Ég datt heldur betur í lukkupottinn um daginn þegar ég uppgötvaði að bókasafnið í Grófinni var nýbúið að taka inn bók sem ég hef haft augastað á síðan í janúar 2021. Bókin sem um ræðir er No Gods, No Monsters, eftir Cadwell Turnbull. Titill bókarinnar er orðaleikur, skírskotun í fræga anarkíska slagorðið “No Gods, No Masters”. Bókin var valin ein af bestu bókum 2021 af New York Times, Audible, Tor.com, Book Riot og fleirum.

Við fylgjum eftir sögupersónunni Lainu sem fær þær fréttir að bróðir hennar hafi látist eftir skotárás lögreglu. Bróðir hennar var heimilislaus fíkill og virðist hafa verið fórnarlamb fordóma, en málin flækjast þegar Laina fær nafnlausa ábendingu frá yfirnáttúrulegri veru um myndbandsupptöku af atburðinum. Upptakan sýnir svart á hvítu að bróðir Lainu var varúlfur. Laina lekur upptökunni á netið og heimurinn þarf skyndilega að takast á við þá staðreynd að skrímsli eru raunveruleg og vilja koma fram í dagsljósið.

Margslunginn söguþráður

Söguþráðurinn hljómar eflaust nokkuð skýr, en inn í hann fléttast fleiri persónur sem hleypa okkur inn í líf sitt. Við fylgjumst náið með Ridley, eiginmanni Lainu, og Rebeccu, kærustu Lainu og einu af fyrstu skrímslunum til að stíga fram í dagsljósið eftir að Laina lekur upptökunni á netið. Við kynnumst einnig barninu Dragon, umskipting sem er bjargað frá samtökum sem virðast hafa ekkert gott í hyggju, og Harry, fráskildum prófessor með akademískan áhuga á leynisamtökum. Yfir og allt um kring er síðan sögumaður sem virðist hafa þann eiginleika að geta flakkað um tíma og rúm.

Það eru eflaust einhverjir tilbúnir til að afskrifa bókina sem „enn eina fantasíuna“, en mig langar að hvetja til þess að þeir sem eru skeptískir gefi henni tækifæri, því hún er svo miklu meira en það. Fyrir það fyrsta blandast inn í söguþráðinn talsverður vísindaskáldskapur, auk þess sem ákveðnir kaflar fá hárin til að rísa. Bókin er þar af leiðandi einkar vel heppnuð samblanda af fantasíu, vísindaskáldskap og hrollvekju. Í grunninn er hún þó einnig kröftug samfélagsádeila sem fjallar um tilhneigingu okkar til að hræðast hið óþekkta og ríghalda í það sem við þekkjum, að líta undan og láta eins og ekkert hafi breyst þrátt fyrir að við höfum óyggjandi sannanir fyrir öðru.

“[People] found it easier to doubt their own memories than to believe the change had been pulled from everyone’s computers, phones and cameras. Mainstream news stopped airing the videos of the protest and the police shooting.”

Bók sem þú annað hvort fílar eða ekki

Ég hafði miklar væntingar til þessarar bókar og varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum með afraksturinn. Frásögnin er áhugaverð og grípandi, en fyrst og fremst listilega vel skrifuð. Sögupersónurnar spanna litróf hinsegin samfélagsins og hafa ólíkan bakgrunn. Turnbull tekst vel upp með að flysja utan af kjarnanum smám saman og hann beitir hinum alvitra sögumanni með hætti sem ég hef ekki kynnst áður og fékk mig nokkrum sinnum til að efast um að ég væri að skilja söguna rétt.

Bókin hefur hlotið gagnrýni fyrir einmitt þetta síðastnefnda, að það sé erfitt að fylgja söguþræðinum og að það sé flakkað of mikið á milli persóna. Ég skil gagnrýnina, en verð að viðurkenna að það sem fór á taugarnar á þeim sem voru ekki eins hrifnir og ég er einmitt það sem hélt mér hugfanginni. Ég get því ímyndað mér að annað hvort fíli fólk hana eða ekki. Bókin er líka (mér til mikillar gleði) fyrsta bókin í þríleik, svo það er ekki alveg bundið um alla hnútana fyrir lok bókarinnar, sem er eitthvað sem virðist hafa fallið í grýttan jarðveg.

Mig langar til að enda umfjöllunina á að deila tilvitnun úr bókinni sem dregur saman eiginlega allt sem mig langar til að segja um þessa bók, af því að hún er einkennandi fyrir boðskapinn:

“Laina and Ridley had found each other exactly as they were, and loved each other still.”

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...