Aldarsaga kosningaréttar íslenskra kvenna

Í ár eru 106 ár síðan íslenskar konu fengu kosningarétt. Reyndar fengu ekki konur undir 40 ára kosningarétt fyrst um sinn, aðeins konur yfir fertugu fengu að kjósa. Það er konunum sem á undan komu að þakka að ég get kosið í sveitastjórn og ríkisstjórn í dag. Hugmyndin að bókinni Konur sem kjósa: Aldarsaga, eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur, kom upp á hundrað ára kosningaafmæli íslenskra kvenna árið 2015 og hefur því verið lengi í undirbúningi. Það er því engan að undra að bókin hafi slegið jafn rækilega í gegn og hún hefur gert. Bókin hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2020 í flokki fræðibóka, Fjöruverðlaunin árið 2021 og viðurkenningu frá starfsfólki bókaverslana. Fyrir stuttu fengu svo hönnuðir bókarinnar, Snæfríð Þorsteins og Hildigunnur Gunnarsdóttir, gullverðlaun FÍT fyrir hönnun bókarinnar.

Einn áratugur í einu

Saga kvenna er ekki áberandi í sögubókum og kvennamál hafa í gegnum aldirnar ekki þótt nægilega merkileg til að fjalla um þau sérstaklega, þótt vissulega sé hægfara breyting á því. Bókin byggir því að miklu leiti á frumrannsóknum höfunda og er því gnægtabrunnur af nýjum fróðleik um íslenskar konur.

Leiðarhnoð bókarinnar eru kosningar til Alþingis. Við veljum eitt kosningaár fyrir hvern áratug á tímabilinu, frá 1916, til 2017. Með því að byggja frásögnina upp í tengslum við ellefu kosningaár má taka sneiðmynd af stjórnmálasögu kvenna á þeim hundrað árum  sem konur hafa haft tækifæri til að kjósa og bjóða sig fram til þings. (Bls. 23)

Bókin er þægilega uppbyggð, ellefu kaflar og ellefu kosningaár ásamt inngangi og niðurlagi. Aftast í bókinni eru svo ítarlegur listi yfir nöfn og efnisorð, tilvísanir og ágrip úr bókinni á ensku. Sem fræðibók fylgir hún því öllum reglum og er mjög þægileg í uppflettingu. Aftur á móti er hún heldur óþjál í höndum, þung og sveigjanleg og fer best á borði eigi að lesa hana.

Myndagallerí sem grípur

Bókin er ríkulega myndskreytt. Ein mynd segir meira en þúsund orð og þá á svo sannarlega við hér. Í hverjum kafla er fjöldi mynda af íslenskum konum við hin ýmsu störf og er það líklega það sem grípur hvað mest hinn almenna lesanda. Það er nær ómögulegt að leggja frá sér myndagalleríið og maður vill meira. Myndirnar draga lesandann inn í tíðaranda hvers áratugs og vekja forvitni. Þegar maður er svo djúpt sokkinn inn í myndirnar stendur maður sig að því að hafa hafið lestur á grein og þá er eiginlega ekki aftur snúið, þótt maður eigi sennilega aldrei eftir að lesa hana í einni beit. Texti bókarinnar er aðgengilegur og vel skiljanlegur leikmanni. Fyrir þá sem ekki leggja í löngu greinarnar strax þá leynast gullmolar dreifðir um alla bókina, litlar rammagreinar sem fjalla um einstakar konur.

Nýstárleg og töff hönnun

Ég var efins um hönnun Snæfríðar og Gunnhildar á bókinni í fyrstu. (Snæfríð hefur einnig hannað kápur á áskriftarbókum Angústúru sem vakið hafa mikla athygli.) Letrið og framsetningin á bókinni er mjög frábrugðin því sem maður á að venjast af fræðibók. Inngangur að greinunum er ritaður stóru letri og meginmál í smærra letri. Við fyrstu sýn þótti mér þetta fráhrindandi og ruglingslegt. Eftir inngang tekur svo við langt myndaalbúm og myndir eru ekki notaðar til skreytinga inni í textanum heldur fylgja þá frekar rammagreinunum. Þegar ég sökkti mér niður í bókina sá ég þó hið jákvæða við framsetningu hennar. Það er auðvelt að skruna í gegnum stórt letur inngangins, myndirnar draga lesandann inn í tíðaranda kaflans, meginmál greinarinnar er aðgengilegt og þægilegt og rammagreinarnar gefa lesandanum skemmtilega mola sem hægt er að japla á.

Það er gleðilegt að fá kosningasögu íslenskra kvenna í eins eigulegri bók og þessi er. Hún er vel að öllum verðlaununum og tilnefningum komin. Bókin passar vel inn á öll heimili, þótt það sé ekki nema til að stilla henni upp í hillu eða fletta reglulega í gegnum myndagalleríið.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...