Krakkar gegn Vetrarbrautinni og vélmennum

Það er stundum mikil áskorun að ætla að finna bók að lesa fyrir lesanda sem er ekki eins lesglaður og maður sjálfur. Viðkomandi lesandi er elsti sonur minn og mér hefur gengið erfiðlega að fá hann til að lesa bækur sér til skemmtunar. Helst sækir hann í færðibækur um eðlisfræði og náttúruvísindi og það er svo sannarlega ekki um auðugan garð að gresja í þeim flokkum á íslenskum bókamarkaði. Það eru engar bækur fyrir börn á miðstigi eða efsta stigi, sem ég hef rekist á, sem myndu henta honum. Bækur sem eru fræðandi en ekki of fræðilegar. Ég bind vonir við að Sævar Helgi Bragason skrifi fleiri fræðibækur fyrir börn, eins og hann hefur þegar gert. Okkur vantar fleiri svona bækur!

Geimævintýri á ensku

Til að fá eitthvað að lesa fyrir dreginn leituðum við á náðir vísindaskáldsagna. Fyrir nokkru síðan fór ég að fylgja Pétri Atla Antonssyni, teiknara, á Instagram. Hann myndlýsir fjöldann allan af bókakápum fyrir erlendan markað og þar á meðal eru bækurnar um sjöundabekkingana sem þurfa að berjast gegn allri Vetrarbrautinni. Seventh grade vs. the Galaxy og Eight grade vs. the Machines eftir Joshua S. Levy eru hraðar og spennandi bækur.

Krakkarnir í sjöunda bekk á skólageimskipinu PSS 118 komast í hann krappann þegar ráðist er á skólann þeirra. Pabbi Jack, aðalpersónu bókanna, var raunvísindakennari skólans en var nýlega rekinn fyrir að eiga við vélina í skipinu. Það kemur svo á daginn að pabbi Jack átti ekki bara lítillega við skipið, heldur fann hann upp fyrstu ljóshraðavél mannkyns og skyldi stjórntækin eftir í höndum Jack. Til að forða nemendum og starfsólki skólans frá bráðum bana grípa Jack og vinirh ans til þess ráðs að nota ljóshraðavélina og þeyta skólanum burt – langt í burt. Alveg út fyrir Vetrarbrautina og beint í klærnar á mjög flóknum geimverum sem stjórna öllu. Í annarri bókinni heldur ævintýrið áfram, enda voru ekki öll kurl komin til grafar í fyrri bókinni, allir þræðir voru ekki fágengnir og Levy skilur lesendur eftir með fleiri spurningar í lok seinni bókarinnar. 

Ljóshraðavélin og vandræðin

Bækurnar eru hraðar og fyndnar og byggja á raunveruleika bandarískra barna. Skólinn er bandarískur og allt umhverfi, þótt allt eigi sér stað út í geim. Íslenskir krakkar kannast ágætlega við sig í því umhverfi, enda er mest af þeirra afþreyingarefni frá Bandaríkjunum. Þetta bandaríska umhverfi er orðið einhvers konar staðalímynd í afþreyingarheiminum. Ekki beint raunverulegt, en samt eitthvað sem við könnumst öll við. Krakkarnir í PSS 118 eru óskaplega venjulegir krakkar, þau rífast sín á milli og verða skotin í hvort öðru. Þema barnabókarinnar og þroskasagan er því þarna líka. Ekki síst þegar þau þurfa að kljást við erfiðleika og áskoranir sem fylgja ljóshraðavélinni. Það er nefnilega ekki svo heppilegt að pabbi Jack hafi fundið hana upp, því henni fylgja fjöldamörg vandamál. Fyrir allt mannkynið! 

Óviljugi lesandinn minn las þessar bækur, á ensku, og kunni mjög vel við þær. Hann segir þær öðruvísi og söguþráðurinn vera frumlegan. “Þær eru mjög skemmtilegar og geggjaðar og ekki algjört bull.” Og það er það sem skiptir máli. Þarna náði einn lesandi að finna bók við sitt hæfi, en því miður var bókin á ensku, þar sem nær engar vísindaskáldsögur fyrir miðstig og efsta stig í grunnskólum eru þýddar á íslensku. 

Bækurnar um krakkana á PSS 118 eru hraðar og skemmtilegar með kunnuglegum þemum í fjarlægu umhverfi. Þær eru grípandi, fyndnar, leikandi léttar og með dassi af klisju. Allt sem gott og afslappandi lesefni þarf að búa yfir. 

 

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...