Fyrir tveim árum kom Nanna Rögnvaldardóttir mörgum á óvart þegar hún sendi frá sér sögulega skáldsögu fyrir jólin í stað sinnar vanalegur matreiðslubókar. Sú bók var Valskan, fyrsta sögulega skáldsagan sem Nanna sendi frá sér og heillaði hún undirritaða upp úr skónum. Í fyrra kom út önnur söguleg skáldsaga frá henni sem var alls ótengd Völskunni. Það var bókin Þegar sannleikurinn sefur sem aftur heillaði undirritaða uppúr skónum. Í þeirri bók breytti Nanna aðeins um stíl og skrifaði sögulega skáldsögu sem var jafnframt ástar- og glæpasaga. Nú hefur hún sent frá sér sjálfstætt framhald þeirrar sögu, Mín er hefndin.
Aftur á Hvamma og ný ráðgáta
Í Mín er hefndin erum við aftur komin að Hvömmum þar sem húsfreyjan Bergþóra býr ásamt börnum og vinnufólki og aftur hefur Bergþóra gengið fram á lík á víðavangi. Í þetta sinn er það karlmaður sem hefur verið ráðinn bani. Maður sem mörgum af sveitungum Bergþóru var illa við svo það eru margir sem geta legið undir grun um morðið. Nokkru áður en Bergþóra gekk fram á lík mannsins höfðu farið fram umdeild réttarhöld þar sem einstaklingar í slæmri þjóðfélagslegri stöðu hlutu þungar refsingar fyrir lítilsháttar brot. Sá látni tengist þeim réttarhöldum og aðrir einstaklingar líka sem mögulega kunna einnig að vera í hættu.
Hafi man lesið Þegar sannleikurinn sefur þá er borðleggjandi að lesa þetta sjálfstæða framhald hennar. Nanna ferðast aftur með okkur til 18. aldar og lýsir lífsháttum tímabilsins af mikilli nákvæmni: húsakosti, mataræði, daglegu amstri og aðstöðumun eftir ættum og eignum. Á sama tíma fylgjum við Bergþóru eftir í sögunni þegar hún tekst á við ráðgátuna og vindur ofan af flóknu sakamáli þar sem samfélagslegar aðstæður og mannleg breyskni fléttast saman. Það sem gerir þessar bækur sérstaklega skemmtilegar í íslensku samhengi er hvernig Nanna nýtir sögulegt efni sem vettvang fyrir glæpasögu. Við eigum ríka hefð fyrir sögulegum skáldsögum og fyrir glæpasögum en að blanda þessu tvennu saman er ekki algengt. Í stað glæpasögu þar sem brasað er með DNA sýni og fingraför fáum við samfélagsstrúktúr þar sem orðspor, stétt og staða ræður för. Lög eru stirð og oft gríðarlega ósanngjörn og í þeim tilvikum sem réttlæti næst þá er það byggt á innsæi og þrautseigju.
Vel heppnað framhald
Nanna er fyrir löngu búin að sýna að sögulegar skáldsögur kann hún að skrifa og það vel. Skiptir þá engu máli hvort þær eru eins og Valskan, pjúra söguleg skáldsaga þar sem fylgst er með lífi og störfum persónanna eða eins og þessar síðustu tvær bækur Nönnu um Bergþóru – söguleg skáldsaga með dass af ástar- og glæpamálum. Mín er hefndin er í engu síðri en forverinn: notaleg, spennandi og ljóslifandi. Skemmtilegir kaflatitlar gleðja enn og ég fann mig aftur hugsa til Agatha Christie við lesturinn líkt og þegar ég las fyrri bókina en nú bættust einnig hugrenningar til Guðrúnar frá Lundi við lesturinn.
Það er yndislegt að fram er kominn höfundur eins og Nanna sem færir okkur sögulegar skáldsögur sem gerast hér á Íslandi með þessum klassíska íslenska barningi, kulda og brasi en einnig hlýju, mennsku og gleði. Hún sýnir okkur lífið á þessum tíma af nærgætni og innsæi, gefur persónunum rými til að vera bæði brothættar og sterkar, praktískar og ástríkar, jarðbundnar en einnig drifnar fram af tilfinningum. Þetta er bók sem bæði yljar og heldur manni spenntum alveg í gegn.






