Ef þú ætlar að lesa eina bók í sumar þá mæli ég hiklaust með því að sú bók sé Sumarbókin eftir Tove Jansson. Bókin kemur út í fyrsta sinn á Íslandi í stórgóðri íslenskri þýðingu Ísaks Harðarsonar, ljóðskálds. Sagan kom út á frummálinu sænsku árið 1972. Nafn bókarinnar kallar á að bókin sé lesin að sumarlagi og ef þú ætlar virkilega bara að lesa eina bók í sumar þá er nær öruggt að Tove Jansson bregðist ekki. Tove er að þekktust fyrir bækurnar sínar um Múmínálfana, en hún skrifaði tíu skáldverk fyrir fullorðna sem vert er að taka eftir.
Úr Múmíndal í Finnskaflóa
Bókin kom út skömmu eftir að ég kláraði að lesa fyrri stórbókina um Múmínálfana. Í algjörri vímu yfir heimspeki múmínálfanna sveif ég á skýi úr hatti galdrakarlsins og dró með mér Sumarbókina. Bókin segir frá ömmu, Soffíu og pabba og lífi þeirra á eyju að sumarlagi í Finnskaflóa. Ég ginnti svo bókaklúbbinn minn til að lesa með mér bókina. Umræðurnar í þeim bókaklúbbi voru þær skemmtilegustu í langan tíma og þá er mikið sagt því það er alltaf gaman í bókaklúbbi.
Fyrstu kynni mín af bókinni voru ekki þau bestu. Í hvert skipti sem ég tók bókina upp sofnaði ég! Hugsanlega kemur þar inn í svefnlausar nætur, kvöldlestur og annað tilfallandi. En þetta var vissulega óheppilegt. Ég man sérstaklega eftir einu kvöldi stuttu eftir að ég hóf lestur á bókinni. Ég var að lesa kafla þar sem amman fylgist með dún á strái – kaflann hef ég lesið nokkrum sinnum síðan þá og dáist af ljóðrænu hans og dýpt. Dúnninn bifast í vindinum, hægt og rólega og amman veltir fyrir sér uppruna dúnsins. Það er eitthvað svo óhemju róandi við þennan texta. Í bókinni eru reyndar ótal svona lýsingar, hver annarri fallegri. Til dæmis er ein persónan á litinn eins og landslagið og það lýsir henni svo vel. Bæði útlitslega og að innræti. En þar sem ég las þessa lýsingu um dúninn steinsofnaði ég og svaf eins og steinn alla nóttina. Eftir þetta las ég í bókinni sitjandi og náði strax betri tengingu við Soffíu og ömmuna og hinn alltaf upptekna pabba.
Þau komu hægt upp að eyjunni á meðan óveðrið varpaði djúpum skugga yfir hafflötinn, öll þrjú sáu þögul og heilluð af óvissunni sem fólk skynjar of sjaldan sem ævintýri.
Róleg og uppfull af gullmolum
Bókin er ekki löng og hver kafli er eins og lítil smásaga, gluggi inn í líf persónanna þriggja. En aðallega Soffíu og ömmunnar. Pabbinn er eins og aukahlutur í bakgrunninum. Það er enginn hasar í bókinni, hún er bara innileg og falleg og full af dásamlegri heimspeki og yndislegum persónum. Persónurnar eru raunar byggðar á raunverulegum manneskjum; pabbinn er bróðir Jansson, Soffía er dóttir hans og bróðurdóttir Tove Jansson og amman er Signe Hammarsten-Jansson, mamma Tove.
Hún fór að velta fyrir sér öllum veigrunarorðunum og bannhelgunum varðandi dauðann, því þetta hafði alltaf vakið áhuga hennar. Það var leitt að það mátti aldrei ræða af einhverju viti um þetta efni. Annaðhvort voru viðmælendur of ungir eða of gamlir eða þá að þeir höfðu ekki tíma.
Kápa bókarinnar endurspeglar innihald hennar fullkomlega. Fallega apríkósulit og bleik og í forgrunni standa Soffía og amma. Rósemdin er alls ráðandi. Á stöku stað má svo sjá myndir Tove inni bókinni; Soffía og amma standa við hafið, köttur felur sig í runna og svo framvegis. Myndirnar dýpka upplifunina við lesturinn og færa lesandann á ströndina með persónunum.
Tove hefur einstakt lag á að semja gullfallegan texta þar sem hvert orð vegur tonn, en er samt létt eins og dúnn á strái. Einhvern veginn skríður merkingin undir húðina og situr þar eftir. Að lestri loknum situr maður uppi með hlýja tilfinningu og vissuna um að bókin verði lesin aftur, og aftur, og aftur.