Snúbúi skrifar sögur á einföldu máli

Það styttist í útkomu bókarinnar Dagatal­ – sögur á einföldu máli eftir Karítas Hrundar Pálsdóttur. Bókin er önnur sinnar tegundar en fyrir tveimur árum, rétt fyrir Covid, kom út bókin Árstíðir – sögur á einföldu máli. „Þema Dagatals er daglegt líf og almanaksdagarnir á Íslandi. Sögurnar taka fyrir marga hátíðisdaga og siði og venjur í kringum þá, til dæmis að syngja til að fá nammi á öskudaginn og gefa sumargjafir,“ segir Karítas. Báðar bækurnar miða að því að miðla íslensku á einföldu máli til fólks sem vill læra hana. Viðtökurnar á fyrri bókinni hafa verið góðar, en skömmu eftir útgáfu Árstíða þurfti að endurprenta ritið. Bókin hefur verið notuð við íslenskukennslu um allan heim sem og hér heima.

Karítas Hrundar Pálsdóttir, höfundur Árstíða og Dagatals og doktorsnemi í ritlist.

Lestrarklefinn tók stöðuna á Karítas vegna útkomu nýju bókarinnar, Dagatal. Eins og er, er Karítas í doktorsnámi í ritlist við University of East Anglia í Norwich, Englandi. „Þar er ég að rannsaka „enduraðlögun“ og „snúbúa“, það er hvernig það er fyrir fólk sem hefur búið tímabundið erlendis að flytja aftur heim. Doktorsverkefnið skiptist í tvennt, annars vegar smásagnasafn og hins vegar fræðilega bókmenntagreiningu.“ Útgáfa bókanna Árstíðir og Dagatal tengist ekki doktorsverkefninu að sögn Karítasar, þótt hún sæki nokkuð í sinn eigin reynsluheim. Sjálf hefur hún oft flutt á milli landa. „Ég hef varið um þriðjungi ævi minnar erlendis. Ég hef búið ásamt fjölskyldu minni í Danmörku, Minnesota í Bandaríkjunum og á Spáni. Í BA námi mínu var ég svo ár í Japan og nú er ég búsett í Englandi. Á Íslandi er Laugarnesið heima.“ Ætlunin hafi þó aldrei verið að setjast að erlendis. „Ég hef sjálf reynslu af því að vera „nýbúi“ og svo „snúbúi“,“ segir Karítas. „Snúbúi“ er einhver sem hefur flutt í burtu í nokkurn tíma en snýr aftur til heimalandsins.

Covid til skrifta

Þegar samkomutakmarkanir vegna Covid skullu á og fólki var skipað að ferðast innanhúss nýttu margir höfundar tækifærið og ferðuðust um heim ímyndunaraflsins. Karítas var þar engin undantekning. Elstu sögurnar sem birtast í Dagatali skrifaði ég í fyrstu bylgju kóvíd í mars/apríl 2020 þegar fólki var sagt að halda sig heima og ferðast innanhúss. Það var góð afþreying að fara inn í skáldskapinn. Fleiri sögur bættust svo smátt og smátt í safnið yfir eins og hálfs árs tímabil.“ Líkt og sögurnar í Árstíðum eru sögurnar í Dagatal skrifaðar inn í vissa tungumálagetu, eða miða að því að koma til skila vissu tungumáli til lesenda. „Innblásturinn kemur úr hversdeginum. Sögurnar eru á getustigi A2 til B2 samkvæmt Evrópurammanum en hann er til viðmiðunar þegar meta á máltileinkun fólks. Þar er tileinkun tungumáls sett upp sem sex þrepa vegferð (A1 til C2). Ég er að vinna með getustigin á þrepi tvö til fjögur, frá því þegar fólk hefur smá grunn í tungumálinu og þar til það fer að öðlast aukið sjálfstæði sem málnotendur,“ útskýrir Karítas og bætir við að í upphafi tungumálanáms sé auðveldast að læra og skilja það sem er algengt, persónulegt, sammannlegt og hversdagslegt. „Þess vegna inniheldur örsagnasafnið frásagnir af daglegu lífi en einnig sérhæfðari frásagnir sem koma inn á sögu, menningu og svo framvegis. Sögurnar í Dagatali eru merktar eftir getustigi frá 1 upp í 6. Það er sem sagt einu fleiri getustig í Dagatali en í Árstíðum en þannig geta sögurnar haldið áfram að vaxa með lesendum.“

Íslensk gildi og menning í brennipunkti

Karítas vill líka miðla menningu Íslands og gildum til lesendanna í gegnum bækur sínar. Til þess að finna út hvaða gildi ættu þar að vera til umræðu studdist Karítas við rannsóknir sem hafa leitt í ljós það sem Íslendingar meta hvað mest. „Ég valdi að fjalla sérstaklega um jafnrétti, virðingu, lýðræði, fjölskyldu, menntun, vinnusemi og dugnað, ímyndunarafl og sköpun. Jafnrétti og fjölskyldur er rauður þráður í gegnum bókina, sem dæmi koma fyrir fjölskyldur af öllum stærðum og gerðum – einstæðir foreldar, samkynja foreldrar, bónusfjölskyldur, kjarnafjölskyldur og svo framvegis.“

Spurð út í lesendur Árstíða segist Karítas hafa heyrt af notkun bókarinnar á flestum skólastigum, allt frá grunnskóla til háskóla. „Þá hafa sögur úr Árstíðum verið notaðar í þremur ólíkum námskeiðum í Háskóla Íslands, það er í hagnýta náminu í íslensku sem öðru máli og meistaranámi í annarsmálsfræðum á Hugvísindasviði og faggreinakennslu á Menntavísindasviði,“ segir Karítas en bætir þó við að það sé ekki eingöngu í námi sem bókin sé notuð. „Bókin hefur ekki síður verið lesin til yndislestrar, sem sagt ótengt formlegri kennslu, og það hefur verið virkilega gaman að heyra frá lesendum hérlendis og erlendis, til dæmis á Ítalíu og í Japan, Ástralíu, Skotlandi og Kanada.“ Áhugasamir geta kíkt á Instagram-síðu Árstíða til að sjá viðbrögð lesenda bókarinnar.

Hljóðbók, mismunandi raddir og alls konar íslenska

Skömmu eftir útkomu Árstíða var kom hún út sem hljóðbók þar sem tólf lesendur lesa sögurnar. Lesendur eru Albert Halldórsson, Aldís Amah Hamilton, Arna María Eiríksdóttir, Dominique Gyða Sigrúnardóttir, Guy Stewart, Hermann Guðmundsson, Jónmundur Grétarsson, Ólafur Snævar Aðalsteinsson, Silja Aðalsteinsdóttir, Stefanie Bade, Steinunn Ása Þorvaldsdóttir og Þór Hrafnsson Túliníus. „Hugmyndin á bak við það var að fá fólk úr ólíkum áttum til að sýna fjölbreytileika tungumálsins, að íslenska er allskonar. Í tungumálanámi er gott að æfa sig að hlusta á ólíkar raddir, framburð og áherslur því það geta verið tilbrigði í máli fólks eftir bakgrunni þeirra og aldri til dæmis. Þá eru tveir af lesendunum með íslensku sem annað mál,“ segir Karítas.

Nýja bókin Dagatal – sögur á einföldu máli, sem tungumála- og íslenskuunnendur bíða án efa spenntir eftir, kemur út hjá Unu útgáfuhúsi í lok maí.

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...