Hinn mikli harmur foreldra

Bókin utan vegar kom fyrst út árið 1987, var endurútgefin 1989 samfara enskri þýðingu. Í bókinni yrkir Steinunn Eyjólfsdóttir, höfundur bókarinnar, um sonarmissi. Sonur hennar lést í bílslysi 1985 og ljóðin eru ort í minningu hans.

Steinunn hefur gefið út smásagnasöfn og ljóð sem hafa birst bæði í útgefnum bókum en líka í blöðum og tímaritum. Meðal verka hennar eru Hin gömlu kynni, smásagnasafn, Villirím, ljóð, Kisulíf, barnasaga, Barnaheimilið, barnasaga og Íslenska draumaráðningabókin. Steinunn virðist hafa verið virkust í skrifum á árunum 1981-1988, en ekkert hefur komið út eftir hana síðan þá. Einungis smásagnasafnið hennar kom út fyrir 1981, en það kom út 1969.

Hvert skal leita?

Bókin lætur ekki mikið yfir sér. Sú útgáfa sem ég las kom skáldið sjálft með til mín, bundna inn í gorma, nokkrar síður og mynd af tunglskinsbjartri heiði á forsíðunni. Steinunn byrjar bókina á að tileinka hana fjölskyldum þeirra sem hafa misst börn af slysförum. Hún er til ástvina ykkar / þegar lokkarnir ykkar fögru / eru moldu orpnir / augun lokuð / að eilífu.

Ekkert foreldri vill upplifa það að missa barnið sitt, sama hve gamalt það er. Að upplifa að barnið manns sé í erfiðleikum er sárt, að missa það er enn sárara. Tilfinningarnar í ljóðum Steinunnar eru hráar og sárar. Hún lýsir andvökunóttum, þránni eftir að hitta aftur son sinn, söknuðinum. Nóttin er góð og blíð / draumar hennar betri en dagurinn. / Nóttin gefur manni aftur / fjarstadda ástvini / hressa og glaða. / Nóttin er hliðið / sem syrgjandinn bíður við daglangt.

Steinunn yrkir um þá örvæntingu sem fylgir því að missa barn. Í einu ljóðanna kemur fram að hún hafi áður misst barn þegar hún segir ég held ég hafi hitt þig fyrst í kirkjugarði. / Ég leitaði að leiði bróður þíns. Það er ekkert skrýtið að kona sem hefur upplifað aðra eins sorg skuli leita sér styrks hjá guði.  Um miðbik bókarinnar fer guð að vera nálægari og hvergi er hann nálægari en þegar ljóðmælandi segir: Og ég segi í huganum: / Við höfum þetta af  / við tvö / við höfum það saman // Og þá segi rödd Guðs í huganum: / Við höfum það þrjú / ég verð alltaf með ykkur.

Lífið í dauðanum

Þó eru ljóðin ekki eingöngu uppfull af sorg. Þótt dauðinn sé nærri þá má ekki gleyma lífinu sem var. Þannig fléttar Steinnunn svolítilli kímni í sorgina.

Það er svo langt síðan.

Eða var það í gær?

Sem þú varst í níunda bekk.

Uppreisnarandinn

furðuleg tiltæki 

töfrarnir miklu

stolnir lyklar 

trassagangur  

hlátur

óþolandi tónlist.

Þú skreiðst í gegnum prófið

varst orðinn stór.

Lagðir til hliðar áætlanir

um að berja kennara

á jafnréttisgrundvelli.

Það tekur því ekki

sagðir þú

það er ekki gustuk.

Allar væringar gleymdar.

Þú varst svo stór.

Og lífið beið.

Og í gegnum sorgina má sjá glitta í þakklætið fyrir lífið sem var og liðnar samverustundir. Ljóðabókin er heildstætt verk um söknuð og sorg, en jafnframt gleði og þakklæti. Hún rótar vel í tilfinningalífinu.

 

Lestu þetta næst

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...