Bókin Babúska eftir Hallveigu Thorlacius kom út hjá bókaforlaginu Ormstunga nú á vormánuðum en hún er fyrsta bók hennar sem skrifuð er fyrir fullorðna. Hallveig hefur áður skrifað þrjár spennusögur fyrir unga lesendur; Martröð (2008), Augað (2013) og Svarta paddan (2016). Hallveig er þekktust fyrir brúðuleikhúsið Sögusvuntuna og hefur í mörg ár starfað sem brúðuleikari. Hallveig er því ekki óvön því að skapa hina ýmsu söguheima og færa þá til áhorfenda jafnt sem lesenda.
Babúska er spennusaga með dass af dulúð. Í henni má finna morð og reimleika, öruggt efni til vinsælda. Bókin hefst á því að ung stúlka verður fyrir bíl fyrir framan Þjóðleikhúsið og lætur lífið. Ökumaðurinn flýr af vettvangi en ung kona, rússneskur bókmenntafræðingur, verður vitni af slysinu. Hún hringir í neyðarlínuna og gerir lögreglu viðvart en lætur sig svo hverfa.
Á sama tíma standa íbúar í Urriðavík frammi fyrir morðum og reimleikum. Ung stúlka sem var niðursetningur á bæ í sveitinni og fyrirfór sér er sögð ganga aftur og vera valdur að dauðsföllunum. Lögreglukonan Fanney er sú sem sameinar þessa tvo söguþræði, þar sem hún er fengin til að rannsaka bæði málin. Þriðji söguþráðurinn sem fléttast inn í söguna er svo saga konu frá Síberíu sem er amma vitnisins en einnig bætast við fleiri persónur.
Kaótískt svekkelsi
Plottið aftan á bókinni vakti áhuga, hún hljómaði ágætlega. Morð og reimleikar, hver elskar ekki góða morðsögu með dass af draugagangi? Svo er ein aðalsögupersónan af erlendu bergi brotin en það er alltof lítið til af íslenskum bókum þar sem sögupersónur eru ekki týpískir, hvítir Íslendingar. Ramminn á bak við bókina er því nokkuð heillandi. Sá hluti sögunnar sem inniheldur reimleikana er líka spennandi og heillandi. Draugasögur eru alltaf í svolitlu uppáhaldi og íslensk saga þar sem draugagangur veldur dauða, já takk!
Hugmyndin að sögunni sjálfri er góð en þegar komið er að því að skrifa inn í rammann, útfæra plottið, þá er eins og höfundur missi takið á söguþræðinum og tapi taktinum þegar líður inn í bókina. Lesandi fær sjaldan tækifæri til að lesa á milli línanna því sagan er skrifuð í miklum útskýringarstíl. Lestrarupplifunin minnti stundum smá á lestur barnabókar en ekki bók fyrir fullorðna. Þá vantaði samræmi inn í bókina. Til dæmis eru fyrstu kaflarnir nefndir og skrifaðir út frá hverri persónu fyrir sig en svo fjarar það út. Persónurnar verða alltof margar, grunnar og ótrúverðugar. Svetlana, rússneski bókmenntafræðingurinn sem starfar við að skúra lögfræðiskrifstofu og verður vitni af bílslysinu, virkar fyrst á mann sem sterk kona sem mun láta til sín taka í sögunni en fjarar svo algjörlega út og er skyndilega orðin að gólftusku hvíts, íslensks karlmanns í valdastöðu. Hafi örlög hennar átt að vera ádeila á stöðu útlendinga á Íslandi og hve auðvelt sé að misnota sér aðstöðu þeirra þá hefði persóna Svetlönu þurft að standa aðeins hallari fæti og persónueinkenni hennar að vera önnur strax frá byrjun. Vegna Svetlönu spinnst svo amma hennar inn í söguna sem í stað þess að dýpka hana þá bætir hún bara við meiri ringulreið við söguþráðinn. Saga ömmunnar er áhugaverð en vegna alls sem er í gangi í bókinni þá er ekki hægt að gera henni nógu góð skil og hún missir marks.
Vinna rannsóknarlögreglukonunnar Fanneyjar við bæði málin var frústrerandi. Við skrif á glæpasögum þarf höfundurinn að þekkja örlítið til lögreglustarfa, sérstaklega ef lögregla er í aðalhlutverki við rannsókn málsins. Lesandinn á að vera leiddur áfram í átt að lausn málsins og vill vera með í rannsókninni. Þannig á höfundur að gefa örlitlar vísbendingar af og til inni í sögunni. Hallveig leiðir lesandann áfram, en framvindan var svolítið hæg. Vísbendingarnar voru of einfaldar og fjarstæðukenndar. Þegar lögreglan fékk svo sannanir og vísbendingar í hendurnar var fátt eða seint gert með það, sem veldur því að lesandinn verður örlítið óþolinmóður.
Af öllu sem á sér stað í bókinni þá þótti sagan um reimleikana í Urriðavík meira heillandi og djúsí ef svo má segja. Atburðirnir í þeirri sögu voru oft virkilega spennandi og svo mikið að á stundum var ekki hægt að leggja bókina frá sér. Það vantaði hins vegar upp á dýptina og úrlausn málanna. Sagan var virkilega flott samt, flottar pælingar og lausnin sérstök. Það vantaði þó, eins og áður sagði, meiri dýpt og trúverðugleika því draugasögur geta vel verið trúverðugar þó við kannski vitum að draugar séu ekki til.
Frábær hugmynd sem hefði mátt vinna betur
Bókin er byggð á hugmynd sem hefði þurft að fá aðeins lengri tíma hjá höfundi, ritstjóra og forlagi áður en hún kom út. Hugmyndin er virkilega góð en það eru svo mörg atriði, svo margir hlutir sem koma á að í sögunni að það er vaðið úr einu í annað og allt verður of grunnt, bæði persónur og atburðir. Saga Fanneyjar og hreppstjórans, saga Svetlönu og ömmu hennar, saga íbúanna í Urriðavík og örlög þeirra. Allt eru þetta áhugaverðar sögur og persónur sem hefði verið gaman að lesa meira um en aftur, of mörg atriði og persónur til að hægt sé að gera þeim öllum góð skil í einni bók. Mögulega hefði mátt slíta bókina í tvennt, gera tvær bækur þar sem annars vegar er bílslysið og saga Svetlönu, ömmu hennar og Fanneyjar lögreglukonu með og svo hinsvegar þar sem draugagangur í Urriðavík veldur dauðsföllum, saga íbúanna þar fengi meiri dýpt og Fanney rannsakar málið. Í það minnsta hefði þurft að skerpa á atriðum í handriti Babúsku, klippa út nokkur og dýpka önnur. Þá hefði þetta orðið alveg virkilega trufluð saga.