Steinninn Steinunn Gestsdottir

Ragnheiður Gestsdóttir hefur fyrir löngu skapað sér pláss í heimi íslenskra bókmennta og sendir nú frá sér nýja skáldsögu, Steinninn, sem er mjög svo ólík fyrri bókum Ragnheiðar. Hún er þekkt fyrir að skrifa og myndlýsa barna- og unglingabókum en hefur á undanförnum árum sent frá sér glæpasögur. Bók hennar, Farangur hlaut til dæmis Blóðdropann, íslensku glæpasagnaverðlaunin, árið 2022.

Steinninn er hvorki barnabók né glæpasaga heldur fjallar hún um Steinunni Sumarliðadóttur, konu sem stendur á tímamótum. 

Kona tekur sér pláss

Steinunn er ekkja sem býr í sjávarþorpi úti á landi. Hún blæs til veislu í tilefni af sjötugsafmælinu. Fullorðnum börnum og barnabörnum er boðið til veislu ásamt vinum og kunningjum. Eftir veisluna og þá atburði sem gerast þar ákveður Steinunn að nú sé tími kominn á breytingar. Lífið bíður ekki eftir henni og hún ákveður að leggjast í ferðalag. 

Fyrir konu á sjötugsaldri sem ávallt hefur sinnt sínum skyldum gagnvart manni, börnum og samfélagi er þetta sannkölluð uppreisn. Steinunn er kona sem hefur ekki látið mikið fyrir sér fara í gegnum tíðina, aldrei gert neitt óvenjulegt né tekið sér sitt pláss.

Börnin hennar líta að minnsta kosti á gjörðir hennar sem uppreisn en Steinunn lætur það sem vind um eyru þjóta, lætur sig hverfa, kaupir sér flugmiða aðra leiðina og leggur af stað út í heiminn. Í ferðalaginu kynnist hún sjálfri sér upp á nýtt, upplifir ýmis ævintýri og tekst á við óuppgerðar tilfinningar ásamt því að þenja sín eigin mörk.

Úr barnabókum yfir í glæpasögur yfir í feminíska kvenhetjusögu

Þessi saga er svo sannarlega frábrugðin því sem Ragnheiður hefur áður sent frá sér. Ragnheiður varð fyrst þekkt fyrir að skrifa og myndlýsa barna- og unglingabókum en breytti svo um stefnu fyrir nokkrum árum og hóf að skrifa glæpasögur. Hún hefur á undanförnum árum gefið út þrjár glæpasögur, Úr myrkrinu, Farangur og Blinda. Nú kemur hinsvegar Steinninn sem er hvorki barna- né unglingabók og alls engin glæpasaga. Heldur nokkurskonar hugvekja, hugljúf en jafnframt spennandi hugvekja sem vekur mann til umhugsunar um lífið og tilveruna. Hún fjallar um þá staðreynd að líf okkar er það sem við gerum úr því. Vissulega eru tækifærin mismunandi sem okkur bjóðast en þegar upp er staðið er það á okkar höndum að ákveða hvernig það fer og það er aldrei of seint að breyta og taka sér pláss. 

Saga Steinunnar er feminísk út í gegn og heilt yfir fannst mér bókin góð. Hún talaði til mín, vakti mig til umhugsunar um margt og alltaf er hressandi að lesa bækur þar sem aðalsöguhetjan er sterk kona. Í þessari bók er hún þar að auki sjötug, sterk kona sem er enn sjaldgæfara að sjá í íslenskum bókmenntum. Frábært, meira svona! 

Mér fannst þó aðeins vanta uppá trúverðugleika ævintýra Steinunnar. Ekki misskilja mig, þau eiga að vera óvenjuleg og yfirgengileg því það er það sem er svo heillandi við söguna en það var samt eitthvað sem vantaði uppá. Smá meiri dýpt í persónur og aðstæður kannski. Ég vona innilega að Ragnheiður skrifi meira í þessa áttina þó mér þyki glæpasögur hennar líka skemmtilegar. Ég las Blindu sem mér þótti ekki gallalaus en þar vorum við aftur með konu, og það eldri konu að taka málin í sínar hendur. Mér þykir það alltaf virðingarvert og frábært þegar höfundar eru óhræddir við að demba sér í að skrifa mismunandi bækur sem Ragnheiður gerir og er alls óhrædd við. Það er til fyrirmyndar.

E.S. Vá, hvað mig langaði að garga á börnin hennar Steinunnar. Sjálfselsku pottormar. 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...