Efnafræðingur og ekkert nema efnafræðingur

Af þeim bókum sem hafa komið út í sumar þá hefur Inngangur að efnafræði eftir Bonnie Garmus farið hvað hljóðast. Sumarið er tími þýddra skáld- og glæpasagna. Hinn almenni lesandi gleypir í sig hvern léttlesturinn á fætur öðrum og við í Lestrarklefanum erum engin undantekning. En þegar maður er kominn með nóg af froðukenndum ástarsögum eða ýktum skvísubókum þá er gaman að grípa í léttari skáldsögur. Og hér kom bókin Inngangur að efnafræði sterk inn.

Fráhrindandi titill?

Bókin kom út hjá Forlaginu í þýðingu Sunnu Dísar Másdóttur um miðjan júní og mögulega hefur titillinn fráhrindandi áhrif. Þeir sem ekki brenna fyrir efnahvörfum og efnafræði eru kannski ólíklegir til að taka upp bókina. Ég verð þó að segja að bókin greip auga mitt strax. Láttu ekki titilinn blekkja þig, því hér er á ferðinni grípandi og skemmtileg lesning.

Á bólakafi í feðraveldinu

Sagan segir af Elizabeth Zott, efnafræðingi, og árið er 1951. Elizabeth þarf að sanna ágæti sitt sem efnafræðingur á hverjum degi í vinnu sinni við Hastings rannsóknarstofuna. Oftast er tekinn feill á henni og ritara eða hún álitin aðstoðarkona. Sem sagt ekki og aldrei efnafræðingur, þrátt fyrir menntunina. Elizabeth er þó efnfræðingur – ekki kona, ekki ritari, ekki aðstoðarkona – hún er efnafræðingur af lífi og sál. Það flækir málin þó aðeins þegar hún verður ástfangin af Calvin Evans, stjörnuefnafræðingnum á stofnuninni, sem hefur verið tilnefndur til Nóbelsverðlauna fyrir rannsóknir sínar. Það gerir það auðveldara fyrir aðra að telja að hún sé eingöngu með honum vegna orðspors hans og rannsókna. Elizabeth vill ekki smætta sig niður í eiginkonu og alls ekki móður. Hún er efnafræðingur fyrst og fremst og eingöngu.

Örlögin haga því þó þannig, og ekki síst vegna kúgunar feðraveldisins, að Elizabeth stendur eftir einsömul, atvinnulaus og ógift og með barn á framfæri sínu. Þegar henni býðst starf sem þáttastjórnandi í svæðissjónvarpinu slær hún til, enda er matreiðsla ekkert nema efnafræði. Matreiðsluþættirnir hennar eru þó engan veginn eins og aðrir þættir, heldur hvetja þeir konur til dáða og menntunar. Elizabeth hvetur þær til að taka örlögin í sínar hendur.

Afþreying með pólitísku ívafi

Lesandinn kraumar af pirringi við lesturinn á ójafnrétti og óréttlæti sem Elizabeth er beitt. Það snertir strengi í femínísku hjarta hans og í raun má segja að bókin sé rammfemínísk. Sagan minnir á sama tíma á hve langt við erum komin í jafnréttisbaráttunni og hve langt er enn eftir, ekki síst þegar litið er til nýliðinna atburða í Bandaríkjunum (Roe v. Wade). En þótt hægt sé að líta á bókina sem femínískt rit, þá er hún fyrst og fremst skemmtileg afþreying. Ég get ábyrgst að ef þú hafðir gaman af Netflix-þáttunum Queens Gambit þá mun þessi slá í gegn hjá þér. Persóna Elizabeth er ansi lík Beth Harmon í háttum, sérstök og eldklár. Snillingur. Hún þarf að berjast fyrir sínu með sinni sérvisku og viljandi blindu á óskrifaðar reglur feðraveldisins. En vegna sérvisku sinnar koma líka upp skopleg augnablik. Ekkert er öruggt og örlögin geta snúist á einu andartaki. Svo er það ástin… Það er nefnilega allt til staðar í þessari bók; spenna, ást, örlög og barátta einnar konu gegn feðraveldinu.

Bók í öðrum miðli?

Stíll Garmus er þægilegur og aðgengilegur, en fyrst og fremst myndrænn. Hún skrifar eins og hún sé að segja söguna í sjónvarpi eða í bíómynd. Lýsingar eru sannfærandi og tilfinningalíf persónanna blæbrigðaríkt. Maður hefur líka á tilfinningunni að hún hafi lagst í rannsóknir á efni bókarinnar og viti hvað hún er að tala um, en ég hef ekki lagst í að sannreyna staðreynir sem koma fram í bókinni um líf kvenna um miðja tuttugustu öldina í Bandaríkjunum.

Ég er sannfærð um að nú þegar keppist streymisveitur eða kvikmyndaver um útgáfuréttinn á bókinni. Án efa verður saga Elisabeth Zott aðlöguð að sjónvarpi eða kvikmyndatjaldi.

 

Bonnie Garmus er textahöfundur og listrænn stjórnandi og Inngangur að efnafræði er fyrsta bók hennar og kom út í apríl 2022, þegar Garmus er 64 ára.

Nú þegar hefur bókin komið út á 38 tungumálum. Garmus hefur starfað innan tæknigeirans, við lyfjaframleiðslu og kennslu. Hún stundar sjósund, er ræðari og móðir tveggja dætra. Hún er alin upp í Kaliforníu en býr í London í dag með eiginmanni sínum og hundinum 99.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...