næst.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...