Konan í blokkinni eftir Jónínu Leósdóttur er fyrsta bókin í Eddumálum og kom út árið 2016. Fyrir skömmu kom út fimmta bókin um Eddu, Andlitslausa konan. Það eru ekki margar bækur sem koma út á þessum tíma ársins. Oftar en ekki eru það þýddar kiljur – en líka nýjasta Eddumálið. Það gefur bókunum svolitla sérstöðu og eflaust margir sem bíða eftir næstu bók um hina kokhraustu og kjaftforu Eddu.
Ósýnilegur eftirlaunaþegi leysir sakamál
Ég á óskaplega erfitt með að byrja á einhverju í miðjunni. Hvað þá að byrja á endanum! Ég vildi líka kynnast Eddu frá fyrsta máli hennar. Edda er afskaplega ákveðinn eftirlaunaþegi og fyrrverandi bókasali sem á mjög erfitt með að sitja auðum höndum. Jónína á mjög auðvelt með að skapa húmor í kringum Eddu. Þannig er talsmáti hennar vel til þess fallinn að auðga orðaforða lesenda með fornum orðum en ekki síður er þankagangur hennar afskaplega skoplegur stundum. Það er nefnilega ekki allt rökrétt sem yngra fólk tekur sér fyrir hendur í augum hinna eldri.
Í þessari fyrstu bók af Eddumálum fær lesandinn að kynnast Eddu, Viktori tengdasyni hennar, Leifi (hinum tengdasyninum) og fleirum úr fjölskyldu hennar. Vegna óbilandi hnýsni og afskiptasemi Eddu flækist hún í mannránsmál og sviptir hulunni af svikara.
Hin eitursvala Edda
Eins stærsta ástæðan fyrir því að ég fékk gríðarlegan áhuga á að lesa Eddumál er sú að Jónína Leósdóttir er afskaplega skemmtileg persóna á samfélagsmiðlum. Hún hefur húmor en er á sama tíma mjög fræðandi. Ég ímynda mér að persóna Jónínu (sem ég þekki þó alls ekki neitt persónulega) svífi yfir allri bókinni. Þannig er Edda með eitraðan húmor en samt alltaf fróðleg. Hún er hræðilega hnýsin og lætur ekkert stoppa sig. Edda er líka fáránlega töff, með sítt grátt hár og gengur um í art deco fötum og innréttar allt í þeim stíl. Þar að auki drekkur hún rauðvín eins og vatn, nýtur þess að borða góða osta og kann bara almennt að njóta lífsins. Hún er hægt og rólega að verða að lukkudýri mínu og átrúnaðargoði.
Vel skrifaðar tilfinningar
Jónína hefur sjálf sagt bækurnar um Eddu vera mýkri glæpasögur. Það rennur ekki blóð eftir götunum en það er ekki þar með sagt að það sé engin þjáning. Steinunn, unga konan í blokkinni, þjáist gríðarlega í sögunni. Og Jónína miðlar þeim sársauka ótrúlega vel. Hugsanir Steinunnar og þankagangur afhjúpa hægt og rólega hvað hefur komið fyrir og hvers vegna og lesandinn fær að leysa sakamálið á sama tíma og Steinunn og Edda. Það er allt öðruvísi að sjá glæpinn frá huga fórnarlabsins og forvitnu nágrannakonunnar heldur en að fylgjast með rannsókn lögreglunnar eins og venjan hefur verið í glæpasögum. Tilfinningar kvennanna eru líka vel skrifaðar og viðbrögð þeirra við ofbeldinu sem þær upplifðu eru trúverðug.
Heilt yfir þótti mér Konan í blokkinni afskaplega skemmtileg lesning og þar spilar persónan Edda stóra rullu. Jónína hefur skemmtilegan stíl og ég er forvitin að vita hvaða ævintýrum Edda rambar á í næstu bókum.