Tími til að lesa – Stefna að heimsmeti í lestri

Í dag hleypti Mennta- og menningarmálaráðuneytið af stokkunum verkefninu Tími til að lesa. Verkefnið er lestrarverkefni þar sem börn og fullorðnir eru hvött til að nýta tímann til lesturs við núverandi aðstæður. Hægt er að skrá lesturinn á vefsíðunni timitiladlesa.is, fylgjast með hvatningu frá öðrum lesendum og rithöfundum, sjá heildar fjölda mínútna sem hafa verið lesnar af þeim sem hafa skráð sig til leiks og þann fjölda mínútna sem þú hefur lesið.

Verkefnið mun standa til 30. apríl og að því loknu verður þess freistað að fá afraksturinn skráðan í Heimsmetabók Guinness. „Slíkt hefur ekki verið gert áður og því yrði hér um að ræða fyrsta heimsmet sinnar tegundar. Metið gæti orðið viðmið annarra þjóða, eða okkar sjálfra til að bæta með tíð og tíma,“ segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Þar segir ennfremur að lestur sé sérstaklega mikilvægur fyrir börn „enda ræðst námsárangur barna að stórum hluta af lesskilningi sem eykst með auknum lestri“. Lestur veiti að auki fullorðnum örvandi hvíld frá amstri og áhyggjum dagsins og með lestri aukum við saman veg íslenskrar tungu. „Orðaforði eykst, nýjar hugmyndir kvikna, skilningur á lesmáli batnar og þannig skilningur á heiminum öllum. Þá styður aukinn lestur við skapandi störf rithöfunda og þýðenda. Því meira sem við lesum því betra!“
Lestrarklefinn hvetur alla til að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni. Saman setjum við heimsmet!

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...