Fyrir mörgum árum síðan, í fyrndinni, las ég sjálf ljóð Þórarins Eldjárns. Þegar ég eignaðist mín eigin börn lásum við af trúrækni safnbókina Óðhalaringla, aftur og aftur og aftur. Hlógum alltaf jafnhátt yfir ljóðinu um Brunahana í strigaskóm, og flokkuðum sokka í sokkaflokka. Sem var reyndar mjög nýtilegur lestur til framtíðar, því hver kannast ekki við að þurfa að flokka sokka í þvottakörfunni.
En færum okkur burt frá húsverkum! Þórarinn er hvergi hættur að semja fyrir börn. Hann hefur af stöðugleika sent frá sér hverja bókina á eftir annarri með ljóðum fyrir börn. Og hafir þú ekki reynt það nú þegar þá er mjög gaman að lesa ljóð fyrir börn. Stuttur og hnitmiðaður texti, ríkurlegur orðaforði og oftast er allt morandi í húmor.
Dót frá öllum tímum
Fyrir síðustu jól sendi Þórainn frá sér rímnabókina Dótarímur með myndum eftir Þórarinn Má Baldursson. Eins og ráða má af titli bókarinnar er hér ort um dót. Og ekki bara hvaða dót sem er, heldur leikföng – barnaleikföng þá og nú. Alls konar leikföng! Í upphafi hverrar línu ávarpar ljóðmælandi lesandann, gerir góðlátlega grín að sjálfum sér, segir yrkingar erfiðar, hvetur lesanda til að hjálpa og taka þátt. En hann biður líka lesandann um að leggja frá sér skjáinn og vera með fulla athygli við lesturinn.
Það er einmitt það sem við sjö ára álitsgjafinn gerðum. Við lögðum frá okkur skjáinn, komum okkur vel fyrir í sófanum, þétt upp við hvort annað, og áttum saman yndislega lestrarstund. Við lásum um bolta sem fékk váleg endalok, kubba, púsl, leggi og skel, pleimó og æpadda. Það má segja að ekkert sé ljóðmælanda óviðkomandi. Ljóðin eru eins og alltaf uppfull af gríni og eru afskaplega skemmtileg. Samspil mynda og texta er svo alveg einstaklega skemtilegt. Þar bætir vel við húmorinn og hreyfinguna í allri bókinni. Ég naut þess að lesa bókina fyrir son minn og hafði mjög gaman af. En það skiptir litlu hvað mér finnst og öllu hvort bókin hitti markhópinn rétt fyrir.
Þegar bók er útvalin
Við hófum lestur á bókinni um eftirmiðdaginn. Náðum ekki að klára hana í einni setu og því er fyrsta prófið á bókinni þegar fara skal til sængur. Vill barnið láta lesa þessa bók fyrir sig fyrir svefninn? Og svarið var já! Aðspurður sagði hann bókina roooooosalega skemmtilega. Hann hló upphátt að mörgum rímum, kannaðist við leikföngin sem tekin voru fyrir, var sammála börnunum í bókinni sem voru lítið impóneruð af leggjum og skel. Honum fannst þetta í heildina afskaplega skemmtileg bók! Og hefur gripið í hana nokkrum sinnum frá fyrsta lestri.
Í lok bókarinnar dregur Þórarinn svo fram leikfang sem margir myndu eflaust ekki flokka sem leikfang. Nefnilega tungumálið okkar. Í þeirri rímu talaði hann beint í mín eyru en hún féll svolítið flöt fyrir barninu sem á hlustaði. En á heildina litið er bókin vel heppnuð, skemmtileg, uppfull af húmor með smá dassi af boðskap. Það er svo bara lesandans og hlustandans að meta hvort tekið sé á móti boðskapnum eða litið hjá honum.