Árið hefur verið viðburðaríkt hjá höfundinum Ragnari Jónassyni en á árinu voru frumsýndir þættirnir Dimma sem byggðir eru á bókum Ragnars um lögreglukonuna Huldu. Bækurnar um Huldu heita Dimma, Drungi og Mistur og nú er komin út bókin Hulda sem er fjórða bókin í bókaflokknum en jafnframt forleikur að fyrri bókum. 

Í upphafi sögunnar erum við stödd á aðfangadag árið 1960. Atli, ungur faðir í smáíbúðahverfinu í Reykjavík þarf að bregða sér aðeins út í bifreið sína. Hann gleymdi jólaeplunum í bílnum. Hann býr ásamt konu sinni, Emmu, og litlum syni þeirra í einbýlishúsi sem hann byggði sjálfur eftir að hafa fengið úthlutað fínni lóð í gegnum tengdaföður sinn. Atli er hamingjusamur, sáttur með sitt en svo dynja hörmungar yfir. Þegar Atli snýr aftur eftir að hafa rölt út í bíl þá er sonur hans horfinn. 

Hulda og karlaveldið

Næst í sögunni erum við stödd í Reykjavík árið 1980 og hittum fyrir lögreglukonuna Huldu sem er þá rúmlega þrítug. Hulda er metnaðargjörn og hefur hug á að ná lengra innan lögreglunnar en í vegi hennar stendur karlaveldið en þó eygir hún von í nýjum yfirmanni sínum sem virðist vera framsýnni en aðrir karlkyns kollegar þeirra. Starfið er þó ekki það eina sem gefur Huldu gleði, það gerir litla sex ára dóttir hennar einnig, hún Dimma. Hulda sér ekki sólina fyrir litlu skottunni sinni og vill allt fyrir hana gera. Hjónaband Huldu og Jóns eiginmanns hennar er þó krefjandi, Jón vinnur mikið og virðist fjarrænn og áhugalaus um líf þeirra. 

Það er á þessum tíma sem nýjar vísbendingar koma fram í tengslum við barnsránið en hingað til hefur það verið óupplýst. Þessar nýju vísbendingar færa rannsókn málsins úr Reykjavík og norður á land, nánar tiltekið í fámenna sveit í Blöndudal. Huldu er falin rannsókn málsins og fær liðsauka frá Álfrúnu, lögreglukonu sem er nokkrum árum yngri en Hulda og virkar sem algjör andstæða hennar. Þær fara saman norður og fá gistingu á bæ sem er í næsta nágrenni við þann bæ sem þær eiga erindi á. Þau kynnast þar ýmsu fólki við rannsókn málsins sem tekur þeim misvel. 

Vel skrifuð flétta sem kemur á óvart

Sagan er vel skrifuð íslensk spennusaga með skemmtilegri fléttu sem kemur á óvart. Höfundurinn teymir lesandann áfram eftir fléttunni, droppar vísbendingum hér og þar og akkúrat þegar lesandinn telur sig vita hvað gerðist þá er tekin skörp vinstri beygja og niðurstaðan kemur á óvart. Allavega kom hún undirritaðri á óvart. Svo er það það sem gefur bókum Ragnars aðeins meiri vigt en bókum margra annarra spennusagnahöfunda. Það er saga Huldu sjálfrar og hvernig hún tekst á við lífið. Til hliðar við lausn sakamálsins þá fylgjumst við með togstreitu Huldu þegar kemur að bæði einkalífinu en einnig frama hennar innan lögreglunnar. Að auki setur Ragnar sögusviðið upp alveg gríðarlega vel. Hvernig hann byggir upp persónurnar og lýsir atburðum sem gerast í kring færir lesandann til ársins 1980. Kjör Vigdísar til forseta, viðhorf karlkyns samstarfsfélaga Huldu til hennar og örlög Álfrúnar innan lögreglunnar. Vesenið með símann: ég sver ég heyrði hljóðin í skífusímanum þegar enn eitt númerið var valið. 

Hulda er virkilega vel skrifuð spennusaga sem sýnir og sannar hvers vegna Ragnar er einn af fremstu norrænu spennusagnahöfundum dagsins í dag.

Lestu þetta næst

Ljóskastari ofan í moldina

Ljóskastari ofan í moldina

Sunna Dís Másdóttir hefur um árabil starfað sem rithöfundur og gaf hún meðal annars út ljóðabókina...

Bók um ást og hlýju

Bók um ást og hlýju

Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur...

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...