Raðnauðgari í Reykjvík og sjálfsmorð á Hólmsheiði

Fjötrar er fimmta bók Sólveigar Pálsdóttur um rannsóknarlögreglumanninn Guðgeir. Áður hafa komið út bækurnar Leikarinn (2012), Hinir réttlátu (2013), Flekklaus (2015) og Refurinn (2017). Bækurnar um Guðgeir hafa allar fengið nokkuð góðar viðtökur en það bar ekki mikið á Fjötrum í nýliðnu jólabókaflóði. Líklega er þar um að kenna gríðarlegu magni af alls kyns bókum í flóðinu.

Fjötrar er fyrsta bókin sem ég les eftir Sólveigu. Ég heillaðist strax af hinum föðurlega og hlýja Guðgeiri. Það var nokkuð ljóst að hann hefur lent í einhverjum ógöngum í starfi í fyrri bókum sem hefur kennt honum auðmýkt. Særós sem áður var undirmaður hans er orðinn yfirmaður og aðrar tilfæringar hafa orðið á starfsmönnum á lögreglustöðinni. Guðgeir tekur þessu öllu með stóískri ró. Hann er eiginlega aðeins of rólegur yfir öllu saman. Hann er verndari kvenna og mjög feminískur. Í raun er mjög auðvelt að láta sér þykja vænt um hann og að sama skapi efast maður aldrei um að hann hafi rangt fyrir sér. Þegar að rannsókn málsins kemur dregur maður því aldrei í efa að hann sé að lenda í ógöngum, sem dregur aðeins úr spennu bókarinnar.

Guðgeir og félagar rannsaka það sem í fyrstu virðist vera einfalt sjálfsmorðsmál. Kristín Kjarr, listakona, fremur sjálfsmorð í fangelsinu á Hólmsheiði. Svo virðist sem skuggar úr fortíð hafi sótt að henni. Inn í málið flækist áhrifavaldur af samfélagsmiðlum og ríkir Garðbæingar. Þegar raðnauðgari fer að flakka um Reyjavík fer svo allt á fullt. Tengjast þessi mál kannski?

Það skal segjast strax að fléttan í bókinni kom mér ekki á óvart. Strax um miðja bókina var ég þess fullviss um hver væri hinn ógnvænlegi raðnauðgari og ég hafði rétt fyrir mér. Það var hins vegar áhugavert að sjá hvernig Sólveig lét allt saman ganga upp.

Sagan er nokkuð einhliða. Lesandinn fylgist með Guðgeiri nær allan tímann, ásamt smá leiftrum úr fortíð Kristínar. Það vantaði dýpt í söguna sem hefði náðst með því að hleypa lesandanum aðeins inn í líf persónanna í kring – leyfa lesandanum að fylgjast með samskiptum fleiri persóna. Guðgeir var mjög góð persóna og persónusköpun hans nokkuð djúp. Sama máli gegnir um áhrifavaldinn Andreu. En ég hefði viljað fá að vita meira um Guðrúnu og Særósu sem vinna að málinu með Guðgeiri. Kannski er þeirra líf í stærra hlutverki í fyrri bókum?

Á kápu bókarinnar sjáum við fangaklefa Kristínar Kjarr. Málverk af karlmanni stendur við vegginn en svo virðist sem málverkin hafi verið skorin í sundur. Það tók mig smástund að tengja kápu bókarinnar við innihald hennar. Og það tekur smá stund að átta sig á að myndin á kápu bókarinnar er ekki bara grár rammi utan um bleik-appelsínugula mynd af karlmanni. Bókin hrópar ekki á athygli.

Fjötrar er róleg glæpasaga með yndislegum, föðurlegum lögreglumanni í aðalhlutverki. Fléttan kom mér ekki á óvart, en Guðgeir bætti örlítið upp fyrir það með hlýju og auðmýkt.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...