Heiðursglæpur á Þingvöllum?

Í fimmtu bókinni af Eddumálum, Andlitslausa konan eftir Jónínu Leósdóttur fer Edda í brúðkaup á Þingvöllum. Fyrrum samsarfskona Eddu býður henni í brúðkaup sonar síns með skömmum fyrirvara. Þótt Eddu þyki fyrirvarinn stuttur og boðið heldur undarlegt ákveður hún að slá til og dregur Finn, nágranna sinn úr blokkinni, með sér. Einnig er Dagný Edda, dótturdóttir Eddu, stödd á Þingvöllum til að mynda brúðkaupið ásamt vinkonu sinni Unu. Þegar glæpur er framinn tekur Edda að sér stjórn aðstæðna (hver annar hefði átt að gera það?) og endar inni í litla burstabænum sem er bústaður forsætisráðherra. Inn í söguna fléttast líka saga Dagnýjar Eddu og Unu, en þær leyna á sér. Það eru því tvö mál í bókinni sem Edda þarf að hnýsast í á sinn einstaka hátt.

Túristaþreytan

Það var óskaplega gaman að fá að kíkja inn í bústað forsætisráðherra með Jónínu, enda húsið sveipað vissri dulúð. Sjálf hef ég alltaf verið gríðarlega forvitin um innviði hússins. Maður fær það samt á tilfinninguna að Jónína hafi ekki verið of hrifin af dvöl í húsinu eða ágangi túrista. Túristunum lýsir hún eins og svermi af sníkjudýrum sem standa glápandi í gegnum glugga með síma á lofti til að taka myndir. Þeir voru eins og andlitslaus hjarðdýr í uppákomunni á Þingvöllum.

Jónínu bregst ekki bogalistin í Andlistlausu konunni. Sagan er vel uppbyggð, aldrei efaðist ég um röksemdir fyrir veru Eddu á staðnum. Allt gekk upp og small saman eins og gott púsl. Lausn málsins kom mér mjög á óvart, sem var mjög skemmtilegt. Þá tók ég líka eftir því að Edda er ekki óskeikul og getur haft rangt fyrir sér, sem var líka svolítið óvænt. Skilaboðin eru líklega þau að best sé að leyfa lögreglunni að sinna rannsókn sakamála en ekki „fólki út í bæ“.

Litríkar persónur

Persónur í bókinni eru afskaplega skemmtilegar. Tengdasynirnir tveir eru í miklu uppáhaldi hjá mér, sérstaklega Viktor sem ýtir undir endalausa afskiptasemi Eddu. Persónurnar í bókinni eru velmótaðar, skemmtilegar og samtöl þeirra á milli finnst mér trúverðug. Ég tók sérstaklega eftir samtölum á milli unglingstelpnanna tveggja, Unu og Dagnýjar Eddu, sem mér fannst vel heppnuð. Þar sem hver og ein persóna hefur sinn einstaka stíl nær Jónína að skapa dýpri persónur sem auðveldara er að bindast tilfinningaböndum. Fjölskylda Eddu er áberandi í bókinni og lesanda er strax farið að þykja vænt um æði margar persónurnar.

Skáldsagnapersónan

Þar sem bókin er sú fimmta í röðinni þarf stundum að minna á atburði fyrri bóka. Fyrir einhvern sem hefur ekki lesið allar bækurnar þá er upprifjunin ágæt, til að skapa smá samhengi í bókaflokkinn en það er þó nær óþarfi þar sem hver bók stendur fyrir sínu og er nokkuð sjálfstæð. Fyrir þann sem hefur lesið allar bækurnar gæti það verið leiðigjarnt að fá upprifjun í tíma og ótíma.

Sumir gætu spurt sig hvort það sé trúverðugt að einn ellilífeyrisþegi nái að flækjast í eins mörg sakamál og nú er orðin raunin. Á móti myndi ég spyrja hvort það sé raunhæft að aftur og aftur séu framin morð í Sandhamn, sem er sögusvið bóka Vivecu Sten. Edda er bráðskemmtileg sögupersóna og ég vona að hún haldi áfram að detta niður á ráðgátur, vandamál og sakamál í framtíðinni. Andlitslausa konan er vel uppbyggð glæpasaga með hversdagshetjunni Eddu.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...