Running out of time eftir Simon Fox er unglingabók og jafnframt blanda af spennusögu og vísindaskáldsögu. Sagan segir af hinum 14 ára Alex sem býr í ónefndu landi í Austur-Evrópu. Í landinu hans hefur einræðisherra tekið völdin og hræðilegir atburðir eiga sér stað. Pabbi hans berst gegn ofríkinu og hefur smyglað skjölum úr landi sem munu leiða stríðsglæpi í ljós og kalla aðgerðir nágrannalanda yfir einræðisherrann. Þegar upp kemst um skjalasmygl föðursins þurfa þeir feðgar að flýja land sitt, skilja háaldraða ömmuna eftir eina. Hefst þá flótti upp á líf og dauða, þar sem herforingi veitir þeim eftirför. Hafa ber í huga að bókin ser skrifuð áður en stríðið í Úkraínu hófst.
En það er einn hæfileiki sem Alex býr yfir sem getur hjálpað þeim feðgum. Hann getur séð 15 sekúndur inn í framtíðina, hæfileiki sem faðir hans kallar bölvun en amma hans kallaði gjöf og skyldi við hann með þeim orðum að hann skyldi rækta þennan hæfileika og ná að líta lengra inn í framtíðna.
Sagan er sögð í gegnum tvær tímalínur, fyrir og eftir. Fyrir ferðina yfir Ermasundið og svo eftir. Leið þeirra feðga í gegnum Evrópu er erfið og hættuleg. Þeir stefna á Bretland en ferðin þangað er erfið og hættuleg, ekki síst þegar smyglarar ráða ríkjum á landamærunum.
Flókin í byrjun
Bókin var nokkuð flókin við fyrstu sýn. Framtíðarsýn Alex var örlítið óreiðukennd og lesandi átti erfitt með að átta sig á á hvaða tímaás hann var staddur þá og þegar. En þetta skýrðist og vandist fljótt þegar komið var inn í bókina. Til að aðgreina rauntíma frá framtíðarsýn er textinn skáletraður. Það er margt hægt að gera á 15 sekúndum. Líf geta fjarað út á 15 sekúndum. Fox spyr lesandann að því hvað hann myndi gera með 15 sekúndur.
Atburðarásin er hröð og grípandi. Maður binst málstað Alex sterkum tilfinningaböndum, þótt persóna hans sé ekki mjög djúp. Raunar er engin persóna í bókinni mjög djúp, meira púður er lagt í hraðan og spennandi söguþráð og að koma reynsluheimi fólks á flótta til skila. Alex kynnist hinni röggsömu Hayley á Englandi sem er jafnaldra hans og saman þurfa þau að sigrast á glæpamönnum og óþjóðalýð, af því fullorðna fólkinu í lífi þeirra er ógnað. Þarna er því saga þar sem börn, eða í þessu tilviki unglingar, taka örlögin í sínar hendur og sigrast á mótlætinu.
Börn á flótta
Í grunninn er sagan þó ekki flókin. Þetta er saga um fólk á flótta. Fólki sem hefur þurft að hlaupa frá landi sínu, eigum sínum, fjölskyldu sinni og öllu því sem því er kært. Þetta er saga af börnum sem þurfa að taka of mikla ábyrgð, sjá of mikið af því ljóta í heiminum, takast á við illmenni sem veigra sér ekki við að drepa eða meiða til að ná sínu fram. Eins og heimurinn er í dag þá finnst mér þessi bók eiga fullt erindi til ungmenna okkar – hún getur skapað samræður um hvað það þýðir að vera á flótta.