Það er farið að líða á haustið. Úti er rökkur, rakt og kalt. Náttúran fellur í dvala og sjálf virðist ég fylgja þessum takti. Dreg kaldar tærnar undir teppi, lykta af heitu teinu, narta í sætar döðlur, kveiki á kerti og opna bók.

Bókin sem varð fyrir valinu að þessu sinni hefur setið á leslistanum í allt of mörg ár. Ég hef vitað af seríunni eftir Emil Hjörvar Petersen um huldumiðilinn Bergrúnu og dóttur hennar Brá lengi. Fyrsta bókin í seríunni, sem nú telur þrjár bækur, er Víghólar sem kom út árið 2016 og ég þori að fullyrða að hefði ég búið á Íslandi á þeim tíma þá hefði bókin ratað fljótt og vel í hendur mínar. En grátum ekki glataðan tíma! 

Hliðarveruleiki og fleiri heimar

Vinnuvélar við Víghól í Kópavogi verða fyrir skemmdum. Lögreglan kallar til huldumiðilinn Bergrúnu Búadóttur til að kanna hvort að vættir hafi verið að verki eða hvort mannlegar hendur hafi valdið skemmdunum. Það kemur fljótt í ljós að málið er flóknara. Illa útleikin lík finnast víðsvegar um landið og það lítur út fyrir að morðinginn sé ekki af þessum heimi. 

Hér blandar Emil Hjörvar saman glæpasögu við furðusögur og úr verður æsispennandi saga með dulrænum blæ. Hversdagsleg málefni blandast saman við hið hulda og dularfulla. Heimur Emils Hjörvars er ekki alveg eins og okkar. Svo virðist sem hann hafi skapað hliðarraunveruleika, þar sem það er þekkt að vættir og meinvættir gangi stundum yfir Huluna og hrelli mannfólkið. Við þennan veruleika hefur hann prjónað tvo aðra heima, Hulduheim vætta og Handanheim hinna framliðnu. Hann nýtir sér óspart íslensku þjóðsögurnar. Hér má sjá nykur stökkva úr vatni og huldufólk ganga á meðal vor.

Íslensku þjóðsögurnar í gömlu ljósi

Í gegnum tíðina hefur ekki þótt módern að hræða börn með sögum af vættum, álfum og tröllum. Allt er orðið frekar sakleysislegt. Mér er minnistæð bók Brian Pilkington, Tröll, þar sem alls kyns fróðleikur er um tröll. Allt er frekar sakleysislegt og vel útskýrt. Og sem foreldri vil ég frekar lesa það fyrir börnin mín. Óþarfi að valda skelfingu. En þessi sýn á óvættirnar í íslenskri náttúru hefur smitast yfir í huga minn líka. Í mínum huga hafa tröll og álfar og aðrar vættir fengið á sig krúttlegan blæ. Og nú tala ég um þetta allt eins og þetta sé til í alvöru, svo djúpt hef ég sokkið í heim Emils Hjörvars. 

Emil flettir hulunni af löngu gleymdum hryllingi þjóðsagnanna. Tröll eru hræðilegar skepnur sem vilja éta fólk og bryðja bein. Álfum er ekki treystandi. Álfaheimur er hættulegur og heillandi staður. Ég tala um þetta allt saman eins og ég búist við að sjá álf á næsta götuhorni, og sá er máttur skrifa Emils Hjörvars. Heimurinn stekkur upp af blaðsíðunni og gleypir lesandann með húð og hári. Söguþráðurinn er spennandi og sannfærandi í gegnum bókina. Persónur eru fullmótaðar og breyskar og mig þyrstir í að vita meira um þær. Ég hóf lesturinn á prentaðri bók. Mér gekk þó svo illa að sinna skyldum mínum sem þegn í samfélagi manna að ég skipti yfir í hljóðbókina sem er aðgengileg á Storytel í lestri Margrétar Örnólfsdóttur. Svo hlustaði ég. Mikið. Margrét hefur því lesið fyrir mig hverja vökustund síðustu daga, því ég get ómögulega slitið mig frá Hulduheimi Emils Hjörvar. 

Ég mæli innilega með lestri á Víghólum fyrir aðdáendur glæpasagna sem og aðdáendur furðusagna. Skömmu eftir að ég hóf hlustun á annarri bókinni í seríunni, Sólhvörfum, tilkynnti Emil Hjörvar á samfélagsmiðlum að fjórða og jafnframt lokabókin í seríunni sé væntanleg sem hljóðbók frá Storytel. Ég get ekki beðið!

 

Lestu þetta næst

Ljóskastari ofan í moldina

Ljóskastari ofan í moldina

Sunna Dís Másdóttir hefur um árabil starfað sem rithöfundur og gaf hún meðal annars út ljóðabókina...

Bók um ást og hlýju

Bók um ást og hlýju

Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur...

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...