Næsti – Raunir heimilislæknis eftir Ninu Lykke hlaut Brage Prisen í Noregi árið 2019. Bókin er þriðja skáldsaga Lykke. Bókin kom út hjá Benedikt bókaútgáfu árið 2020 og vakti að mínu viti ekki svo mikla athygli þegar hún kom út í íslenskri þýðingu Bjarna Jónssonar. Mögulega má þar kenna um frekar óáhugaverðri kápu. Það mætti segja að bókin sé svona bók sem fréttist á milli fólks, þessi sem rís hægt upp á leslistanum eftir því sem fleiri hrósa henni.
Samstarfskona mín mælti með bókinni við mig fyrir sumarið. En hver bók á sér sinn tíma og það var ekki fyrr en í haust sem ég loksins komst í að lesa hana. Strax á fyrstu síðum bókarinnar sá ég að þetta væri bókin sem myndi rífa mig upp úr lestrarlægðinni sem hafði gengið yfir mig í hryðjum allt síðan um mitt sumar.
Hræsni, samskipti og kulnaður heimilislæknir
Næsti segir frá heimilislækninum Elínu; konu með tvær uppkomnar dætur, eiginmann, tuttugu ára starfsferil og fullkomið heimili. Í fjölda ára hefur hún starfað á sömu læknastofunni – metnaðurinn fyrir vinnunni er löngu horfinn á braut og samúð með skjólstæðingum sömuleiðis. Þegar hún endurnýjar kynnin við gamlan kærasta fer allur heimur hennar á hvolf. Eða er þetta „á hvolf“?
Lykke gagnrýnir harðlega vestrænt hræsnisamfélag í bókinni. Pólitískur rétttrúnaður er skoraður á hólm. Hún gagnrýnir þörf fólks eftir því að fá alltaf „það sem það á rétt á“ án þess að hugsa um samfélagið. Einstaklingshyggjan er að ganga af fólki dauðu. Beinskeitt gagnrýnin og húmorinn er samt ekki það sem fékk mig til að gleypa bókina í mig í einum bita. Það gengur bara einhvern veginn allt upp. Lykke tekur fyrir stöðnun í sambandi, samskiptaleysi, fjölskyldutengsl og hamingjuna, í öllu sínu valdi, í bókinni og fléttar því saman í eina meinhæðna skáldsögu.
Heimilislæknirinn þinn?
Ég hló ansi oft upphátt við lesturinn, hafði mjög gaman af samræðum Elínar og Tore, beinargrindarinnar á stofunni hennar. Elín er skemmtilega beinskeitt persóna sem auðvelt er að elska og líta niður á á sama tíma. Samskipti hennar og skoðanir á sjúklingum eru endalaus uppspretta húmors og gleði.
Eitt er víst, ég mun aldrei líta heimilislækna sömu augum eftir lestur bókarinnar.