Ég hef mikið dálæti á afþreyingarbókmenntum – formúlubókmenntum – hvort sem það eru glæpasögur, fantasíur eða skvísubækur. Mér finnst eitthvað kósí við það að setjast niður og lesa góða sögu sem er dálítið fyrirsjáanleg. Þetta á jafnvel við um sögur sem fylgja forminu svo nákvæmlega að ég veit allt plottið þegar bókin er hálfnuð.
Mörgum höfundum er hins vegar mikið í mun að gera eitthvað nýtt. Þeir vilja halda lesanda á tánum út alla bókina og nota til þess ýmis ráð, svo sem missannfærandi mýrarljós (e. red herring), ótrúverðugar afvegaleiðingar eða tvist á tvist ofan. Sumir höfundar ganga það langt að söguþráðurinn fer út fyrir öll mörk þess efa sem lesandi er tilbúinn að setja til hliðar (e. willing suspension of disbelief) og hann gefst jafnvel upp á lestrinum eða gengur frá bókinni ósáttur. En stundum tekst þetta vel til og sú er raunin í bók Claire Leslie Hall, Brostin jörð.
Brostin jörð, sem á frummálinu heitir Broken Country og kom út fyrr á árinu, er þriðja bók breska rithöfundarins Clare Leslie Hall en fyrri bækur hennar, Days You Were Mine og Pictures of Him, hafa ekki verið þýddar á íslensku. Í Brostinni jörð fylgjumst við með Beth Kennedy og lífi hennar í enskri sveit yfir tuttugu ára tímabil, lífi sem einkennist af ást og gleði, sorg og eftirsjá. Bókin var valin í bókaklúbb Reese Witherspoon og hefur kvikmyndaréttur bókarinnar nú þegar verið seldur.
Íslenskur þýðandi bókarinnar er Jón Hallur Stefánsson sem hefur verið tilnefndur til þýðingarverðlauna fyrir fyrri þýðingar sínar sem og hlotið ýmis verðlaun. Í stuttu máli sagt er þýðing Jóns Halls vel gerð. Hún einkennist af góðum og fjölbreyttum íslenskum orðaforða og sjaldan fannst mér ég sá upprunamálið skína í gegn – nokkuð sem því miður plagar stundum íslenskar þýðingar afþreyingarbókmennta.
Þrjár megintímalínur
Bókin er öll sögð í fyrstu persónu frá sjónarhorni Beth og hún gerist á þremur megintímalínum. Fyrsta tímalínan, og jafnframt sú lengsta, nær frá 1955 og fram til u.þ.b. 1965. Í henni fylgir lesandi Beth og körlunum tveimur í lífi hennar, Frank og Gabriel. Innan þess tímabils fylgjumst við með ákafri unglingaást Beth og Gabriels, sem endar eins snögglega og hún hófst, þægilegri sveitarómantík Beth og Franks og að lokum sviplegum atburði sem hefur djúpstæð áhrif á Beth, Frank og Jimmy, bróður Franks. Næsta tímalína á sér öll stað árið 1968. Hún hefst þegar Gabriel kemur aftur inn í líf Beth og Franks og endar á að karlmaður lætur lífið. Þriðja tímalínan gerist árið 1969. Í henni fylgjumst við með réttarhöldum þar sem réttað er yfir þeim sem talinn er ábyrgur fyrir andlátinu sem átti sér stað árinu áður. Í lok bókar er svo stutt framlit til ársins 1975.
Tímalínunum þremur er listilega fléttað saman í gegnum alla bókina. Hver kafli – sem flestir eru frekar stuttir – gerist á einu tímabilanna og er ört flakkað á milli þeirra. Í þeim köflum þar sem sagt er frá atburðum áranna 1968 og 1969 er brugðið upp svipmyndum og er hver kafli eins og ný púsla í flóknu púsluspili. Þessi framsetning – og sú staðreynd að kaflarnir voru stuttir – hélt mér við efnið. Hopp milli tímalína byggði upp spennu og gerði það að verkum að heildarmyndin hélst óskýr fram undir lok bókarinnar (í það minnsta fyrir þennan lesanda).
Eins og að púsla Wasgij-púsl
Upplifun mín á lestrinum var svolítið eins og þegar ég púsla Wasgij-púsl: smátt og smátt féllu púslin á sinn stað en jafnvel undir lok bókar, þegar flest púslin höfðu verið lögð á borðið, var ég ekki alveg viss hver lokamyndin yrði. Hluta af tvisti Brostinnar jarðar áttaði ég mig reyndar nokkuð fljótt á, en nákvæmlega hvað gerðist kvöldið sem allt breyttist náði höfundur að halda mér í vafa um mjög lengi – og það án þess að afvegaleiða mig með pirrandi mýrarljósum eða ótrúverðugum tvistum.
Kvenkyns aðalpersóna – karllæg frásögn
Brostin jörð skiptist í fimm hluta eftir fólkinu hennar Beth: Gabriel, Bobby, Jimmy, Frank og Grace. Þótt hver hluti sé sagður frá sjónarhorni Beth og hún sé aðalpersónan má segja að bókin sé nokkuð karllæg. Clare Leslie Hall tekst vel upp með persónusköpun karlkynspersónanna og er Beth sjálf einnig vel skrifuð. Aðrar kvenkynspersónur – mamma Gabriels, eiginkona Gabriels og Nína, kærasta Jimmys – eru hins vegar hálfinnantómar. Mamma Gabriels er algjör staðalímynd yfirlætisfullrar yfirstéttarkonu og eiginkona Gabriels fær sömuleiðis á sig staðalímyndablæ en fær þó undir lokin að öðlast nokkurn þroska.
Hvorki mamma Gabriels né eiginkona hans eru þó stórar persónur í bókinni og skiljanlegt að þær séu í flatari kantinum. Nína, aftur á móti, er nokkuð stór hluti sögunnar og hefði ég viljað sjá hennar persónu gædda meiri dýpt til að vega upp á móti almennt karllægri frásögn af lífi Beth. Í núverandi formi sínu hefur Nína það hlutverk að gefa Beth rými til að tala um karlana sína, frekar en að vera sjálfstæð persóna. Hún jaðrar við að falla undir staðalímyndina manic pixie dream girl; hress öðruvísi stelpa sem lætur aðalpersónuna fá nýja sýn á lífið. Ég hefði haft áhuga á að sjá samband Nínu og Beth dýpka eða fá að fylgjast áfram með Nínu og hvernig hún tekst við áföllin sem dynja yfir fjölskylduna.
Tilvalin jólabók
Þrátt fyrir þessa smávægilegu agnúa get ég vel mælt með bókinni. Hún er vel heppnuð blanda af glæpasögu og skvísubók, svo vel heppnuð að ég tætti mig gegnum hana á einni helgi. Bókin er tilvalin jólagjöf handa þeim sem vilja verja jólunum í náttfötunum uppi í sófa undir hlýju teppi með heitt kakó, konfekt og góða bók.







