Það sem foreldarar gera þegar börn eru sofnuð

Hugsi ég aftur til barnæsku minnar þá á ég ógrynni minninga af þrætum við foreldra mína um háttatíma. Það var ekki gaman að fara að sofa, sérstaklega þegar mann grunaði foreldrana um græsku. Þau voru örugglega að gera eitthvað frábærlega skemmtilegt eftir að ég sofnaði. Með stóru systur minni! Sem var tvöfalt ósanngjarnt. Heiðrún Ólafsdóttir, ásamt Lindu Loeskow, hefur skapað barnabók í kringum þessa minningu sem við eigum sennilega öll.

Lifandi og glaðleg

Í bókinni Bókin um það sem foreldrar gera þegar börn eru sofnuð segir frá Stínu og Steini sem sofa í koju og eiga að fara að sofa. Foreldrarnir neita þreytulega að lesa meira, að vera lengur yfir systkinunum og segjast þurfa að fara fram. Stína og Steinn eru sannfærð um að foreldrar þeirra séu að gera eitthvað tryllt skemmtilegt frammi á meðan þau eiga að fara að sofa.

Í raun er bókin nokkuð hefðbundin ímyndunarafls bók, þar sem börnin í sögunni upphugsa hinar ólíklegustu aðstæður. Til dæmis sjá þau fyrir sér villt partý frammi, foreldarana að hakka í sig nammi eða að þjófar hafi rænt þeim. Allar þessar hugsanir lifna við með myndlýsingum Lindu. Myndlýsingarnar eru lifandi og húmorískar. Persónurnar eru perulaga og á hreyfingu sem er virkilega skemmtilegt og litirnir glaðlegir. Á hverri síðu eru smáatriði sem hægt er að skoða og eða leita að.

Foreldrar eru ekki spennandi

Ég las bókina með fjögurra ára syni mínum sem þótti mikið til hennar koma. Sjálfur er hann sjaldnast til í að fara að sofa þegar að háttatíma kemur, af því það er svo margt spennandi sem gerist á kvöldin. Hann á líka tvo eldri bræður, svo það er mikið í húfi! Ef hann bara vissi! Bókin er nefnilega óþægilega sönn þegar kemur að lokum hennar. Fullorðinslífið er langt í frá eins spennandi og maður hélt þegar maður var yngri.

Bókin um það sem foreldrar gera þegar börn eru sofnuð er skemmtileg barnabók fyrir 3-8 ára börn, þar sem mynd og texti skapa skemmtilega heild. Bókin vekur hlátur og forvitni.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...