Lestrarklefinn heiðraður á Íslensku hljóðbókaverðlaununum

28. mars 2025

Frá vinstri: Sjöfn Asare, Katrín Lilja Jónsdóttir (stofnandi og fyrrum ritstjóri), Hugrún Björnsdóttir (vefstjóri), Rebekka Sif Stefánsdóttir (ritstjóri), Jana Hjörvar og Díana Sjöfn Jóhannsdóttir (aðstoðarritstjóri).

Við hjá Lestrarklefanum erum innilega stolt að segja frá því að við hlutum heiðursverðlaun á Íslensku hljóðbókaverðlaununum – Storytel Awards í gærkvöldi fyr­ir fram­lag til umræðu um bók­mennt­ir og lestr­ar­menn­ingu á Íslandi. Elísabet Hafsteinsdóttir útgefandi hjá Storytel veitti verðlaunin og hafði meðal annars þetta að segja:  „Lestr­ar­klef­inn er grasrót­ar­vett­vang­ur sem hef­ur frá ár­inu 2018 unnið óeig­ingjarnt og kraft­mikið starf við að halda bók­menntaum­ræðu á Íslandi lif­andi. Á vefn­um er fjallað af ástríðu og fag­mennsku um bæk­ur í öll­um form­um – hvort sem um er að ræða prentaðar bæk­ur, hljóðbæk­ur eða raf­bæk­ur – auk leik­húss og menn­ing­ar í víðara sam­hengi,“ seg­ir í um­sögn dóm­nefnd­ar þar sem jafn­framt kem­ur fram að með vandaðri um­fjöll­un, fjöl­breyttu efni og per­sónu­legri nálg­un hafi Lestr­ar­klef­inn veitt aðgengi­lega bók­menntaum­fjöll­un og tengt sam­an les­end­ur, höf­unda og verk á lif­andi hátt.

Hér má lesa þakkarræðu Rebekku Sifjar, núverandi ritstjóra Lestrarklefans:

„Mér finnst alveg ótrúlega magnað að fá að standa hérna fyrir framan ykkur öll og taka við þessari viðurkenningu fyrir hönd Lestrarklefans og allra þeirra sem hafa verið pennar hjá okkur í gegnum árin. 

Við höfum alltaf litið á okkur sem svo lítil, nokkra lestrarhesta fulla af hugsjón sem elska að tala og skrifa um bækur. Við sáum að það vantaði að fjalla meira um ákveðnar bókmenntategundir, það þurfti að fjalla um fleiri bækur og á aðgengilegum hætti sem nær til lesenda. 

Þó að við séum með í okkar röðum hámenntað fólk, bókmenntafræðinga, sagnfræðinga, lögfræðing, hagfræðing, bókasafnsfræðing og blaðamann, höfum við alltaf nálgast nálgast umfjallanirnar frá sjónarhóli okkar sem lesendur til að reyna að draga fram hvað það er sem heillar við lestur bókmennta, og helst til að draga fram það jákvæða. Við höfum verið jákvæður vettvangur menningarumræðu og erum við mjög stolt af því.

Við höfum fundið fyrir hvatningu í gegnum árin, frá þakklátum höfundum og bókaútgefendum, bókasafnsfræðingum og fleira fólki í skapandi geiranum – þar sem við skrifum einnig um sviðslistir og dansverk og fleira. 

En það er okkur svo dýrmætt að fá hvatningu á þessu stóra sviði hér, fyrir framan ykkur öll, rjómann af skapandi listafólki Íslands. Það er bara rosalega stórt fyrir okkar litla Lestrarklefa, sem hefur orðið miklu stærri en við höfðum nokkurn tímann getað ímyndað okkur.

Þá sérstaklega Katrín Lilja sem stofnaði Lestrarklefann árið 2018 þegar hún var bara heima með lítið barn í fæðingarorlofi. Hún settist við tölvuna á meðan drengurinn svaf og vildi fjalla meira um bækur og þá voru það sérstaklega barnabækurnar sem hún vildi lyfta upp. Við höfum alla tíð síðan haft þær svolítið í fyrirrúmi hjá okkur, reynt að skrifa um þær af sömu virðingu og ást og aðrar bókmenntategundir.

Þetta er nefnilega líka viðurkenning fyrir þessar bókmenntategundir sem hafa kannski ekki fengið jafn mikla umfjöllun annars staðar, barnabækurnar, skvísubækurnar, hljóðbækurnar og ljóðabækurnar. Þetta er viðurkenning fyrir alla lestrarhesta sem vilja vera í virku samtali um bókmenntir og menningu. 

Við höfum í gegnum árin reynt að miðla bókaást okkar á sem flestum miðlum, í gegnum umfjallanir, facebook, instagram, hlaðvarpsseríur, myndir og nú nýlegast myndbönd á TikTok – enda dvelur yngsta kynslóðin aðeins þar. 

Þetta gerum við allt af ástríðu og hugsjón. Þegar mikið álag hefur verið í einkalífi og öðrum launuðum störfum, þá hefur maður oft spurt sig hvort það sé þess virði að halda áfram hugsjónastarfi í sjálfboðavinnu í þeim litla frítíma sem maður hefur. En þá hefur alltaf verið einhver annar sem er tilbúinn til þess að taka boltann um stund og hýfa upp Lestrarklefann og hvetja okkur hin áfram. 

Að lokum vil ég segja að félagsskapurinn og vináttan sem hefur myndast vegna Lestrarklefans hefur verið einstaklega dýrmæt. Það þekkið þið bókaunnendur þegar þið hittið annan slíkan og getið gleymt ykkur í umræðum um bækur og lestur. Þannig Lestrarklefinn er ekki bara menningarvefur heldur lítið samfélag. 

Takk fyrir  okkur Íslensku hljóðbókaverðlaunin. Þetta er yndisleg og dýrmæt hvatning inn í áframhaldandi starf Lestrarklefans – við erum til staðar og munum halda áfram að vera til staðar fyrir lesendur og alla bókaunnendur.“ 

Kampakátur stofnandi og núverandi ritstjórar.

Lestu þetta næst

Hratt, hratt…hægt

Hratt, hratt…hægt

Mér er það afar minnisstætt þegar ég fletti fyrst í gegnum Reese's Book Club í leit minni að góðri...

Forrest Gump Íslands

Forrest Gump Íslands

Óli K. er fagurlega gerð ljósmyndabók með ævisögulegu ívafi um líf og störf ljósmyndarans Ólafs K....

Ég er ofurhetja

Ég er ofurhetja

Kapteinn Frábær í Tjarnarbíó. Kapteinn Frábær er engin venjuleg hetja. Eða er hann kannski allra...

Marglaga og mannlegur Laddi

Marglaga og mannlegur Laddi

Ég var mjög óviss þegar ég sá fyrstu auglýsingar birtast fyrir nýja sýningu um líf og störf Ladda...

Dásamlega upplífgandi

Dásamlega upplífgandi

Á dögunum var ég í leit að góðri ástarsögu, the Guardian var með fínustu samantekt þar sem...