Ragnar Jónasson leggur sitt af mörkum í jólabókaflóð ársins og sendir frá sér bókina Emilía. Ólíkt þeim bókum sem við erum vön að fá frá Ragnari þá er Emilía nóvella og ekki heldur þessi týpíska glæpasaga sem Ragnar er svo þekktur fyrir enda sést það strax á titli bókarinnar. Bókasafns- og upplýsingafræðingurinn í mér myndi skrá titil bókarinnar í bókasafnskerfi þjóðarinnar sem Emilía : draugasaga því jú, draugasaga er undirtitill bókarinnar og kveikti hann og bókakápan sjálf áhuga minn sérstaklega á henni.
Sagan fjallar um Emilíu, unga konu sem flytur af sveitabæ að norðan með foreldrum sínum og ömmu inn í timburhús í miðbæ Reykjavíkur. Fljótlega fer hún að skynja að fjölskyldan virðist ekki vera ein á nýja heimilinu og atburðirnir fá á sig sífellt óhugnanlegri blæ. Bókin er skrifuð í fyrstu persónu og er hún byggð upp af frásögn Emilíu þar sem hún er að líta til baka og rifja upp það sem gerðist á þessum ákveðna tíma í lífi hennar.
Engin pása í frystirinn
Ég fann fljótlega við lesturinn að væntingar mínar til að upplifa spennu og óhug væru mögulega meiri en raunveruleg upplifun mín yrði og þar spilar umgjörðin hlutverk eins og áður sagði. Bókarkápan er frekar „spúkí“ og tekið er fram að þetta er draugasaga svo ég átti von á meiru. Ég átti von á að ég myndi lesa bókina í einum rykk því ég gæti ekki lagt hana frá mér, jafnvel yrði hún að kíkja í smá pásu í frystirinn. En nei, því miður. Spenna var vissulega þó til staðar en hún náði bara ekki þeirri hæð sem ég hafði vonast eftir.
Það sem virkaði hinsvegar mjög vel var hugmyndin og taktur sögunnar. Þar sem þetta er nóvella þá er bókin fljótlesin og sagan er skrifuð af lipurð. Fyrir utan skort á spennu þá var það helst persónusköpunin sem truflaði mig og frásögn aðalpersónunnar. Mér fannst persónan sjálf ekki sérlega djúp en það var þó aðallega frásögn hennar sem truflaði mig. Þegar hún er að rifja upp og meta fortíðina þá fannst mér skorta ákveðinn trúverðugleika í tóni hennar og smáatriðum. Mér fannst ekki sannfærandi að hér væri öldruð kona að rifja upp gamla tíma frá því hún var 19 ára og tengi ég það aðallega við orðfæri persónunnar.
Snarpur, óvæntur endir
Endirinn kom mér hins vegar mjög á óvart og að mínu mati lyftir hann bókinni upp. Það kemur heldur ekki á óvart því Ragnar er virkilega góður í að spinna fléttur og leysa úr þeim og enda á óvæntan hátt. Seinni hluti bókarinnar kom því með skerpu sem ég hafði beðið eftir. Í heildina er Emilía áhugaverð og fljótlesin nóvella með draugalega umgjörð og góðan, óvæntan endi. Það var bara sérstaklega magn spennunnar sem stóð ekki undir þeim væntingum sem ég hafði.







