Maddý, Tímon og bleika leynifélagið eftir Ilona Kostecka með myndlýsingum Önnu Simeone kom út í þýðingu Sólveigar Hreiðarsdóttur fyrr í haust. Bókin er fagurlega bleik eins og nafn hennar gefur til kynna og segir frá systkinunum Maddý og Tímon.
Bókin endurspeglar reynsluheim barna á skemmtilegan hátt. Í byrjun bókarinnar hittum við Maddý og Tímon fyrir í eldhúsinu, þar sem þau eru langþreytt á því að bíða eftir að fara á leikvöllinn. Af hverju þarf pabbi að ganga frá eftir matinn fyrst? „Þetta fullorðna fólk skilur ekki hvað er mikilvægt og hvað skiptir engu máli!“ barma börnin sér í bókinni. Það skiptir nefnilega miklu meira máli að fara á leikvöllinn að leika.
Að feta út fyrir mörkin
Á leikvellinum hitta systkinin vini Tímons úr leikskólanum. Og þau finna gat í girðingunni. Á milli sín þrætir hópurinn um það hvort þau eigi að stíga út fyrir mörk leikvallarins, út fyrir mörk hins leyfilega og örugga og inn í óvissuna og í burtu frá hinum alsjáandi augum foreldranna. Ákvörðun er tekin og þau hætta sér í óvissuna. Allir nema Maddý, sem er of lítil. En henni er nokkuð sama, en samt smá sár. Þarna er mjög raunverulegu systkinasambandi lýst.
Strákarnir finna afvikin stað, með slitnum sófa og þar er stofnað leynifélag. En þeir vilja ekki að Maddý kjafti frá gatinu í girðingunni í foreldrana því „ef foreldrar þeirra frétta af leynistaðnum vilja þeir kannski líka vera með og við vitum öll að þegar foreldrar eru með er ekkert gaman lengur vegna þess að þeir eru alltaf að segja okkur að fara varlega, vera stillt og þvo hendurnar.“ Til að friða Maddý fær hún því að vera með í leynifélaginu sem fær nafnið bleika leynifélagið.
Skemmtileg bók
Eins og áður leitaði Lestrarklefinn skoðunnar frá yngri ráðunauti. Að þessu sinni sjö ára drengur sem las bókina spjalda á milli alveg sjálfur og sagði hana skemmtilega. Hann las upphátt tilvitnunina í bókina hér að ofan, um það að fullorðnir skilji ekki hvað sé mikilvægt, og horfði svo þýðingamiklu augnaráði á móður sína. Aðspurður hvað gerði hana skemmtilega sagði hann að hann vissi ekki alveg hvað gerði hana skemmtilega. En hann hafði gaman af henni. Kjarninn í bókinni er eftir vill sá að það sé gott fyrir krakka að fá svolítið lausan tauminn stundum. Foreldrar og forráðamenn vita ekkert endilega alltaf hvað skiptir mestu máli og gera svo leikina bara leiðinlega með sinni endalausu skynsemi og afskiptasemi.
Bókin hentar börnum á leikskóla og í fyrstu bekkjum grunnskóla.