Stella á vægast sagt klikkaða mömmu.

Mamma klikk eftir Gunnar Helgason kom út fyrir fjórum árum. Þá voru mínir piltar ekki farnir að hafa áhuga á svona saðsömum bókmenntum og því fór bókin undir radarinn hjá okkur, á því herrans ári 2015. En batnandi fólki er best að lifa, ekki satt? Gunnar, sem mér finnst einhvern veginn náttúrulegra að kalla Gunna, hafandi alist upp með Gunna og Felix á skjánum. Svo ég ávarpa höfund svo óformlega héðan í frá og vona að það sé honum ekki óþóknanlegt. Gunni er núna búinn skrifa fjórar bækur um Stellu og fjölskylduna hennar: Mamma klikkPabbi prófessorAmma best og Siggi stíróna, sem kom út fyrir jólin. Þvílík veisla! Mamma klikk hreif mig með sér í ferðalag með Stellu, sannfærði mig um að allt væri hægt og minnti mig óþyrmilega á hvernig það var að vera tólf – alveg að verða þrettán ára.

Mamma klikk er uppseld, að mér sýnist, í bókabúðum þótt enn sé hægt að nálgast rafbókareintak. Líklega hefði ég getað nálgast bókina á bókasafninu en í staðinn valdi ég að hlusta á bókina. Þannig gat ég leikið við ungana og þeir notið sögunnar með mér. Og trúið mér, þeir nutu sögunnar! Gunni sjálfur les inn hljóðbókina og hann nýtir alla sína hæfileika í lesturinn. Hann breytist í sex ára strák með tunguhaft, snobbaða ömmu, pjattaðan nágranna, óperusyngjandi klikkaða mömmu, ofuríþróttamannslegan stóra bróður, sveimhuga föður og gelgjuna Stellu sem stendur á tímamótum í lífinu.

Stella er aðalkonan í bókinni. Hún er sögukonan og segir okkur frá viku í lífi sínu. Vikunni fyrir þrettán ára afmælisdaginn. Vikunni þar sem allt fór á hvolf og Stella ákveður að breyta mömmu sinni sem sé augljóslega orðin klikk. Innsæi Gunna inn í líf gelgjulegrar stelpur olli því að ég velti því fyrir mér á tímabili hvort hann hafi einhvern tímann verið tólf – næstum þrettán ára – stelpa. Ótrúlega nákvæmar lýsingar hans á þankagangi, dramanu og áhugamálum þeytti mér aftur í fortíðina til þessara tímamóta. Þessara tímamóta þegar líkaminn gerir uppreisn, hormónarnir láta ekki að stjórn, stelpudrama nær hámarki og svo verða mömmurnar skyndilega alveg hrikalega klikkaðar. Tungutak Stellu, smáskilaboð og samskipti hennar við vinkonurnar; allt þetta var bara svo fullkomlega sannfærandi. Ég skellihló yfir “broskall, broskall, broskall”-skilaboðunum og leikrænni tjáningu Gunna. Það er langt síðan ég var þrettán ára, en með Stellu ferðaðist ég aftur í tímann. Persónurnar eru allar velmótaðar, heilsteyptar og ýktar á skemmtilegan hátt.  Sjálf kolféll ég alveg fyrir hinum ofur-krúttlega sex ára Sigga og Frozen söngnum hans (mögulega spilar þar inn fagur söngur Gunna á hljóðbókinni). Ég mun líklega lesa allar bækur Gunna með hans röddu héðan í frá, það er bara svo miklu skemmtilegra. Stíll Gunna er afslappaður og leikrænn, sem ég get ímyndað mér að skili sér vel við lestur bókarinnar.

En! Og hér skulu þeir sem ekki hafa lesið bókina hætta að lesa. Hafir þú enga hugmynd um hvað bækurnar eru skaltu hætta að lesa. Þetta er Höskuldarviðvörunin.

Stella er ekki eingöngu tólf ára stúlka sem á klikkaða mömmu, er með vinkonudrama, er fatasjúk og langar að eiga besta þrettán ára afmælisdag í heimi. Hún er líka í hjólastól. En Gunni lætur það ekki vera aðalmálið í bókinni, þótt vissulega dúkki það upp af og til. Foreldrar hennar þurfa að berjast fyrir því að hún njóti sömu réttinda og önnur börn, borga háar upphæðir fyrir hjálpartæki svo hún geti stundað tómstundir og berjast gegn fordómum samfélagsins fyrir hennar hönd. Ég held að það hafi aldrei verið sagt berum orðum að Stella sé í hjólastól í bókinni. Henni er ekki vorkunn fyrir það og það er svo langt frá því að vera það sem mótar hana sem persónu. Aftur á móti virðist það vera aðalatriðið fyrir marga aðra í kringum Stellu. Þeir sem ekki hafa heyrt orðið ableismi ættu að kynna sér það. Sennilega er þessi boðskapur í bókinni ekki eitthvað sem krakkar myndu taka sérstaklega eftir, þótt ég hafi heyrt af krökkum sem hafa nýja sýn á krakka í hjólastólum eftir lestur bókarinnar. Þetta er hinn duldi boðskapur í bókinni. Þótt einhver sé í hjólastól eða fatlaður eða eitthvað annað, þá þýðir það ekki að manneskjan sé frábrugðin okkur í þankagangi eða að það beri að tala niður til hennar eða vorkenna henni.

Mamma klikk fær skínandi dóma frá mér. Bókin er skemmtilega skrifuð og ég átti erfitt með að slíta mig frá henni, nýtti hvert lausa andartak til að hlusta. Gunni les hljóðbókina frábærlega og ég mæli hiklaust með því að hlusta á hljóðbókina með krökkunum. Ég stóð mig oftar en einu sinni að því að skellihlæja upphátt við hlustunina.

Lestu þetta næst

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...