Hvers vegna er ekki hægt að búa á jörðinni?

Þótt að lífið með bók í hönd sé alltaf betra þá er stundum gott að hengslast fyrir framan sjónvarpið og týna sér í góðri þáttaröð. Það er einmitt það sem ég gerði í júní, þegar regnið barði gluggann (munið þið eftir því?) og lofthitinn var jafnhár og á köldu hausti. Þáttaröðin sem ég sökk niður í var Silo

Ég hef áður á þessum vettvangi játað ást mína á stórslysamyndum, dystópískum bókum og sögum af mannlegri þjáningu. Þáttaröðin Silo hakar við þetta allt. Augljóst er að ekki er byggilegt á jörðinni, fólk heldur til í stórum sílóum (eða súrheysturnum eins og ég myndi kalla þetta) og lifir þar kynslóð fram af kynslóð. En enginn veit fyllilega af hverju mannkynið heldur til í sílói. Af hverju eru þau þarna? Hvað eru ljósflekkirnir á himninum sem sjást á skjánum? Hvað er úti? Hvað gerðist?

Þáttaröðin er gífurlega hæg, en ég mæli samt með áhorfi. Ég gat samt ekki beðið eftir næstu þáttaröð svo ég keypti bókina á kindilinn minn. 

Forvitninni svalað

Bókin heitir Wool og er eftir Hugh Howie. Kápan er óræð og undarleg og hefði aldrei vakið áhuga hjá mér, en plottið aftan á hefði kannski vakið forvitni. Nafnið sjálft er svo kapítuli út af fyrir sig. Mjög óljóst og lýsir lítið því sem gerist í bókinni.

Eins og oft vill verða þá er bókin töluvert frábrugðin aðlöguninni að sjónvarpi. En þannig á það líka að vera, ekki satt? Annar miðill, aðrar áherslur. Það kom mér þó á óvart að strax á fyrstu síðum bókarinnar er afhjúpað það sem öll fyrsta sjónvarspsserían fjallar um. Því spurði ég sjálfa mig hver væri drifkraftur bókarinnar? En það kom mjög fljótt í ljós að það vantaði engan drifkraft og hefðu þáttaframleiðendurnir viljað þá hefðu þeir vel getað haft atburðarásina hraðari og jafnvel fylgt bókinni. En ég verð þó að segja að afhjúpunin í síðasta þætti var virkilega flott. Svo líklega gerðu handritshöfundar rétt þar. Ef þú vilt horfa á þættina áður en þú lest bókina skaltu hætta að lesa hér.

Ógnvekjandi og dystópískur heimur

Bókin er í fimm hlutum og hver hluti segir frá mismunandi persónum, en þó er Juliette aðalpersónan og drifkraftur bókanna. Í fyrsta hluta er fylgst með lögreglustjóranum Holston sem er á leið í sína eigin aftöku. Þessi fyrsti hluti, sem var bara smásaga árið 2011 þegar hún kom fyrst út, snýst um að útskýra af hverju Holston er á leið í aftöku. Hvað gerðist og hvernig? Næsti hluti fjallar um göngu Jahns (borgarstjóra) og Marnes (aðstoðarlögreglustjóra) niður á neðstu hæðir Sílósins (144 hæðir) á leið á hitta Juliette sem hefur verið valin næsti lögreglustjóri. Á langri leið þeirra tveggja opnast heimurinn fyrir lesandanum. Þetta er flókinn heimur, úthugsaður með tækni þar sem engin náttúra er til staðar. Allt er manngert. 

Þrír síðustu hlutar bókarinnar eru helgaðir örlögum Juliette. Þrátt fyrir að vera lögreglustjóri er hún valdalaus og það kemur í ljós að völdin eru þar sem mann hefði síst grunað. Sá sem hefur mesta valdið er sá sem stjórnar því sem íbúar sílósins sjá og skynja og heyra. Eins og í öllum góðum vísindaskáldskap leynist því broddur og samfélagsgagnrýni. Howie hefur skapað heilan og vel úthugsaðan heim sem lesandinn algjörlega fellur inn í og gleymir stað og stund. Bókin er gríðarlega spennandi og grípandi frá fyrstu blaðsíðu.

Lesendur ráða ferðinni

Eins og kemur fram hér að ofan kom fyrsti hluti bókarinnar út sem smásaga í sjálfsútgáfu á Amazon árið 2011. Sagan fréttist manna á milli og seldist mun betur en fyrri sögur Howie. Þegar hann fór að fá óskir frá lesendum um áframhald, fleiri sögur úr þessum dystópíska heimi, ákvað hann að skrifa fleiri sögur. Þær sögur enduðu svo í einni bók sem er Wool sem kom út árið 2012. Bókin varð gríðarlega vinsæl, svo ég er frekar sein að uppgötva hana og hefði líklega ekki lesið hana nema vegna þess að ég horfði á sjónvarpsþættina.

Nafn bókarinnar er furðulega ógagnsætt og skrýtið, en ef horft er til þess að bókin á rætur í þessari smásögu þá er það skiljanlegt. Bókin er til vegna þess að lesendur vildu meira. Þetta er ágætis dæmi um það hvernig lesendur geta ráðið ferðinni. Höfundur og lesendur gera næstum samning sín á milli um að vinna saman að einhverjum heimi. Höfundur skrifar fyrir lesendur sína, án afskipta frá bókaforlagi. 

Bókaútgefendur eru farnir að gera sér grein fyrir þessu. Lesendur ráða ferðinni æ meira í bókaútgáfu. Vinsælar bækur seljast og bækur sem hafa hátt afþreyingarstig höfða til flestra lesenda (Sarah Morgan og Colleen Hoover til dæmis). Þannig hafa íslenskir útgefendur fylgst vel með því sem er að gerast á BookTok og Bookstagram og keppast við að þýða þær bækur sem ná miklum vinsældum þar. Það er frábært að fá vinsælar afþreyingarbókmenntir á íslensku, það glæðir bóksölu og styður við bókaútgáfu. 

En hverfum frá þessum vangaveltum um bókaútgáfu, framboð og eftirspurn. Wool er hörkuspennandi vísindaspennusaga sem ég mæli heilshugar með. Það besta er samt að það eru tvær aðrar bækur í seríunni. Og sú næsta byrjar vel. 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...