Með vindinum liggur leiðin heim eftir Auði Þórhallsdóttur er fallega myndskreytt saga af litlum andarunga og eldri hundi. Sagan gerist í ónefndri vík norður í landi, þar sem lítill andarungi er nýskriðinn úr eggi. Þrátt fyrir varnarorð andamömmu um að gæta verði að því að halda hópinn, þá tapar ungi litli áttum. Til allrar hamingju verður andarunginn á vegi gamals hunds, sem er tilbúinn að aðstoða hann. Sagan er byggð á sönnum atburðum og í lok sögunnar má sjá ljósmyndir af unga litla og hundinum.

Heimspekilegar pælingar

Ég las söguna með fimm ára syni mínum. Hann sat andaktugur undir lestrinum, hló að alls kyns uppátækjum ungans og æjaði og óaði yfir hve allt er krúttlegt í bókinni. Og það er raunin, myndirnar eru einstaklega fallegar, teiknaðar með blýanti í töluvert raunsæjum stíl. Það er þó líka greinilegt að höfundur hefur bætt aðeins í krúttleika dýranna. Sagan er sögð á fallegu tungumáli, hvert orð valið af vandvirkni. Bókinni fylgir líka lífsspeki. Hvern hefði grunað að gamli hundur væri hálfgerður heimspekingur? Hann veltir upp spurningum um tilgang lífsins, hamingjuna og tilveruna. Og litli unginn hlustar og skilur nokkuð mikið. Sagan er þó ekki of háfleyg fyrir börn, því í kjarna sínum er hún einföld. Þetta er saga af því að týnast af leið, upplifa undur heimsins en geta svo ratað aftur heim með hugann fullann af speki og nýja lífsreynslu í farangrinum. Unginn er ekki gerður fyrir heimahús, börnin á heimilinu vita það líka. Hundurinn veit það og innst inni veit ungi litli það líka. Þegar líður að hausti er unginn ekki lengur svo lítill og hinn stóri heimur farinn að toga í hann. 

Falleg þroskasaga fyrir leikskólabörn

Allt yfirbragð bókarinnar ber með sér að vandað hafi verið til útgáfunnar, hún er fallega innbundin og prentuð á vandaðan pappír. Sagan er falleg, lítil þroskasaga með heimspekilegu ívafi sem þó nær vel til barna. Ungi litli er óskaplega krúttlegur, hundurinn fyndinn með sín svipbrigði og svo er bara eitthvað svo óskaplega skemmtilegt við það að hugsa sér að eiga unga og sjá um hann. Sjálf átti ég ótal unga á mínum yngri árum, æðakollu, andarunga, gæsaunga, hænuunga og meira að segja músaunga. En innst inni veit maður að náttúran verður ekki hamin og flestir þessara unga fengu að lifa sjálfstæðu lífi að sumri loknu. Rétt eins og ungi litli í sögunni.

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...