Ég er gefin fyrir sálfræðitrylla og það er fátt sem kitlar mig jafn mikið og óáreiðanleg söguhetja, eða andhetja. Það þarf ekki að lesa mikið lengra heldur en til enda fyrsta kafla í Elskuleg eiginkona mín, eða My Lovely Wife eins og bókin heitir á frummálinu, til að átta sig á því að þar er á ferðinni einhvers konar blanda af báðu.

Elskuleg eiginkona mín kom nýlega út hjá bókaútgáfunni Björt. Bókin er fyrsta bók höfundarins, Samönthu Downing, og þýdd af Mörtu Hlín Magnadóttur. Bókinni hefur verið líkt við skáldsöguna Horfin og Dexter sjónvarpsþættina (sem einnig eru byggðir á skáldsögu), og ég ætla að leyfa mér að taka undir þá samlíkingu. Aðalsöguhetjan, sem við fáum aldrei að vita rétt nafn á en kallar sig stundum Tobias, minnti mig einnig áþreifanlega á hinn (ó)geðfellda Joe Goldberg úr Þú

Slétt og fellt á yfirborðinu

„Tobias“ og elskuleg eiginkona hans, Millicent, kynnast um borð í flugvél og fella hugi saman. Þau giftast, eignast tvö börn, kaupa hús sem þau hafa varla efni á í fínu úthverfi og festa þar rætur. Hún vinnur sem fasteignasali og hann vinnur sem tennisþjálfari ríka fólksins. Á yfirborðinu er allt slétt og fellt, en þau eiga sér einnig drungalegt áhugamál sem þau halda leyndu fyrir öllum sem þekkja þau.

Ég held að jafnvel hinn hrekklausasti lesandi átti sig á því að þrátt fyrir að kápa bókarinnar gæti með einbeittum brotavilja verið túlkuð þannig að áhugamál þeirra sé eldamennska, þá sé ég ekki að kjafta frá neinu varðandi söguþráðinn þegar ég segi að þetta myrka áhugamál þeirra er að myrða annað fólk.

Góð persónusköpun og trúverðugar lýsingar

Eitt af því sem er listilegt við þessa bók er að ofbeldið á sér að mestu leyti stað á bak við tjöldin. Það er ýjað að ýmsu, en því er aldrei lýst nákvæmlega. Einu lýsingarnar sem lesandinn hefur að styðjast við eru lýsingar „Tobiasar“, sem segir lesandanum ekki einu sinni hvað hann heitir og verður uppvís að því að ljúga að lesandanum í fyrsta kafla. Það er eitthvað ótrúlega óþægilegt við að upplifa ofbeldið í gegnum lýsingar ofbeldismannsins, á meðan hann er að reyna að réttlæta lifnaðarhátt sinn fyrir sjálfum sér. Hárin rísa einnig við lýsingar hans á eiginkonu sinni, sem minna stundum á lýsingu á einhvers konar rándýri.

Höfundi tekst vel upp með persónusköpun og sérstaklega vel með dýnamíkina á milli þeirra hjóna. Börn þeirra koma einnig töluvert við sögu, og bæta við söguþráðinn í stað þess að beina athyglinni frá honum. Lýsingar eru að mestu trúverðugar og miðað við efnistök myndi ég segja að það sé seilst temmilega langt í fléttunni. Þó hefur eftirmáli bókarinnar verið gagnrýndur fyrir ótrúverðuleika og ég get tekið undir þá gagnrýni.

Langdregin á köflum

Helsti ókosturinn við bókina er að hún verður örlítið langdregin í miðjunni. Fyrstu kaflarnir fara allir í að útskýra þennan óvenjulega lífstíl þeirra hjóna og hvernig þau leiddust út í glæpi, og þeir kaflar halda lesandanum hugföngnum. Sama má segja um lokakaflana, þegar fléttan vindur ofan af sér. Ég held að ég hafi aldrei sagt jafn mörg „A-HA!“ á jafn stuttum tíma. Fyrir vikið verður miðbik sögunnar, þar sem lesandann er farið að gruna úrlausn fléttunnar og „Tobias“ er ennþá upptekinn við að réttlæta sig,  langdreginn og flatur miðað við restina. Að mínu mati hefði höfundur mátt gera sér meiri mat úr valdabaráttunni á milli þeirra hjóna, eða nýta tækifærið til að afvegleiða lesandann enn fremur.

Stjörnugjöf

Heilt yfir er þetta hörkuspennusaga sem ég mæli eindregið með, sérstaklega fyrir þá sem gleyptu í sig Horfin og Konan í lestinni. 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...