Úrsmíði, Stóridómur og Kristján VII

Arnaldur Indriðason komst í fréttirnar nú í október, sem er nú ekki óeðlilegt fyrir hann á þeim tíma árs þar sem þá berast yfirleitt fréttir af hans nýjustu skáldsögu, og var innihald fréttanna akkúrat það. Arnaldur sendir frá sér sína tuttugustu og fimmtu skáldsögu nú í ár en það sem er sérstakt við hana og fyrirsagnir frétta ómuðu, er það að hún er ekki glæpasaga. Sigurverkið, sem Forlagið gefur út undir merkjum Vöku-Helgafells, er söguleg skáldsaga þar sem Konráð og aðrir fastagestir í bókum Arnalds koma hvergi við sögu. 

Arnaldur og jólahefðirnar

Ég hef í gegnum árin lesið allar bækur Arnaldar, stundum af áhuga og stundum af skyldurækni því lestur á nýjustu bók Arnaldar er jafn tengt jólunum í mínum huga eins og áhorf á Lord of the Rings, Hobbita og Harry Potter myndirnar. Það mætti segja að næsti kafli í lífi Erlendar og nú Konráðs hafi verið og sé órjúfanlegur hluti af aðventunni. Ég skil því þá gallhörðu lesendur Arnaldar sem ekki fá sinn skammt af Konráð í ár og eru kannski pínu foj.

Ég sjálf varð þó mun spenntari fyrir því að lesa Sigurverkið, þessa sögulegu skáldsögu frekar en ef nú hefði komið glæpasaga með honum Konráði. Ekki misskilja, ég er líka spennt að vita hvað gerist næst í lífi hans en ég er hinsvegar mikill aðdáandi sögulegra skáldsagna og ef það er eitthvað sem Arnaldur er góður í þá er það að byggja upp gott sögusvið og að færa lesandann inn í fortíðina. Hann hefur jú gert það reglulega í bókum sínum en þær hafa m.a. gerst á stríðsárunum svo það er ekki nýtt að hann flakki aðeins um í tíma í bókum sínum. Hinsvegar hefur hann ekki áður farið jafn langt aftur og hann gerir í Sigurverkinu

Kaupmannahöfn, Breiðafjörður

Sigurverkið gerist á 18. öld og er sögusviðið annars vegar Kaupmannahöfn þess tíma og svo Breiðafjörður á sunnanverðum Vestfjörðum. Sagan er söguleg skáldsaga en þó er hún byggð á sannsögulegum persónum og atburðum. Jón Sívertsen, íslenskur úrsmiður í Kaupmannahöfn, venur komur sínar í Kristjánsborgarhöll þar sem hann hefst handa við að gera við merkilegt úrverk i eigu konungs. Eitt kvöldið er Jón er við vinnu sína, kemur Kristján sjöundi inn til hans og þeir hefja samtal. Kristján konungur var á þessum tíma talinn ekki ganga alveg heill til skógar og var mögulega kannski einungis konungur að nafninu til. Jón byrjar að segja konungi söguna af örlögum Sigurðar föður síns og Guðrúnar stjúpmóður hans sem tekin voru af lífi að skipan föður Kristjáns konungs, Friðriks fimmta. Saga Sigurðar og Guðrúnar á sér svo sannarlega stoð í raunveruleikanum en þó er saga þeirra ekki sérlega þekkt, ekki nema kannski hjá þeim sem þekkja vel til á Breiðafirði. Bókin fjallar því um ævi þeirra hjóna og hlutskipti í lífinu en einnig samskipti Jóns og Kristjáns konungs.

Allar stærstu persónur sögunnar voru til og saga þeirra eins og hún er sögð í bókinni á sér talsverða stoð í raunveruleikanum en hafa þarf þó líka í huga að þetta jú skáldsaga. Ég er bókasafnsfræðingur og er sú týpa af bókasafnsfræðingi sem er haldin gríðarlegri þörf til að afla upplýsinga og leita heimilda. Mögulega skýrir það áhuga minn á sögulegum skáldsögum? Veit ekki. En á meðan ég las bókina varð ég að „gúggla“ og sjá hvað var satt og hvað ekki. Mæli samt ekki með slíku athæfi þegar verið er að lesa sögulegar skáldsögur ef maður er viðkvæmur fyrir höskuldarviðvörunum. En það sem þessi heimildaleit mín gerði var að styrkja enn frekar skoðun mína um að Sigurverkið er ferlega vel skrifuð bók. 

Konráð á starfslokasamning?

Arnaldur sækir efniviðinn vissulega í raunverulega viðburði en hugmyndaflugið sem hann hefur í að tengja þessar sögur saman og skapa samtenginguna og samtalið á milli persónanna er hreint frábært. Sagan er grípandi og ég sem lesandi lifði mig virkilega inn í söguna. Þó ég vissi örlög persónanna fyrirfram því þau voru ekkert leyndarmál strax frá fyrstu blaðsíðu, þá hélst ég samt við lesturinn allan tímann og þráði að vita meira. Ég fór upp og niður allan tilfinningaskalann og það sem ég hélt með Sigurði og Guðrúnu og vonaði það besta fram á síðustu stund þrátt fyrir að vita að endirinn væri ekki gleðilegur. Arnaldur hefur að mínu mati sýnt fram á að hann er frábær rithöfundur sem getur gert svo miklu meira en að skrifa Nordic Noir glæpasögur og ég vona svo sannarlega að hann skrifi fleiri sögurlegar skáldsögur í framtíðinni. Konráð má mín vegna alveg fá aðeins meira frí þó hann sé alveg fínn karl.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...