Bekkurinn minn er sería barnabóka sem gerast í íslenskum veruleika eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur og Iðunni Örnu. Í hverri bók í seríunni fylgir lesandinn eftir einu barni í bekknum. Sögurnar gerast bæði innan skólans sem utan og spegla sérstaklega vel raunveruleika barna á Íslandi.

Bækurnar henta byrjendum í lestri, eða börnum á yngsta stigi grunnskóla. Fyrir þau sem eru að stíga sín allra fyrstu skref í lestri er hægt að nálgast sögurnar í enn einfaldara formi, Bekkurinn minn lauflétt að lesa

Í nýjustu og sjöundu bókinni, Bekkurinn minn: Bumba er bestfylgir lesandinn Óðni. Óðinn er svolítið stúrinn og í fyrstu heldur lesandinn kannski að það sé af því hann hefur ekki náð að prófa nýja sleðann sem hann fékk í jólagjöf. Það skiptist á rigning og snjór og allt er þakið slabbi. Eins og er oft á suðvesturhorni Íslands. 

Þegar hann kemur heim með vinkonu sinni úr bekknum, henni Halldóru, kemur þó í ljós að rótin að vanlíðan Óðins er dýpri og flóknari. 

 

Nýtt systkini

Óðinn á pínulitla systur og mömmur hans eru svolítið uppteknar af henni. Litla systir er með astma og ofnæmi, en ekki ofnæmi fyrir jarðarberjum eins og Halldóra, heldur fyrir dýrum. Og hér er uppsprettan að depurð Óðins. Bumba er kisa fjölskyldunnar og mömmur hans hafa rætt sín á milli að kannski þurfi Bumba að fara út af heimilinu svo litla systir geti jafnað sig af ofnæminu. 

Þessar aðstæður hafa án efa mörg börn gengið í gegnum eða munu ganga í gegnum. Það að eignast lítið systkini er streituvaldandi tími fyrir börn, ekki síður en fyrir fjölskylduna í heild sinni. Hér er því blákaldur íslenskur raunveruleiki á ferðinni, með snjóleysi og myrkri. 

Við könnumst við umhverfið

Iðunn Arna sér um myndlýsingar bókanna í seríunni. Myndirnar eru fullkomin heimfærsla á íslensku umhverfi yfir í barnabók. Þarna eru blokkir sem við könnumst við, gangstéttir, húsgögn og bækur. Halldóra og Óðinn fara saman út að leika þegar loksins fer að snjóa. Úti er janúarmyrkur. Það vill oft gleymast í myndlýsingum íslenskra barnabóka, sennilega af því við viljum flest gleyma því sjálf eða erum með valblindu fyrir myrkrinu. Myndirnar eru teiknaðar á einfaldan og aðgengilegan hátt, hreinskilnar og þægilegar. 

Það er auðvelt fyrir lesandann að spegla sig í bókunum um Bekkinn minn og að sama skapi auðvelt að skilja vinsældir þeirra. Fyrir börn sem óska sér góðra hversdagssagna þá er bókaserían  Bekkurinn minn tilvalið lesefni sem hentar yngsta stigi grunnskóla mjög vel. 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...