Barnabókmenntir í aðalhlutverki í Tímariti Máls og menningar

23. maí 2020

Elín Elísabet Einarsdóttir teiknaði myndina sem prýðir kápu tímaritsins.

Í síðustu viku kom út annað hefti Tímarit Máls og menningar ársins 2020. Þema tímaritsins að þessu sinni er barnabókmenntir og því hvetur Lestrarklefinn lesendur sína til að næla sér í eintak af tímaritinu.

Barnabókmenntirnar eru skoðaðar úr ýmsum áttum í fimm greinum auk þess sem Þórarinn Eldjárn opnar heftið með þremur nýjum barnaljóðum og öll bókmenntagagnrýnin fjallar um barnabækur, þar á meðal er ítarleg gagnrýni um Villueyjar eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur. Margrét Tryggvadóttir fer yfir feril Sigrúnar Eldjárn, sem á fjörutíu ára höfundarafmæli í ár.

Í kynningu á efni tímaritsins segir enn fremur: „Utan þemans er efnið fjölbreytt og spennandi, lesendur fá að kynnast Renée Vivien í fyrstu grein Önnu Gyðu Sigurgísladóttur um gleymdar skáldkonur fyrri tíma, Selma Guðmundsdóttir rifjar upp sögulega uppsetningu á styttum Niflungahring eftir Wagner og Þorvaldur Gylfason dregur saman verkefnin sem Ísland á enn ólokið nú, tólf árum eftir hrun. Skáldskapurinn er að venju fjölbreyttur; saga Steinunnar G. Helgadóttur fangar andann í samfélaginu með nafninu einu: „Sóttkví“ (það skyldi þó aldrei verða orð ársins!) og Ari Jóhannesson rifjar upp veturinn þegar síðasta farsótt geisaði á Íslandi í nístandi fallegu ljóði. Þá bregður Ásta Björk Sveinbjörnsdóttir ljósi á líf kommakrakka og verðlaunasaga Örvars Smárasonar „Sprettur“ lýsir óvenjulegri sundferð. Loks má finna kærkomna huggun í bráðskemmtilegri hugvekju Sverris Norland um dagbókarskrif þar sem fullyrt er að öllum sé „nauðsynlegt að fá öðru hverju hvíld frá stríðinu og kliðnum: taka sér tíma í að híma.““

 

Lestu þetta næst

Óskar er einhverfur

Óskar er einhverfur

Óskar elskar lestir: Bróðir minn er einhverfur eftir Ernu Sigurðardóttir Hvernig myndi þér líða ef...

Forrest Gump Íslands

Forrest Gump Íslands

Óli K. er fagurlega gerð ljósmyndabók með ævisögulegu ívafi um líf og störf ljósmyndarans Ólafs K....