Julia Donaldson og Alex Scheffler hafa áður leitt saman hesta sína í barnabókunum Greppikló og Greppiklóarbarnið. Þær bækur slógu svo um munaði í gegn hjá íslenskum börnum, sem mörg hver geta farið með vísuna um Greppikló utanbókar. Ný bók eftir tvíeykið knáa kom út í íslenskri þýðingu Sigríðar Ástu Árnadóttur. Öll í hóp á einum sóp sver sig mjög í ætt við fyrri bækur Donaldson og Scheffler.

Líkt og í fyrri bókum höfundanna er sagan sögð í bundnu máli og byggir á endurtekningu. Norn situr á sóp og missir hatt, slaufu og sprota en í hvert skipti sem hún þarf að leita að hlut, hittir hún nýjan vin sem vill gjarnan sitja á sópnum með henni. 

Saman flýgur því hersingin, öll í hóp á einum sóp. En sópurinn hefur takmörk og það fer ekki allt eins vel og vonast var til. Við lok bókarinnar kúvendist endurtekningin og lesandinn er tekinn djúpt inn í ævintýraheim þar sem drekar eru til. En til allrar hamingju eru allir nýju vinir nornarinnar ekki langt undan til að veita henni stuðning gegn stórhættulegum drekanum. 

Vinalegar myndir og þægilegur taktur

Það er töfrandi ára sem hvílir yfir bókum Donaldson og Scheffler. Við yngsti sonurinn höfum lengi verið hrifin af  skemmtilegum og taktvissum rímvísunum í Greppikló. Öll í hóp á einum sóp sveik okkur því engan veginn. Ljóðið er taktfast og endurtekningin þægileg. Myndirnar fengu okkur til að reyna að giska á hvaða dýr yrði næst upp á sópinn. Það kom okkur svo rækilega á óvart þegar sópurinn brotnaði og við vikum frá endurtekningunni. Hinn hrikalegi dreki kom ekki síður á óvart! 

Það er eitthvað við bækur Donaldsson og Scheffel sem algjörlega fanga hug og harta barna. Sakleysislegar og leikandi myndir Scheffel höfða vel til barna með sínum sterku litum og skýru línum. Það er ekkert á huldu, heldur þvert á móti margt sem sagt er með myndunum fremur en orðunum. 

Öll í hóp á einum sóp er tilvalin bók inn í Hrekkjavökuna fyrir yngstu börnin. 

 

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...