Síðasta sumar tókum við hjá Lestrarklefanum saman leslista þar sem kenndi ýmissa grasa. Mitt markmið fyrir sumarið var skipulögð atlaga að náttborðsstaflanum. Ég hef reyndar komist að því síðan þá að fyrir hverja eina bók sem ég lýk úr náttborðsstaflanum þá bætast bara tvær nýjar við í staðinn, en það er ekki viðfangsefni þessa pistils. Viðfangsefni þessa pistils er höfundur sem átti ekki eina, heldur tvær, mjög ólíkar bækur í staflanum eins og hann stóð í byrjun sumars. Netflix þættir hafa verið gerðir eftir annarri þeirra og eru þeir væntanlegir í sýningu á allra næstu dögum. Okkur þótti því ekki úr vegi að koma með þessa heildarkynningu á verkum höfundarins. Við höfum lætt stiklunni fyrir þættina inn í textann hér fyrir neðan.
Ninth House
Aðrar bækur höfundarins eiga tvennt sameiginlegt. Þær gerast allar í sama sagnaheiminum og eru allar svokallaðar ungmennabækur, eða YA-bækur. Ninth House sker sig úr fjöldanum að því leytinu til að hún er skrifuð fyrir fullorðna og er upphaf að nýrri og sjálfstæðri bókaseríu.
Bókin vakti athygli mína þegar henni var lýst svohljóðandi hjá öðrum bókaunnanda: Ég hef lýst bókinni fyrir fólki sem Harry Potter, en söguhetjurnar eru í Yale-háskóla og í stað heimavistanna fjögurra eru átta leynifélög, og Hermione er aðalsöguhetjan en hún er fyrrum eiturlyfjafíkill sem sér drauga og hlutverk hennar er að hafa eftirlit með helgisiðaathöfnum leynifélaganna.
Ég ætla að taka fram strax að það er svo gott sem ekkert sameiginlegt með Ninth House annars vegar og Harry Potter hins vegar, nema kannski það eitt að sögusvið beggja er skóli og að galdrar koma við sögu, en að öðru leyti er þetta prýðisgóð lýsing á söguþræði bókarinnar.
Bókin fjallar um Alex Stern, sem hefur lifað í heimi eiturlyfja og glæpa og er hún eini eftirlifandi óleysts sakamáls. Á spítalabeðinu býðst henni að þiggja skólastyrk við Yale háskóla og tækifæri til að snúa blaðinu við. Í staðinn þarf hún að hafa eftirlit með helgisiðaathöfnum átta leynifélaga við skólann. Hljómar einfalt, en Alex áttar sig fljótlega á því að þarna er verið að leika sér með mjög hættuleg öfl og stundum lítið gefið fyrir líf og heilsu þeirra sem verða í veginum.
Þetta er frábær bók, dimm og drungaleg og ólík þeim furðusögum sem ég hef áður lesið. Mín eina ráðlegging til þeirra sem hyggjast kafa ofan í Ninth House, er að gefa henni séns þótt hún fari hægt af stað. Það tekur smá tíma að komast inn í hugarheiminn sem Leigh Bardugo er að skapa með þessari skáldsögu, en ég lofa því að það er þess virði, sérstaklega þegar það byrjar að vindast ofan af fléttunni.
Shadow and Bone
Áður en ég hófst handa við Ninth House, byrjaði ég á því að lesa fyrstu söguna í Shadow and Bone þríleiknum. Ég var búin að heyra góða hluti, en átti ekki von á því að kolfalla svona fyrir þessum höfundi með þessari einu bók. Ég las hana á einum degi, gat raunar ekki hætt fyrr en ég var búin, og var mætt í Nexus daginn eftir til að kaupa næstu tvær bækur.
Serían gerist mestmegnis í keisaraveldi sem heitir Ravka og fjallar um unga stúlku, Alinu. Í upphafi seríunnar þarf Alina að ferðast yfir landsvæði sem er kallað Shadow Fold, en Shadow Fold er einhvers konar ónáttúrulegur myrkur blettur á landinu, sem er jafnframt morandi í hvers kyns ófreskjum. Á leiðinni verður óvænt atvik til þess að hún leysir úr læðingi krafta sem hún vissi ekki að hún byggi yfir og í kjölfarið þarf hún að læra að fóta sig í nýjum veruleika og mæta kröfum sem hún er ekki viss um að hún geti staðið undir.
Bardugo sótti innblástur fyrir Ravka í rússneska keisaraveldið. Að hennar sögn vildi hún skrifa eitthvað ögn frábrugðið hinni hefðbundnu furðusögu, en vildi þó einhvers konar menningarlegan hornstein, eitthvað sem myndi sjá um að heimssköpunin yrði samkvæm sjálfri sér og að heimurinn yrði áþreifanlegur. Hún valdi rússneska keisaraveldið af því að hún sá pólitískar og menningarlegar tengingar á milli þess heims sem hún var að skapa annars vegar og rússneska keisaraveldis þess tíma hins vegar.
Hugmyndin að Shadow and Bone kviknaði að sögn höfundarins eitt kvöld þegar hún stóð við endann á dimmum gangi og velti fyrir sér hvernig það myndi líta út ef myrkrið væri lifandi fyrirbæri. Þrátt fyrir það og þrátt fyrir titilinn er þetta langt frá því að vera drungalegasta bók höfundarins. Fyrir drunga mæli ég frekar með Ninth House eða Six of Crows.
Í janúar 2019 kom í ljós að Netflix væri búið að tryggja sér réttinn að framleiðslu átta þátta seríu sem byggir á fyrstu bókum Shadow and Bone þríleiksins og Six of Crows tvíleiksins sem er fjallað um hér fyrir neðan. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig til stendur að tvinna seríurnar saman, þar sem þær eru nokkuð sjálfstæðar í sagnaheiminum, en í öllu falli virðist leikarahópurinn hafa verið valinn af kostgæfni og stiklurnar líta rosalega vel út. Serían fer í loftið föstudaginn 23. apríl og ég á von á að verða búin með seríuna áður en helginni lýkur, svo spennt er ég.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=b1WHQTbJ7vE]
Six of Crows
Ég veit ekki einu sinni hvar ég á að byrja með Six of Crows, því það er langt síðan ég hef verið svona yfir mig hrifin af seríu. Gott dæmi um hrifningu mína er þó að ég hef suðað í manninum mínum a.m.k. einu sinni í viku í hálft ár að byrja á henni, svo við getum talað um hana.
Six of Crows er tveggja bóka sería sem gerist í sama söguheimi og Shadow and Bone. Hún er á eftir Shadow and Bone þríleiknum í tímaröðinni og sumar sögupersónur Shadow and Bone birtast í mýflugumynd í Six of Crows seríunni og öfugt, en að öðru leyti er serían sjálfstæð. Sagan hefst í borginni Ketterdam, sem er lauslega byggð á Amsterdam. Ketterdam er miðdepill viðskipta í sagnaheiminum sem Bardugo hefur skapað, höfuðborg lýðræðisríkisins Kerch. Í Ketterdam þrífst hvers kyns glæpastarfsemi vel og allt líf þeirra sem þar búa snýst um peninga og völd.
Serían fylgir sex ólíkum sögupersónum sem tengjast í gegnum aðalsögupersónuna Kaz Brekker. Þrátt fyrir ungan aldur er Kaz de facto leiðtogi glæpagengis, þaulvanur og miskunnarlaus afbrotamaður og með aðstoð sinnar hægri handar, Inej Ghafa, hefur hann getið sér góðan orðstír sem þjófur. Honum gefst færi á að skipuleggja glannalegasta innbrot ferils síns og komast yfir gríðarleg auðæfi, en hann getur ekki framið þetta innbrot einn. Hann safnar því í kringum sig fólki sem býr yfir margvíslegum eiginleikum og leggur af stað í háskaför.
Seríunni hefur verið lýst sem Ocean’s Eleven í furðusögubúningi og ég er ekki frá því að það sé nokkuð nærra lagi. Það sem heillar mig við þessa seríu er líka fyrst og fremst það að Kaz Brekker er algjör andhetja og að flestar sögupersónurnar eru á nokkuð gráu svæði siðferðislega. Það er svo auðvelt að snúast á sveif með aðalsögupersónunum, láta sér þykja vænt um þau og gleyma því að þau eru upp til hópa afbrotamenn og hafa gert ýmislegt ljótt til að lifa af í þeim harða heimi sem Ketterdam er.
Serían er eiginlega á barmi þess að flokkast sem NA (New Adult), og ekki fyrir þá sem vilja að bækur endi með því að allir lifi hamingjusamir til æviloka.
King of Scars
King of Scars er tveggja bóka sería sem gerist í fyrrnefndum sagnaheimi Leigh Bardugo. Hún fylgir eftir nokkrum af aukapersónum Shadow and Bone seríunnar og gerist í Ravka eftir atburði þeirrar seríu. Hún er jafnframt eina serían sem ég mæli ekki með að sé lesin sjálfstætt, þar sem söguþráður hennar er nátengdur atburðum sem gerast í fyrri tveimur seríunum. Af þeim sökum ætla ég jafnframt ekki að fara nánar út í söguþráðinn.
Af öllum bókum Bardugo fannst mér þessi síst. Í þessari bók finnst mér heimssköpunin þróast í þá átt að verða ótrúverðugri. Auk þess fer sagan afskaplega hægt af stað og ég fann að ég þurfti aðeins að pína mig til að klára hana. Að því sögðu þá fannst mér boltinn aðeins byrja að rúlla fyrir lokin á fyrri bókinni og hún endaði með æsispennandi hætti. Nýjasta bókin í seríunni, Rule of Wolves er nýkomin út og ég vona að hún reynist betri en sú fyrri.
Hvað er næst?
Í október 2019 gaf Leigh Bardugo út á Twitter að hún ætlaði sér að gera seríu úr Ninth House bókunum. Hún sagðist gjarnan vilja skrifa a.m.k. fimm bóka seríu, en vildi ekki slá neinu föstu. Í október 2019 kom jafnframt í ljós að Amazon Studios eru búin að tryggja sér kvikmyndaréttinn að Ninth House, svo það er vonandi gott í vændum þar líka.
Bardugo hefur jafnframt ýjað að því á Twitter að hún myndi gjarnan vilja breyta Six of Crows í þríleik, en það hefur mælst misjafnlega fyrir hjá aðdáendum bókanna og er óstaðfest.