Örlagavaldur í formi pinnahæla

Í hennar skóm kápuforsíða

Bókin Í hennar skóm eftir Jojo Moyes kom út núna í sumar og er þetta ekki í fyrsta sinn sem Bjartur Veröld gefur út bækur hennar á íslensku. Það þykir mér mjög vel gert því bæði eru bækur hennar sannkallaður yndislestur en svo er dýrmætt að sjá bækur á borð við hennar þýddar yfir á okkar ylhlýra tungumál.

Ég hafði áhuga á að lesa þessa bók um leið og ég las aftan á hana því ég tók eftir að þarna var á ferðinni bók sem höfundur hefur unnið upp úr smásögu sem hún gerði einu sinni og kom út í smásagnabók hennar, Paris For One and other stories en þá bók las ég í einni af mínum mörgu útilegum í sumar – greip hana af rælni á bókasafninu og sá ekki eftir því. En í því smásagnasafni er ein saga um konu sem lendir í því veseni að einhver kona tekur töskuna hennar í misgripum í búningsklefanum í ræktinni og skilur eftir sína tösku. Sú taska inniheldur meðal annars rándýra skó. Skó sem hún nýtir í neyð til þess að fara á mikilvæga vinnufundi og valdeflist við það.

Það er nákvæmlega þannig sem Í hennar skóm byrjar.

Ólíkir heimar blandast saman

Sam er kona sem á unglingsdóttur og er gift manni sem hefur undanfarna mánuði legið í þunglyndi eftir að hafa misst bæði föður sinn og vinnu. Fyrir vikið er Sam eina fyrirvinna heimilisins ásamt því að þurfa að sjá um allt sem heimilinu tengist. Álagið er mikið, eiginmaðurinn sýnir henni engan áhuga og yfirmaðurinn hennar er óþolandi rasshaus svo vægt sé til orða tekið. Nisha Cantor er bandarísk kona sem býr tímabundið í Englandi ásamt vellauðugum eiginmanni sínum á meðan sonur þeirra er í heimavistarskóla í Bandaríkjunum. Hún virkar kaldlynd en hún er ákveðin kona sem fær sínu fram. 

Líf þeirra tvinnast saman þegar Sam verður á að taka tösku Nishu í misgripum í ræktinni sem veldur þeim báðum vandræðum. Sam er á leiðinni á mikilvæga fundi og ætlar sér að fara í spariskó sem hún geymir í töskunni en finnur ekki sína skynsamlegu hælaskó. Í staðinn finnur hún rándýra lúxusskó Nishu, Christian Louboutin skó sem eru stórkostlega flottir en ópraktískir. Ekki getur hún farið á fundina í druslulegum strigaskóm svo hún fer í Louboutin skóna og valdeflist við það og rústar fundunum.

Nisha hinsvegar stendur eftir í ræktinni með, að hennar mati, þreyttu ódýru fötin hennar Sam. Hún þarf að fá töskuna sína aftur en verður lítt ágengt svo hún fer aftur á hótelið þar sem hún býr með eiginmanni sínum en kemst þá að því að hún hefur verið læst út úr herberginu þeirra, öll kortin hennar óvirk og hún nær ekki sambandi við eiginmanninn. Hann hefur útilokað hana frá öllum þeirra eigum, hann hefur skipt henni út eins og ónýtri tusku. Hann vill skilnað og hún stendur eftir allslaus með eingöngu símann sinn og fötin sem hún er í. 

Spennandi og fyndin saga – engin tár!

Við fylgjumst því með lífi þessara tveggja kvenna bæði í sitthvoru lagi þar sem þær takast á við áskoranir sem verða á vegi þeirra en einnig átök þeirra á milli og samvinnu. Báðar ganga þær í gegnum hluti sem breyta þeim. Báðar þroskast þær en á meðan Sam þarf að finna hugrekki sitt og valdeflast til að breyta sínum aðstæðum þá þarf Nisha að finna hjá sér auðmýkt og samkennd. Þær þurfa að læra að treysta öðrum, biðja um hjálp og opna sig. Sem persónur eru þær trúverðugar þó þær hefðu mátt kannski taka af skarið í sínum málum aðeins fyrr í sögunni, sérstaklega Sam. Aðrar persónur eru litríkar og skemmtilegar þó þær séu ef til vill ekkert sérlega djúpar en það er líka kannski óþarfi. 

Það gerist margt í sögunni og hún er æsispennandi. Man þarf að hafa sig allan við að bæði fylgja eftir sögunni en líka að geta lagt hana frá sér og sinnt lífinu á milli kafla. Eiginmaður Nishu er hinn hreinasti drullusokkur svo vægt sé til orða tekið svo man verður talsvert spennt fyrir að sjá Nishu vonandi klekkja á honum og ná sínu fram. Sam er góð kona og á allt gott skilið þó hún sé ekki fullkomin. Maðurinn hennar, Phil, man hefur samúð með honum en elsku fólk, tala saman. Heilt yfir er þetta spennandi, fjörug bók með skemmtilegum og litríkum persónum. Hún er líka talsvert öðruvísi en nýlegar bækur höfundar. Það er meira af spennu, húmor og ást heldur en harmleik og atburðum sem myndu mögulega fá lesandann til að fella tár. Það er óvenjulegt svona ef ég miða við reynslu mína af bókum Jojo Moyes. 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...