Fyrir rúmu ári síðan hófu skólar á Reykjanesinu verkefni í samstarfi við Ævar Þór Benediktsson og Ara H.G. Yates. Saman áttu þeir eftir að skapa eina blóðugustu og hrikalegustu barna-  og unglingabók sem ég hef nokkru sinni lesið. 

Verkefnið hófst á því að einn kafli var birtur á dag á vefsíðunni skolaslit.is ásamt teikningum Ara allan október mánuð árið 2021. Aðgangur að síðunni var opinn og börn um allt land sameinuðust í sameiginlegri lestrarupplifum. Mjög blóðugri og hryllilegri lestrarupplifun, en sameiginlegri lestrarupplifun. Og af öllu sem ég hef heyrt um verkefnið, þá var það mjög áhrifaríkt og vel heppnað. Og að sjálfsögðu lestrarhvetjandi. Fyrir áhugasama hefur Ævar hafið skriftir á Skólaslit – Dauð viðvörun, sem er nú aðgengileg á vefslóðinni skolaslit.is

Svo kom bókin!

Sagan vakti mikla lukku meðal grunnskólanema. Það lá því beint við að setja söguna í bók og gefa hana út. Í september kom því út hin mjög svo blóðuga Skólaslit. Sagan hefst á dimmu kvöldi í Reykjanesbæ, þar sem augljóst er að uppvakningar ráfa um skólann. Og þetta tengist allt draugahúsinu sem nemendafélagið setti saman kvöldið áður. Nú er allt fullt af uppvakningum sem ráfa um skólann bítandi, klórandi, stynjandi og… hlaupandi. Hvernig eiga krakkarnir að lifa af? Hvað gerðist eiginlega? Hve útbreitt er þetta? Hvernig er hægt að taka þetta til baka? 

Blóð og ógeð

Ævar Þór hefur aldrei verið feiminn við að vekja ótta í hjörtum barna. Raunar hefur hann skrifað nokkrar hrollvekjur sem fá svo sannarlega hárin til að rísa. Hér er hann í essinu sínu og heldur ekkert aftur af sér. Við erum að tala um að blóð klínist á rúður, hendur rotna, bein eru bruðin, foreldrar deyja, draugar stara inn í sálina á manni, hauskúpur eru brotnar með tönnum og gröftur lekur eftir gólfi. Það er allt frekar ógeðslegt í bókinni og ég stóð mig að því við lesturinn að segja stundarhátt „ja hérna hér“, eins og gamla frænka þín á milli þess sem ég las meira um hrikaleg skrímsli og hvíslaði svo lágt „má þetta bara?“. Við allt þetta ógeð prjónar svo Ari hrikalegum teikningum sínum sem auka á óhugnaðinn! Þær eru sumar hverjar svo hrikalegar og ógeðslegar að barnið sem ég las bókina með saup hveljur. En við vildum lesa þetta. Okkur fannst þetta ógeðslega gaman! Þetta var ógeðslegt og ógeðslega gaman. 

Hér að ofan hef ég verið gífuryrt um hve ógeðsleg bókin er, sem er satt, en hún er líka virkilega grípandi og skemmtileg. Staðreyndin er sú að við viljum máta okkur við hrollvekjuna. Við viljum vita hvað við myndum til bragðs taka ef það myndi raunverulega brjótast út uppvakningafaraldur eða eitthvað þaðan af verra (sem er raunin í bókinni). Svo við skemmtum okkur vel við að fabúlera gjörðir persónanna, velta þeim fyrir okkur og fussa þegar okkur finnst þær hafa anað út í vitleysu. Það deyja rosalega margir í bókinni af því þeir taka ranga ákvörðun. Við sem höfum lesið bókina vitum betur núna.

Minni hryllingsmyndanna

Það er greinilegt að Ævar hefur sótt mikinn innblástur í poppkúltur við skrif bókarinnar. Margar senurnar eru mjög myndrænar, eins og þær séu skrifaðar beint upp úr hrollvekjubíómynd. Þá dettur mér helst í hug ein af lokasenunum, þar sem krakkarnir hlaupa frá uppvakningaöldu upp á þak. Ég held ég hafi séð þessa senu í nær öllum uppvakningabíómyndum sem ég hef horft á (og þær eru ansi margar). Það var gaman að sjá þessa sviðmynd í íslenskri barnabók, það gerir hana kunnuglega, allavega mér. Krakkar í markhópnum eru vonandi ekki búnir að horfa á eins margar uppvakningamyndir. Ég held þó að Ævar hafi farið eins langt með óhugnaðinn og hann kemst í þessari bók. Með myndum Ara er þetta ein hryllilegasta barnabók sem ég hef lesið, en vona engu að síður að sem flestir lesi hana. 

Skólaslit er hryllileg barnabók sem ögrar lesandanum með óhugnaði og ógeði. Hún sækir sterkt í minni hryllingsmynda og hrollvekja og margar senur í bókinni eru kunnuglegar. Við skemmtum okkur stórvel við lesturinn á bókinni og sváfum svo með kveikt ljós. 

E.S. Eigum við nokkuð að ræða það að tekinn hefur verið biti úr bókinni? Hve svalt er það!? Bókin grípur alla vega augað.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...