Þórarinn Leifsson tekur þátt í jólabókaflóðinu í ár með bókinni Út að drepa túrista sem kemur út hjá Forlaginu. Ég hafði ekki lesið neitt eftir Þórarinn áður en hafði þó heyrt um bókina Maðurinn sem hataði börn og rekist á nokkrar barnabækur eftir hann. Það var því gaman að setjast niður með þessa því eitt af því skemmtilegra sem ég veit er að kynnast nýjum höfundum og þessi titill, Út að drepa túrista, auðvitað vakti hann forvitni mína.
Túristar týna tölunni
Bókin fjallar um leiðsögumanninn Kalmann sem er hokinn af reynslu sem leiðsögumaður á Íslandi og á ófáar ferðirnar að baki með rútur fullar af túristum. Hann er því vel vanur ferðaþjónustu bransanum og því að tækla miskröfuharða ferðamenn frá allskonar löndum með misfurðulegar spurningar og óskir. Nú fer hann í enn eina Suðurstrandaferðina sem er þó talsvert ólík fyrri ferðum. Fyrir það fyrsta þá finnst einn farþeginn myrtur í byrjun ferðarinnar og eðlilega er ekki vitað hver morðinginn er. Gæti hann mögulega leynst um borð í rútunni? Þess utan þá gerist sagan um vorið 2020 þegar kórónaveiran er farin að herja á heiminn og áhrif hennar farin að sjást í ferðaþjónustunni á Íslandi en helstu ferðamannastaðirnir eru svo gott sem tómir.
Nordic Noir út, húmorískt séríslenskt inn
Þessi glæpasaga er skemmtilega öðruvísi fannst mér. Hún er ekki þessi týpíska Nordic Noir glæpasaga sem vissulega er ágætis tegund af glæpasögum en maður vill líka fá eitthvað nýtt. Aðalsöguhetjan er ekki miðaldra lögreglumaður sem er þreyttur á lífinu þó Kalmann sé vissulega í smá lífskrísu. Það er þó lögreglumaður sem kemur við sögu, frekar furðulegur fýr sem er sendur til að rannsaka málið. En það var einnig áhugavert að upplifa Covid-19 vinkilinn á ferðaþjónustuna í sögunni, næstum í rauntíma. Við vorum mörg dugleg að ferðast um Ísland sumarið 2020 og heimsóttum því kannski þessa helstu ferðamannastaði eins og Gullfoss og Geysi og upplifðum þá tóma. Staði þar sem þúsundir ferðamanna heimsóttu á hverjum degi fyrir Covid. Það var auðvelt að upplifa stemminguna sem höfundur kastaði fram í gegnum bókina, því það er svo stutt síðan maður upplifði þetta sjálfur. En það var sérstaklega áhugavert þó að fá sýn leiðsögumannsins á áhrif Covid krísunnar á ferðaþjónustuna, aðallega því ég sjálf hef enga reynslu af ferðaþjónustu yfirhöfuð. Smá fræðsla fléttuð inn í glæpasögu, það þykir mér vel gert að ná.
Fersk og öðruvísi
Út að drepa túrista er húmorísk, öðruvísi glæpasaga með fléttu sem minnir aðeins á bækur Agöthu Christie og gott ef hennar fræga söguhetja, Hercule Poirot, poppaði ekki upp í huga mér við lesturinn. Ég mæli klárlega með þessari ef ykkur langar að lesa ferska, öðruvísi glæpasögu sem heldur ykkur við efnið allan tímann.