Af skrímslum sem eru kannski til

Þegar heimurinn breyttist og takmarkanir voru settar á árið 2020 voru fjölmörg börn um allan heim sem sátu heima og gátu lítið annað gert en að láta sér leiðast. Barnabókahöfundar voru vakandi fyrir þessu. Hér á Íslandi las Ævar Þór til dæmis upp bækur sínar um bernskubrek Ævars vísindamanns í opnu streymi og hafði þannig ofan af fyrir fjölda barna.

J. K. Rowling gerði nokkuð svipað. Upp úr skúffu hennar steig sagan The Ickabog sem hún skrifaði fyrir löngu síðan fyrir sín eigin börn. Söguna gaf hún börnum heimsins rafrænt og efndi til samkeppni um myndlýsingar í bókina. Fyrir vikið er útgefna bókin myndlýst af börnum á aldrinum 7-12 ára frá Stóra-Bretlandi, Írlandi, Ástralíu, Nýja Sjálandi og Indlandi. Myndlýsingarnar gefa bókinni skemmtilegt yfirbragð og innsýn í ímyndunarafl barnanna sem héldu á litunum.

Skrímslið í feninu

The Ickabog er ævintýri sem hefst á orðunum „einu sinni var“. Sagan segir segir frá hinum hégómalega konungi Cornucopiu, Fred the Fearless. Landið Cornucopia er gnægtarland, þar sem engan skortir nokkuð, nema fólkinu sem býr á fenjasvæðinu í norðri. Þar er talað um skrímslið Ickabog, sem rænir kindum og börnum; þjóðsagnavera sem börn í suðri eru hrædd til hlýðni með. En þegar konungurinn fær til sín bónda úr norðri sem segir að Ickabog hafi étið hundinn sinn, fær konungurinn þá flugu í hausinn að fara að veiða skrímslið. Skömmu áður hafði hann verið kallaður hégómalegur, illgjarn og sjálfselskur og honum er mikið í mun að sanna fyrir þegnum sínum að það sé hann alls ekki. Í leiðangrinum verður einn af hermönnum konungs fyrir voðaskoti, þokan í fenjunum villir sýn og lygar verða til. Þessar lygar verða til þess að Ickabog virðist vera til og þegnar landsins fara að óttast. Með óttanum er auðvelt að hefja upp ógnarstjórn. Aðstoðarmenn og bestu „vinir“ konungsins, Spittleworth og Flapoon, byggja upp hrikalegar lygasögur, æsa upp ótta þegnanna og hagnast vel.

Þegar ein lygi hefur verið sögð þá er annarar þörf. Þannig spynnst upp hin ólíklegasta saga af skrímslinu Ickabog í kringum Spittleworth og Flapoon og lygarnar bústna og verða erfiðari og stærri. Og alvarlegri. Morð, lygar, hótanir, háir skattar og ósanngirni leiða til þess að hið áður farsæla land Cornucopia verður fátækt og þegnar þess svelta. Konungurinn veit þó ekki neitt og trúir því sem honum er sagt af ráðgjöfum sínum og situr skíthræddur í höll sinni. Aðalsöguhetjurnar í bókinni og bjargvættir sögunnar eru börnin Daisy og Bert og til allrar hamingju fer allt vel að lokum.

Popúlismi í barnabók

Rowling er sýnilegur sögumaður bókarinnar og leiðir lesandann í gegnum hörmungarnar sem dynja yfir þegna Cornucopiu. Hún ávarpar lesandann inn á milli, gefur honum upplýsingar sem sögupersónurnar gætu ekki vitað og fyrir vikið finnst manni eins og maður hafi fengið aðgang að einhverju leyndarmáli.

Það er auðsýnilegt að aðalþema bókarinnar er popúlismi og vald. Hvað gerist ef við gætum ekki að því hver sé valdhafinn? Hvað gerist ef við trúum öllu sem okkur er sagt án þess að skoða heimildirnar eða sannreyna sjálf? Hvað gerist ef logið er að okkur? Bókin er þó skrifuð á ævintýralegum nótum og þótt fullorðinn lesandi sjái öskrandi samlíkingar við heim okkar þá er ekki þar með sagt að börn sjái líkindin, en vonandi síast eitthvað inn.

Ég vona að bókin verði þýdd yfir á íslensku fyrir íslensk börn. Það er verðugt verkefni fyrir þýðanda að þýða bókina, enda mikið um orðaleiki, tilvísanir og annað. Til dæmis þegar kemur að nöfnum persónanna.

Ég naut þess að lesa bókina. The Ickabog er virkilega skemmtilegt ævintýri, sagt á þægilegan og aðgengilegan hátt. Það er lítið dregið undan þegar kemur að hörmungum í Cornucopiu; sultur og seyra, vondar manneskjur og morð. Allt er sagt berum orðum og af staðfestu. Því heimurinn er ekki alltaf sanngjarn og þegar maður gætir ekki að sér er hætta á að maður missi rétt sinn og lífsgæði. Skilaboðin eru skýr: Verum vakandi!

 

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...