Í Ljósaseríu Bókabeitunnar er ævinlega ein bók á ári sem er prentuð í lit. Það er auðvitað bókin sem kemur út í desember! Að þessu sinni er jólabók Ljósaseríunnar Jónas ísbjörn og jólasveinarnir eftir Súsönnu M. Gottsveinsdóttur með myndlýsingum Victoriu Buzukina. Hægt er að skrá sig í áskrift að bókum Ljósaseríunnar og fá glænýjar barnabækur í gegnum bréfalúguna.
Jónas er ísbjörn, en hann býr með mömmu sinni og pabba sem eru venjulegir íslenskir bændur. Mannfólk sem sagt. Jónas er samt nokkuð venjulegur íslenskur krakki, svona fyrir utan að vera með dindil og ansi loðinn. Eftirvæntingin eftir jólunum mangast eftir því sem nær dregur en eitthvað undarlegt á sér stað 19. desember, því það er engin skógjöf í skónum hans Jónasar. Þegar Jónas fer út í fjárhús að aðstoða með kindurnar finnur hann undarlegan mann sofandi í heyinu!
Samræður um sveitastörfin
Sagan er gamansöm og einföld og hentar börnum á aldrinum 4-9 ára. Sjálf las ég bókina fyrir mjög tjáningaríkan fjögurra ára dreng sem fannst bókin mjög spennandi, ekki síst þegar undarlegi maðurinn í heyinu var vakinn, þá þurfti að grípa fyrir munninn og fela sig undir sæng því spennan og eftirvæntingin var of mikil. Drengurinn var ekki lengi að bera kennsl á kauða í heyinu og hló reglulega yfir uppátækjum hans. Níu ára bróður hans þótti bókin fínasta lesning. Hann var ánægður að fá jólabók í bókabunkann sinn.
Jónas býr í sveit. Það er gleðilegt að sjá að Súsanna stafar ekki sveitastörfin of mikið ofan í börnin. Fyrir vikið er ekki eytt of miklu púðri eða orðum í að útskýra þá hluti og sagan getur haldið áfram. Hafi þau spurningar þá geta þau vel spurt foreldra sína og þannig skapað samræður um bókina. Að sjálfsögðu skilur undarlegi maðurinn ekkert um nútímatækni og það leiðir til ansi skoplegra samskipta milli Jónasar og hins fornfálega manns.
Myndir og leyndarmál
Ég velti fyrir mér hver sé tilgangurinn með að Jónas skuli vera ísbjörn. Hann er vissulega mjög krúttlegur ísbjörn í meðförum Victoriu, en ég sá ekki að það þjónaði neinum sérstökum tilgangi fyrir framvindu sögunnar og skyldi bara eftir fleiri spurningar en svör. Mögulega koma fleiri bækur um Jónas ísbjörn sem leiða eitthvað fleira í ljós um hans undarlegu tilvist, en þessi bók svarar því ekki fullkomlega.
Myndir Victoriu í bókinni eru dásamlegar. Sérstaklega skemmtilegar þóttu mér myndirnar þar sem slett er úr penslinum og fyrir vikið finnst lesandanum sem hann hafi fengið óvænta innsýn inn í söguna. Henni er slett framan í mann og manni finnst maður hafa séð leyndarmál. Litirnir eru hlýjir og kindurnar eru skemmtilega kómískar.
Jónas ísbjörn og jólasveinarnir er lítil og krúttlega saga með fjölmörgum skemmtilegum uppákomum sem auðvelt er að gleðjast yfir og hlæja að.