Fyrir stuttu kom út bókin Þar sem óhemjurnar eru eftir bandaríska höfundinn Maurice Sendak (1928-2012), í þýðingu Sverris Norland. Sagan um Max sem ferðast til óhemjanna kom fyrst út í bandaríkjunum árið 1963 og þótti þá svolítið grótesk, þar sem óhemjurnar voru svolítið óhuggulegar og hræðilegar. En það kom þó ekki í veg fyrir að börn elskuðu bókina. Bókin hefur því lengi staðið á stalli, með öðrum gæða barnabókum, sem ein af bestu barnabókum allra tíma. Það er mikill fengur að fá bókina um óhemjurnar þýdda yfir á íslensku.

Nagaða bókin

Lestrarupplifun okkar mæðgina hefur ekki verið neitt nema jákvæð síðan bókin kom í hendurnar á okkur. Raunar var sá ungi svo ánægður með bókina að hann nagaði hana og reyndi að éta. Ég reyni að svekkja mig ekki um of á nöguðu bókinni og hugsa til þessarar sögu sem Sendak sagði sjálfur:

„A little boy sent me a charming card with a little drawing on it. I loved it. I answer all my children’s letters – sometimes very hastily – but this one I lingered over. I sent him a card and I drew a picture of a Wild Thing on it. I wrote, ‘Dear Jim: I loved your card.’ Then I got a letter back from his mother and she said: ‘Jim loved your card so much he ate it.’ That to me was one of the highest compliments I’ve ever received. He didn’t care that it was an original Maurice Sendak drawing or anything. He saw it, he loved it, he ate it.“

Álitsgjafi Lestrarklefans er rúmlega tveggja ára að þessu sinni og sýnir bókinni mikinn áhuga, skoðar myndirnar af nákvæmni og hefur alltaf eitthvað nýtt að segja um myndirnar. Þar að auki er hann búinn að læra stóran hluta af bókinni utan að og bergmálar lesturinn þegar við lesum hana á kvöldin. „…og veggirnir hleyptu inn allri veröldinni.“ Það er töfrandi að fylgjast með litla huganum hans reyna að koma hugtökunum fyrir sig. Hann skilur mjög sennilega ekki allt, en hann mun gera það seinna. Þangað til hlustar hann á hrynjandann í lestrinum og skoða myndirnar. Það eina sem ég harma við lesturinn er að hann vill alls ekki gangast við því að óhemjurnar séu óhemjur, þær séu einfaldlega draugar. Við lesum því draugabókina á hverju kvöldi.

Þar sem ímyndunar aflið er

Sendak var fyrst og fremst myndhöfundur, en skrifaði nokkrar barnabækur. Þar sem óhemjurnar eru er fyrsta barnabókin sem hann skrifar og myndskreytir sjálfur. Sagan segir af Max, sem er svolítil óhemja sjálfur. Hann er sendur í herbergið sitt án kvöldverðar. En inni herberginu opnast fyrir honum heill heimur og hann siglir burt á vit óhemjanna sem gera hann að konungi. Og það hefst mikill ærslagangur. En svo fer Max að verða einmana og fær heimþrá og hann hrópar stopp á óhemjurnar. Max fer aftur í bátinn sinn, þrátt fyrir mótmæli óhemjanna sem þrá félagsskap hans, og hann siglir heim. Þar sem kvöldmaturinn bíður hans, enn heitur.

Sagan setur í orð og myndir kraft ímyndunaraflsins. Max fer í áralangt ferðalag, sitjandi í herberginu sínu, með ímyndunaraflið eitt að vopni. Þrátt fyrir að vera innilokaður og í skammarkrók, þá kemst hann burt. En það er samt alltaf jafn gott að komast heim. Kristín Ragna Gunnarsdóttir benti réttilega á í spjalli í Bókamerkinu að Sendak leyfir ærslaganginum að taka yfir bókina þegar hann á þremur opnum sleppir öllum texta. Myndirnar fá að ráða. Þetta eru uppáhalds opnur álitsgjafans og þær er hægt að skoða í þaula. Myndirnar eru í fallega róandi litum, ég kann ekki að nefna þá alla. Þó væri ég til í að fá nokkrar þeirra innrammaðar í barnaherbergið, þær eru einfaldlega svo fallegar og töfrandi og uppfullar af ævintýrum.

Fengur fyrir íslenska lesendur

Það hefur ekki verið einfalt verk að þýða bók sem þessa, þar sem textinn er knappur og blæbrigði orðanna skipta öllu. Sverri Norland tókst vel upp við þýðinguna og  nær að koma anda bókarinnar til skila til lesandans. Það er ekki allt sagt með orðum, það eru endurtekningar og svo eru sum orð stuðluð (orguðu ógurlega), sem ég kann alltaf óskaplega vel við. Textinn svífur því áreynslulaust áfram sem gerir lestrarupplifunina ánægjulegri. Það er gaman að sjá lítið forlag eins og AM forlag leggja sig fram um að koma gæða barnabókum til íslenskra barna. Það eina sem er mögulega gagnrýnisvert við íslensku útgáfuna er að af einhverri ástæðu vindur bókin upp á sig og stendur því opin sé hún lögð á borð. Það er þó ekkert sem má ekki laga með því að pressa hana í yfirfullri bókahillu af barnabókum (sem ég vona innilega að sé til á hverju heimili).

Að lokum geta lesendur okkar svo glöggvað sig ensku útgáfunni af bókinni í langdregnum, en bráðskemmtilegum, lestri Christopher Walken.

 

Það má líka skjóta því að, að sagan um Max hefur verið kvikmynduð tvisvar. Núna síðast árið 2009.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...