Fór allt eins og það átti að fara?

Raunverulegt líf Guðbjargar Tómasdóttur eftir Þórarinn Örn Þrándarson er ekki bók sem kallar á athygli, það er því ekki undarlegt að hún hafi drukknað í bókaflóðinu fyrir jólin. Aftan á kápunni segir: „Ljóðskáldið Guðbjörg Tómasdóttir, nú fimmtíu og fimm ára, hefur í gegnum árin  skrifað niður minningar sínar og hugrenningar. Við upprifjun á þessum skrifum tekst hún á við líf sitt og persónu.“ Og ég verð að segja eins og er að þessi texti fangar mig alls ekki. Líkt og kápan, heimtar hann ekki athygli og það var því með nokkrum semingi sem ég byrjaði á henni.

Þórarinn segir sögu Guðbjargar í gegnum hana sjálfa. Og það er svolítið skrýtið að fljótlega eftir að maður byrjar á bókinni verður Þórarinn algjörlega fjarverandi í huga lesandans og Guðbjörg tekur yfir. Það er Guðbjörg sem situr við lyklaborðið og pikkar inn sögu sína. Og saga hennar er óneitanlega mjög bundinn manni hennar heitnum, Ástþóri. Það virðist vera sem Guðbjörg hafi algjörlega lifað í gegnum manninn sinn, sem er töluvert eldri en hún. Hún hoppar örlítið um í tíma í frásögninni en maður tapar aldrei þræðinum, því Guðbjörg er góð sögukona.

Guðbjörg hin viðkvæma og valdalausa

Bókin er öll gríðarlega lágstemmd og róleg líkt og persóna Guðbjargar. Hún er viðkvæm og segir frá hlutunum með nærgætni og örlítlli viðkvæmni. Guðbjörg hefur ekki völd. Hún hefur aldrei haft völd yfir lífi sínu að neinu ráði og það fer að skína í gegnum skrif hennar. Það er ekki hægt að segja að það séu toppar í bókinni, heldur líður hún áfram. Persóna Guðbjargar er alltumlykjandi – þessi rólega afslappaða og passíva persóna.

Í gegnum skrifin dregur Guðbjörg upp mynd af lífi sínu, hún segir frá dögunum þegar hún elti Ástþór, manninn sinn, og ástkonu hans á milli staða. Guðbjörg dregur upp mynd af manninum sínum, sem alltaf virðist hafa upplifað sig misheppnaðan og valdlausan. Hann er með gríðarlega minnimáttarkennd gagnvart föður hennar. Hún segir frá samskiptum við fjölskylduna sína og hægt og rólega sér maður að það var kannski ekki allt með felldu í lífi Guðbjargar. En Guðbjörg segir það þó aldrei berum orðum. Hún segir bara hlutina eins og þeir voru, atburði sem áttu sér stað, tilfinningar sem kraumuðu. Það voru orð sem voru sögð og önnur sem lágu ósögð, jafnvel þar til það var orðið um seinann.

Þegar bók nær tökum

Framan af náði bókin alls ekki að fanga mig. Mér fannst Guðbjörg virkilega óheillandi persóna; óáveðin og valdalaus. Hvernig gæti miðaldra, misheppnað ljóðskáld haft eitthvað að segja? Um miðbik bókarinnar greip bókin mig þó. Þórarinn lætur Guðbjörgu segja frá öllu með yfirvegun og ró, svo atburðir sem kannski umturnuðu lífi hennar eru ekki eins áberandi og dramatískir í framsetningu og þær gætu verið. Það er engin dramatík, fyrr en lesandinn gerir sér grein fyrir að það er sterk undiralda í öllu sem Guðbörg er að skrifa. Undir yfirborðinu er stormur. Þar leynist örvænting og eftirsjá. Það var auðvelt að festast í þankagangi Guðbjargar. Það var auðvelt að gleyma sér. Þórarni tókst líka að koma til skila kyrkingslegri spennu milli þeirra hjóna, spennu sem var áþreifanleg þótt ekkert væri sett beint í orð. Þess vegna er léttirinn í lok bókarinnar eins og stigið hafi verið af brjósti lesandans. Þyngslum létt af honum, rétt eins og af Guðbjörgu. Það eina sem stendur eftir er örlítil eftirsjá fyrir því sem er tapað.

Sannfærandi persóna

Persóna Guðbjargar er svo fullmótuð að það er með ólíkindum að karlmaður á miðjum fertugsaldri hafi skapað hana. Þórarinn hefur gott vald á íslenskri tungu og hinu ritaða orði. Stíllinn er ljóðrænn, næmur og fallegur. Lesandinn tengist Guðbjörgu mest af öllum en aðrar persónur eru fáar og óljósar. Ástþóri kynnist lesandinn á forsendum Guðbjargar og sér hann þar af leiðandi með hennar augum. Og maður fer að kenna í brjóst um hann.

Hugsanir Guðbjargar eru stundum ögn tætingslegar, hún hoppar úr einu í annað. Af og til missir maður þráðinn, en það kom þó ekki að sök. Eftir lestur bókarinnar skil ég betur kápu hennar, þótt hugsanlega hefði mátt hanna áhugaverðari kápu á bókina. Kápur skipta máli, hvað sem hver segir. Einnig var erfitt að byrja á bókinni, einfaldlega af því að maður var lengi að komast að því hvert Þórarinn vildi fara með lesandann.

Eftir lesturinn sat bókin í mér. Hún sat svo fast í mér að ég átti erfitt með að halda áfram og byrja á næstu bók. Tíminn líður ógnar hratt og hraðar eftir því sem maður verður eldri. Hver og einn á bara eitt líf. Það er ekki öruggt að manneskjan hafi mörg tækifæri til að upplifa hamingjuna. Það er því eins gott að stilla hlutum svo upp í lífinu að allt fari eins og það eigi að fara og hamingjan geti orðið sem mest.

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...