„Mjööööög spennandi og smá hræðileg“

19. desember 2024

 Samkvæmt einum ráðunauti Lestrarklefans, sjö ára gömlum, þurfa bækur að vera spennandi og/eða fyndnar. Hann er töluvert vandlátur á lesefni sitt, sérstaklega ef honum finnst bókin ekki spennandi eða fyndin. Þetta er gegnumgangandi skoðun flestra barna sem lesa bækur. Þær þurfa að grípa, vera spennandi eða fyndnar. Það eru ekkert margar aðrar kröfur sem krakkar setja og þessi krítería er nokkuð víð og ekki endilega til að auðvelda barnabókahöfundum að skrifa bækurnar. Krakkar eru að sama skapi mjög gagnrýnir á bækurnar sem þau lesa og gefa þeim falleinkunn ef þeim líkar hún ekki. 

Ég og ráðunautur Lestrarklefans, Marteinn Sebastían, lásum saman bókina Draugagangur og derby eftir Ásrúnu Magnúsdóttur sem kom út í Ljósaseríu Bókabeitunnar. Myndhöfundur er Evana Kisa. 

 

Dularfullir atburðir í derby

Bókin fjallar um nokkra vini að hausti sem ætla að hefja æfingar í derby. „Hvað er derby?“ gætir þú spurt. Og það var raunar það sem krakkarnir í bókinni spurðu sig að. Derby er keppni á hjólaskautum. Mér er þessi íþrótt eftirminnilegust eftir bíómyndina Whip it! með Drew Barrymore og Elliot Page í aðalhlutverkum. Derby-félagið í bókinni er sem sagt að bjóða krökkum að koma að æfa íþróttina, sem hljómar ansi skemmtileg. En svo fara dularfullir hlutir að gerast í derby-höllinni og krakkana fer að gruna að þarna sé á ferðinni draugur. Og fara að rannsaka málið!

Börnin bjarga málunum

Bókin féll vel í kramið hjá unga lesandanum, honum fannst bókin „mjööööööög spennandi, skemmtileg og smá hræðileg“. Undir lokin nagaði hann neglurnar af spennu og óskaði svo eftir áskrift að Ljósaseríunni í jólagjöf. Ásrún blandar saman tveimur mjög ólíkum hlutum, draugum og derbyíþróttinni (sem er mikið jaðarsport) og útkoman er spennandi barnabók. Ásrún nýtir sér þekkt þema í barnabókum (og eitt af mínum uppáhalds) þar sem börn taka málin í sínar hendur, leggja sig í smá hættu en bjarga svo öllu í lokin. Og þetta er bara nokkuð vel gert hjá henni og Ásrún hefur nælt sér inn nýjan aðdáanda. 

 

Lestu þetta næst

Óskar er einhverfur

Óskar er einhverfur

Óskar elskar lestir: Bróðir minn er einhverfur eftir Ernu Sigurðardóttir Hvernig myndi þér líða ef...

Forrest Gump Íslands

Forrest Gump Íslands

Óli K. er fagurlega gerð ljósmyndabók með ævisögulegu ívafi um líf og störf ljósmyndarans Ólafs K....

Marglaga og mannlegur Laddi

Marglaga og mannlegur Laddi

Ég var mjög óviss þegar ég sá fyrstu auglýsingar birtast fyrir nýja sýningu um líf og störf Ladda...