Það er með nokkurri óþreyju sem ég hef beðið eftir annarri bók um Dinnu eftir Rose Lagercrantz með myndskreytingum eftir Evu Eriksson. Fyrri bókin, Hamingjustundir Dinnu, kom út á íslensku rétt fyrir síðasta sumar og hitti mörg íslensk börn beint í hjartastað.

Hamingjustundir í huganum

Dinna er sex ára stelpa sem býr með pabba sínum og marsvínunum Snjó og Korni. Hún er nýbyrjuð í skóla þar sem hún kynntist Ellu Fríðu og þær urðu óaðskiljanlegar vinkonur. Þær urðu allra bestu vinkonur í öllum heiminum. En svo flytur Ella Fríða burt og Dinna þarf að finna hamingjuna upp á nýtt. Í nýju bókinni, Hjartað mitt skoppar og skellihlær, er Dinna enn að jafna sig eftir að Ella Fríða flytur burt til Norðfjarðar. Hún er þó enn hamingjusöm, því hún velur að horfa á hamingjustundir sínar fremur en óhamingjustundirnar. Hún hugsar til dæmis um ferðina til Norðfjarðar yfir síðustu páska, þar sem þær Ella Fríða léku sér saman í marga daga. En það verður erfitt að einbeita sér að hamingjunni þegar Villa og Milla taka upp á að klípa Dinnu og hún missir stjórn á skapi sínu í skólanum.

Hvert orð skiptir máli

Bækurnar um Dinnu eru orðnar sjö talsins á sænsku. Fyrsta bókin kom út árið 2010 og vakti strax mikla athygli í Svíþjóð. Hróður bókanna barst víða og hratt og náði á lista New York Times yfir 100 áhugaverðustu bækur ársins 2013. Það er bara eitthvað við Dinnu-bækurnar sem heillar bæði börn og fullorðna. Lagarcrantz hefur einstakt lag á að setja saman texta sem er svo merkinguþrunginn að það er með ólíkindum. Guðrún Hannesdóttir, skáld og þýðandi bókanna, kemur þessum vandaða stíl Lagercrantz mjög vel til skila. Hvert orð í bókinni skiptir máli. Fyrir vikið verða bækurnar mikið stærri en þær líta út fyrir að vera, ekki síst þar sem myndir Ericsson bæta heilu köflunum við bækurnar.

Í hverju liggja töfrarnir?

Í bókunum er talað við börn á þeirra tungumáli um þeirra málefni án þess að talað sé nokkru sinni niður til þeirra. En þær tala líka mjög sterkt til fullorðinna sem upplifa æskuna upp á nýtt í gegnum töfrumþrunginn textann. Dinna er einlæg og falleg og tilfinningarnar fá að flæða óheftar í gegnum blaðsíðurnar til lesandans. Og lesandinn skilur fullkomlega allt sem Dinna gengur í gegnum. Við upplifum með henni óhefta gleði, særindi, sorg, biturð, reiði, tilhlökkun og hamingju. Allar þessar tilfinningar á nokkrum blaðsíðum.

Ég veit af börnum sem hafa lokið við fyrsta lestur á Dinnu-bók og byrjað á henni aftur. Ég veit um börn sem geta ekki komið því í orð af hverju þeim líkaði bókin, hún sé bara skemmtileg. Ég veit að ég fyllist svo ótrúlegri hlýju við lestur bókanna að mér fannst ég springa af hamingju. Það er eitthvað við Dinnu-bækurnar! Myndir Ericsson miðla þessum hráu tilfinningum fullkomlega til lesandans.

Ekki missa af Dinnu-bókunum

Bækurnar gefa líka einstakt tækifæri til að spjalla við börnin um líðan í skólanum. Eru aðstæður Dinnu eitthvað sem þau hafa upplifað sjálf? Hvað myndu þau gera ef þau lentu í svona? Af hverju létu Villa og Milla svona við Dinnu? Það er ótrúlegt hvað kemur upp úr krökkunum þegar þau fara að bera líf sitt saman við líf Dinnu. Það er auðveldara að tala um skólalífið þegar það er hægt að bera það saman við líf sögupersónu.

Bækurnar eru gefnar út í mjúkri kilju. Letrið í bókinni er stórt og textamagn á blaðsíðu hentar mjög vel þeim sem eru að byrja að lesa. Þær eru töluvert ódýrari er margar aðrar barnabækur og því ættu fjárráð ekki stoppa foreldara, forráðamenn eða aðra ættingja frá því að koma Dinnu-bók í réttar hendur. Og réttar hendur eru hendur allra barna, því allir hafa gott af því að lesa um Dinnu – strákar og stelpur. Það ætti enginn að láta Dinnu fram hjá sér fara.

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...