Dvergurinn frá Normandí eftir Lars-Henrik Olsen er ekki ný bók. Hún kom út á dönsku árið 1988 og er því 33 ára gömul. En hún er nýkomin út á íslensku í frábærri þýðingu Steinunnar Jónu Sveinsdóttur. Þýðing bókarinnar er einstaklega vel heppnuð, að mínu mati. Steinunn Jóna valdi að þýða sem mest hún gat af erlendum staðarnöfnum og eiginnöfn. Þetta varpaði fornum blæ á frásögnina og færði bókina nær sögutímanum.

Bókin hlaut á sínum tíma barnabókaverðlaun skólabókasafna í Danmörku sem leiddi til þess að skrifaðar voru tvær framhaldssögur.

Bardaginn við Hastings

Bókin fellur í flokk barna- og unglingabóka, þótt íslenska kápan hrópi ekki á börn að hér sér áhugaverð bók á ferðinni. Sagan segir af fjórum saumastúlkum í klaustri skammt frá Kent í Englandi árið 1076, tíu árum eftir bardagann við Hastings. Stúlkurnar fjórar eru fengnar til að sauma gríðarlangan refil undir leiðsögn dvergs frá Normandí. Í saumasalnum situr líka stríðsfanginn Líkúlfur til að leiðbeina um hina hlið stríðsins. Stúlkurnar sauma Bayeux-refilinn, 70 metra langan refil sem sýnir sigurbardaga Vilhjálms hertoga af Normandí yfir þáverandi konungi Englands Haraldi Guðinasyni. Refillinn er fyrir margt merkilegur og ég hvet sem flesta til að kynna sér sögu hans. Bardaginn við Hastings 1066 markaði að einhverju leiti endalok víkingaaldarinnar. Eftir bardagann réðu Normannar ríkjum í Englandi.

En að bókinni!

Lars-Henrik skapar skáldsagnapersónur upp úr nöfnum sem koma fram á reflinum. Þannig fær undarlega lítil mannvera á reflinum (Turold) líf sem Þóraldur í sögunni. Þóraldur er dvergur, sem útskýrir smáan vöxt hans á reflinum. Dvergurinn er listamaður mikill og dregur upp myndirnar sem saumastúlkurnar sauma eftir. Fjögur andlit í turni fá þannig líf sem saumastúlkurnar fjórar.

Kvennaverk

Sögusvið bókarinnar er tvískipt. Annars vegar er það tilbreytingasnautt líf stúlknanna í klaustrinu, sérstaklega Fífu og Emmu. Hins vegar er það sagan sem Líkúlfur segir stúlkunum í saumasalnum, sagan af því hvernig kom til bardagans við Hastings. Báðar sögurnar eru nokkuð spennandi. Stúlkurnar dreymir um gott líf, hvort sem það er innan múranna eða utan. Fábreytnin í lífi þeirra er mikil en lífið í saumasalnum sýnir þeim að það sé eitthvað meira til en klausturlíf.

Lars-Henrik glæðir klaustrið lífi og gerir sköpun refilsins mjög áhugaverða. Á sama tíma lærir lesandinn ýmislegt um bardagann við Hastings og líf Englendinga og Normanna. Í saumaskapnum eru smáar villur, undarlegar ákvarðanir og sögur úr dæmisögum Esops. Þessum litlu skilaboð úr fortíðinni gefur Lars-Henrik líf og sögu. Því refillinn var jú saumaður af manneskjum, konum. Verk kvenna í gegnum söguna eru sjaldnast eignuð þeim. Útsaumaðir dúkar í kirkjum, reflar og hökklar eru höfundalaus listaverk og tekið sem sjálfsögðum hlut. Það er skemmtilegt að konunum, eða stúlkunu í þessu tilviki, sé gefin rödd, líf, langanir og þrár.

Unglingabók fyrir fullorðna?

Ég var alls ekki viss um skemmtanagildi bókarinnar þegar ég hóf lesturinn. Áður hef ég heyrt um Bayeux-refilinn og fannst hann satt að segja ekki spennandi. Eftir lesturinn er ég á öndverðri skoðun. Refillinn er stórkostlegt afrek! Það er í raun synd að ekki skuli hafa varðveist hver saumaði refilinn í raun og veru. Saumastúlkurnar í bókinni eru algjörlega hugarburður Lars-Henrik. Listaverk kvenna voru oftast ekki titluð með höfundarnafni. Vangaveltur Lars-Henrik eru þó skemmtilegar og áhugaverðar.

Bókin hlaut verðlaun í Danmörku á sínum tíma. Kápa bókarinnar á mismunandi tungumálum er oftast skreytt með myndum af reflinum, en enginn þeirra er þó svo drapplituð sem íslenska útgáfan. Drapplituð kápa, með gömlum útsaumsmyndum er ekki kápa sem ég tel líklega til vinsælda hjá íslenskum unglingum. Sjálf hafði ég mjög gaman af bókinni og ég vil kasta því hér fram að bókin henti eilífðar unglingum sem hafa gaman af fortíðinni.

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...