Sérfræðingur að sunnan rannsakar morð

23. desember 2025

Bókakápa Franski spítalinn

Franski spítalinn er nýjasta glæpasagan úr smiðju Katrínar Jakobsdóttur og Ragnars Jónassonar en þetta er í annað sinn sem þau senda frá sér bók því þau skrifuðu saman bókina Reykjavík sem kom út árið 2022. Sú bók hlaut góðar viðtökur, þar á meðal hjá mér sjálfri og er Franski spítalinn akkúrat sjálfstætt framhald hennar.

Sagan hefst í febrúar 1989 og leiðir okkur austur á Fáskrúðsfjörð þar sem maður finnst látinn á franska spítalanum. Það er eitthvað við slíkt sögusvið sem setur mann strax í gírinn. Gamalt hús með sögu, staður sem hefur geymt minningar og leyndarmál lengur en fólk vill viðurkenna. Sunna, blaðamaður á Morgunblaðinu, fer austur og skynjar fljótt að málið snýst ekki bara um það sem gerðist, heldur líka um leyndarmál sem fólk vill ekki að komi fram í dagsljósið. 

Sjávarútvegsfréttum skipt út fyrir morðmál

Mér fannst mjög ánægjulegt að hitta Sunnu aftur. Þetta er, eins og áður sagði, sjálfstætt framhald fyrri bókar og nú komum við inn í líf Sunnu nokkrum árum eftir að Reykjavík lýkur. Hún er orðin fastráðinn blaðamaður á Morgunblaðinu, er í sambandi með guðfræðinemanum Gunnari og hefur flutt sig um set, býr nú í kjallaraíbúð í Goðheimum. Hún er send austur af yfirmanni sínum á blaðinu til að afla efnis í fréttir um sjávarútvegs- og vegamál sem hljómar fremur óspennandi og afsakið mig, er það. En svo gerist það sem á að gerast í svona krimma, maður er myrtur og allt breytist.

Söguþráðurinn er spennandi og Sunna er áhugaverð persóna. Við fáum að sjá bæði bresti hennar og kosti, hún verður aldrei sérlega fullkomin eða of óþolandi eins og virðist oft einkenna aðalpersónur í spennusögum. Hún er mannleg, stundum óþolinmóð og þrjósk, stundum óviss eða sterk og það gerir hana trúverðuga. Persónusköpun annarra persóna er aðeins misjafnari, sumar eru eftirminnilegar og aðrar eru fremur til staðar til að þjóna fléttu sögunnar. Það truflaði mig ekki mikið en þó nóg til að ég tæki eftir því á köflum. 

Snilldar flétta með óvæntri lausn

Sögusviðið sjálft er svo vel uppbyggt. Bærinn, andrúmsloftið og þessi tilfinning fyrir því að allir þekki alla en vilji samt ekki endilega segja allt um alla, hún er trúverðug. Fléttan sjálf er svo það sem situr eftir. Uppbygging hennar er skemmtileg, sagan heldur spennu vel og lausnin kom mér verulega á óvart. Þetta var ekki endir sem ég hafði séð fyrir mér heldur endir sem fékk mig til að upplifa að höfundarnir hefðu haft góða stjórn á öllum þráðum sögunnar frá upphafi. 

Í heildina fannst mér Franski spítalinn virkilega góð glæpasaga. Hún er vel skrifuð, spennandi og með fléttu sem heldur manni við efnið alveg fram á síðustu kaflana þar sem lausn ráðgátunnar kemur í ljós og hnýtti allt vel saman. Katrín og Ragnar sýna aftur að samstarf þeirra er gjöfult og þau ná vel saman í tóni, byggingu og framvindu sögunnar. Ef Reykjavík var sterkur og góður upphafspunktur þá er Franski spítalinn staðfesting á því að samstarf þeirra er virkilega góð hugmynd og vonandi halda þau því áfram og skila til okkar fleiri bókum í framtíðinni.

Lestu þetta næst

Bræður munu berjast

Bræður munu berjast

Í Ragnarökum undir jökli, nýjust skáldsögu Skúla Sigurðssonar og sjálfstæðu framhaldi af Stóra...

Draugasaga í smáum skammti

Draugasaga í smáum skammti

Ragnar Jónasson leggur sitt af mörkum í jólabókaflóð ársins og sendir frá sér bókina Emilía. Ólíkt...