Í lok apríl kom út bók um Möðruvallabók – Bál tímans – Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár eftir Arndísi Þórarinsdóttur með myndlýsingum Sigmundar Breiðfjörð.
Á réttum stað á réttum tíma
Arndís fylgir Möðruvallabók frá upphafi og til framtíðar. Við fylgjumst með handritinu lifna við í höndum ritara í klaustri og fylgjum því í gegnum tímann í glefsum. Hver kafli er nýtt skeið í lífi Möðruvallabókar. Arndís gefur sér mikið skáldaleyfi varðandi örlög bókarinnar og snertingu hennar við samtíðafólk sitt, en eins og hún sagð sjálf í viðtali í Kiljunni þá minnir bókin/sögumaðurinn óneitanlega mikið á Forrest Gump að því leiti að hún er alltaf á réttum stað á réttum tíma. Hún kynnist Guðbrandi biskup sem ungum manni í Hólaskóla, Árna Magnússyni, Jóni Sigurðssyni og Jónasi Hallgrímssyni og fleiri mektarmönnum.
Greip óvænt
Ég las bókina ein í fyrstu umferð og var satt að segja skeptísk á að hægt væri að gera ævisögu bókar, sem heitir því óþjála nafni Möðruvallabók, að spennandi sögu. En eftir því sem ég las lengra því spenntari varð ég. Hætturnar voru hvarvetna! Bál, upptökkir námsmenn, óvarkárni… Tíminn bauð upp á alls kyns hættur sem grandað gætu gömlu skinnhandriti. Spennan náði hámarki í eldsvoðanum mikla í Kaupmannahöfn á tímum Árna Magnússonar. Sorgin sem fylgdi tapinu á handritunum sem brunnu var áþreifanleg og ég felldi tár yfir örlögum bókanna, yfir þeim dýrmætum sem glötuðust þann dag. En á sama tíma fylltist ég létti yfir vitneskjunni um þau handrit sem þó björguðust úr þessum háska.
Sögumaður svífur yfir myndunum
Kápa bókarinnar grípur augað með dramatískum eldtungum sem rísa upp úr gömlu skinnhandriti. Sigmundur Breiðfjörð myndlýsir bókina, en hann og Arndís hafa unnið áður saman við brókarseríuna. Sigmundur fékk reyndar gullverðlaun FÍT í flokki myndlýsingaraða fyrir myndlýsingarnar í Nærbuxnavélmenninu.
Myndirnar í Bál tímans eru ekki síður vandaðar en í allt öðrum stíl en Sigmundur beitir í brókarseríunum. Myndirnar eru allar í djúpum litum sem fanga augað, þær eru síður kómískar, heldur dramatískar og í mörgum þeirra er hreyfing. Uppáhaldsmyndin mín er án efa sú af fornri prentvél, en á teikningunni má sjá hreyfingu vélarinnar og hún lifnar við fyrir augum lesandans. Í gegnum myndirnar má líka lesa úr táknum og vísbendingum (hafmeyjan hjá H.C. Andersen til dæmis). Myndirnar gefa ungum lesendum tækifæri til að spyrja spurninga og hvíla augun frá textanum. Yfir öllum myndum er andi Möðruvallabókar svífandi yfir eða allt um kring, hvort sem það er í bakgrunni myndarinnar eða sem handrit á borði. Lesandinn er minntur á hver er sögumaðurinn.
Gleði við samlestur
En dramatísk kápa var samt ekki nóg til að heilla ungan lesanda (9 ára) sem ég otaði bókinni að. Honum fannst ekki spennandi að lesa um bók, hvað þá gamla morkna bók. En ég gefst ekki upp við eitt nei og saman hófum við lestur á bókinni. Strax eftir fyrsta kafla bókarinnar var hann dolfallinn. Fyrir það fyrsta þá var hann að heyra af handritunum í fyrsta sinn, sem sýnir eflaust hve þau hafa verið fjarri almennri umræðu í mörg ár, sem og hvar uppeldi hans er ábótavant. Hann sagði bókina fylla hann gleði, rödd Möðruvallabókar fallega og orðin væru mörg svo ný og skemmtileg. Honum fannst spennandi að heyra af gamla tímanum (sem var einmitt líka til umræðu í skólanum), heyra af illskeyttum ungum mönnum sem brenna bækur og fræðast um hvaða hættur handritin hafa lifað af í gegnum árhundruðin. Til að setja dýrmæti handritanna í samhengi í hans huga upplýsti ég hann um að handritið væri geymt í öruggustu hvelfingu landsins í Reykjavík (fyrirvari við þennan pistil: ég hef ekki hugmynd um hver öruggasta hvelfing Íslands er). Þá gerði hann sér grein fyrir hve magnað það er í raun að handritin hafi lifað af allann þennan tíma og séu enn hér hjá okkur, að hvísla að okkur aldagömlum sögum af vígamönnum. Við bíðum bæði spennt eftir því að fá að berja Möðruvallabók augum einhvern daginn, það verður eins og að sjá rokkstjörnu. Líklegast þætti honum þó skemmtilegast að sjá teikninguna af hausnum á Agli Skalla-Grímssyni. Hann segir bókina spennandi, skemmtilega en fyrst og fremst fróðlega.
Sagan af Möðruvallabók var mun skemmtilegri en ég gerði ráð fyrir. Arndís nær að gera lesandann algjörlega bundinn yfir örlögum handritsins. Sigmundur gerir frásögnina svo enn dramatískari með myndunum. Manni er verður annt um rólegan sögumanninn sem leiðir mann í gegnum söguna og öll slysin. Best er að lesa bókina með krökkum því þrátt fyrir að vera barnabók þarf stundum að setja söguna í samhengi fyrir þeim. Bókin er ekki nægilega löng til að geta útskýrt allt sem þarf að útskýra, en Arndís gerir þó tilraun til þess í samvinnu við Sigmund. Bókin gefur nýrri kynslóð tækifæri til að kynna sér handritin á sínum forsendum, með nálgun sem hentar þeim. Bál tímans er skemmtileg lesning hvort sem það er fyrir börn eða fullorðna, hún er tilvalin fjölskyldubók, sem vekur upp skemmtilegar samræður um fortíðina, sögu Íslands, handritin og öruggustu hvelfingu Íslands í Árnagarði.