Áfram held ég að lesa sögulegar skáldsögur þar sem konur eru í aðalhlutverki. Nú var það bókin Viðkomustaðir: saga af Lóu eftir Ásdísi Ingólfsdóttur sem kom út nú á dögunum hjá Sæmundi bókaútgáfu. Ég varð ekki vör við bókina sjálf heldur var mér bent á hana af annarri Lestrarklefa vinkonu sem þekkir áhuga minn á svona bókum. Bókin lenti heima hjá mér og ég hugsaði nú með mér að geyma hana aðeins, eiga hana inni en það gekk auðvitað ekkert upp. Ég hóf lesturinn svo til strax og sat límd. 

Sagan gerist yfir um það bil þrjátíu ára tímabil. Hún hefst í kringum árið 1890 þegar Lóa er lítil stelpa sem er komið fyrir í fóstur eftir dauða móður sinnar. Hún er tekin frá föður sínum, bróður og systur og fóstruð á heimili þar sem hún eignast óskylda langömmu sem hugsar um hana til að byrja með. Hún á svo eftir að fara víðar hér á Íslandi eins og algengt var með niðursetninga á þessum tíma. Hún endar þó á að fara mjög ung að árum til Kanada og upplifir þar ótrúleg ævintýri og raunir.

Saga Lóu er saga stúlku sem á sér hvergi lengi samastað né traust fólk í sínu lífi, allavega ekki til lengdar. Eins og áður sagði þá er hún sett í fóstur mjög ung, sem niðursetningur. Hún er ekki lengi á fyrsta staðnum og í raun er ævi henni sífelld leit að stöðugleika og samastað. Hún er ekki fyrr búin að koma sér fyrir á einum stað þegar sá næsti tekur við. Hún endar á að fara til Kanada og upplifa þar ævintýri en að sama skapi eru þau ævintýri eitthvað sem leiða hana á milli fólks og staða. Þessi ferð til Kanada er mjög tilviljanakennd en það er einhvern veginn allt frekar tilviljanakennt við líf hennar og þær leiðir sem hún fer. Það er það sem gerir söguna spennandi, það gerist alltaf eitthvað nýtt og óvænt. Þegar þú telur að þú vitir nákvæmlega hvað gerist næst eða hvernig Lóa leysir úr þeim atvikum sem hún lendir í þá er það bara alls ekki þannig. Á einum tímapunkti við lestur bókarinnar stóð ég inni í eldhúsi að hræra í potti og lesa á sama tíma. Ég varð að vita hvað gerðist næst, gat ekki lagt bókina frá mér. 

Skrifuð af natni og færni

Í þessu lífsferðalagi Lóu upplifir hún einnig  miklar raunir sem hún þarf að takast á við, raunir sem segja má að séu einkennandi fyrir líf kvenna á þessum tíma. Það eru atriði sem er erfitt að lesa um og önnur sem vekja með manni gleði og hlýju. Ásdís skrifar um þessi erfiðu atriði af mikilli færni og natni. Hún hrífur mann með sér með skrifum sínum og byggir heim Lóu vel upp, bæði sögusviðið en einnig þær persónur sem koma inn í líf Lóu. Sumar eru dýpri og flóknari en aðrar, sumar eru týpískar og aðrar ekki. Það helsta sem ég gæti sett út á söguna er endirinn. Það er augljóst frá því að lestur hefst að Lóa mun enda heima í lok sögunnar. Það sést á efnisyfirliti bókarinnar og einnig er það nefnt á bakkápu bókarinnar. Hvernig hún endar heima og hvað hún gerir er hinsvegar ekki augljóst fyrr en á síðustu blaðsíðum sem er eins og við viljum hafa það. Hinsvegar fannst mér endinn skorta, hann var of stuttur, fléttan var ekki nógu vel hnýtt í lokin. En það kallar þó að mínu mati á að Ásdís skrifi framhald, mikið væri það frábært því ég sat límd yfir sögunni allan tímann, lagði ekki bókina frá mér og las alltof lengi eitt kvöldið. Svo lengi að ég þurfti óeðlilega marga kaffibolla í vinnunni daginn eftir. 

Má ég fá meira?

Heilt yfir er þetta alveg frábær bók. Ég gjörsamlega límdist við hana og þótti hún skemmtileg og óvenjuleg saga ungrar konu á 19. öld. Hefði viljað meira kjöt á endinn en samt sem áður sátt, vil bara meira. Hvað varð til dæmis um hann Silla?

Ef þú heillast af sögulegum skáldsögum, hefur kannski lesið bækur Guðrúnar frá Lundi eða bækur Bennýjar Sifjar um hana Gratíönu og verið ánægt með þær þá heillastu af þessari bók.

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...