Seigla og úthald landpósta

21. desember 2025

Bókakápa Söguþættir landpóstanna

Söguþættir landpóstanna eftir Helga Valtýsson er bók sem dregur upp skýra og lifandi mynd af starfi sem var um leið lífsnauðsynlegt og afar krefjandi. Þessir söguþættir komu fyrst út í þremur bindum á árunum 1942–1951 og voru síðan endurútgefnir 1973. Nú kemur út ein bók þar sem farið hefur verið í gegnum bindin þrjú og valið úrval sagna úr þáttunum, alls 15 þætti. Það verk unnu Guðjón Ragnar Jónasson og Þorsteinn Þórhallsson.

Bókin fjallar um landpóstana og starf þeirra, hlutverk og aðstæður. Í frásögnum Helga birtast ekki aðeins ferðalög þeirra heldur einnig mynd af samfélagi þess tíma sem þeir störfuðu á, vinnubrögð þeirra og ábyrgðin sem fylgdi því að tryggja samskipti fólks á milli byggða. Hér eru sögur sem varpa ljósi á hvernig póstburðurinn var skipulagður, hvernig menn undirbjuggu sig og hvaða hættur og ófyrirséðar aðstæður gátu mætt þeim á leiðinni. 

Póstburður ein af lífæðum samfélaganna

Mér þóttu þessar sögur landpóstanna einstaklega áhugaverðar. Það er áhrifamikið að kynnast þessum fimmtán mönnum sem eiga sögurnar í bókinni og gegndu starfi landpósta. Það er ótrúlegt að sjá hvað störf þeirra voru erfið og hversu mikið þeir lögðu á sig, hvað þeir létu yfir sig ganga til að sinna störfum sínum og hversu stórt hlutverk þeirra var í daglegu lífi þjóðarinnar. Þetta var jú aðal, jafnvel eini, samskiptamáti fólks á milli byggða. 

Styrkur þessarar bókar og mikilvægi er að hún gerir sögu þessara manna og hvað landpóstar eiginlega voru, aðgengilega nýjum kynslóðum – þar á meðal mér sjálfri. Hún segir frá baslinu og hremmingunum sem þeir lentu í en einnig frá mannlegu hliðinni, ábyrgðinni og þrautseigjunni sem starfið krafðist sem og af fjölskyldunum sem biðu heima í von og óvon um að þeir sneru aftur heim. 

Sögur sem vöktu upp virðingu

Þegar ég lauk bókinni þá gerði ég það með þeirri tilfinningu að ég hafði ekki aðeins lesið mér til fróðleiks heldur einnig fengið innsýn inn í veruleika sem er okkur horfinn. Þetta er vönduð og áhrifarík bók sem sameinar fróðleik og sterkar frásagnir. Hún sýnir skýrt hversu mikilvægt starf landpóstanna var og hversu mikilli seiglu og úthaldi þeir bjuggu yfir og starfið krafðist. Þetta eru magnaðar og áhrifamiklar sögur sem sitja eftir og vekja löngun til að lesa meira. Ég ætla allavega að fara á bókasafnið og ná mér í upprunalegu bækurnar sem eru í þremur bindum og lesa þær sögur sem ekki náðu í bókina. 

Lestu þetta næst

Skilnaður sólar og skýs

Skilnaður sólar og skýs

Hvað gerist þegar skýið og sólin geta ekki lengur búið saman? Barnabókin Neistar sem skrifuð er af...

Morðið í brúðkaupinu

Morðið í brúðkaupinu

Sleggjudómur er þriðja glæpasaga Ragnheiðar Jónsdóttur. Hún sigraði glæpasagnasamkeppnina...